Vesturbæingar eru áfram um að gerðar verði bragarbætur í hverfinu sem stuðlað geti að auknu öryggi gangandi vegfarenda. Könnun sem Íbúasamtök Vesturbæjar létu gera leiddi í ljós að margir telja að koma þurfi upp öruggri göngubraut yfir Hringbraut. Yrði henni markað breitt upplýst svæði og gróf klæðning á yfirborði yrði til að ökumenn drægju úr hraða. Þetta segir Birgir Þröstur Jóhannsson, formaður íbúasamtakanna.
Leggja orð í belg
„Samfélagsmiðlar eru starfi okkar mikilvægir. Íbúar leggja orð í belg og taka þátt og stjórn samtakanna tekur af skarið og setur mál á dagskrá,“ segir Birgir Þröstur. „Við höfum sérstaklega litið til nýbygginga við hafnarsvæði Vesturbæjar og barist fyrir lágreistari byggð sem væri í hlutföllum við þau hús sem fyrir eru. Við berjumst fyrir almennum rétti íbúa og nauðsyn samráðs. Íbúarnir eru á vissan hátt eigendur þess hverfis sem þeir búa í og eru aðalhagsmunaaðilarnir þegar kemur að framkvæmdum.“Sem dæmi um viðfangsefni Íbúasamtaka Vesturbæjar um þessar mundir nefnir Birgir aftur umferðarmálin, svo sem Hringbraut sem sker Vesturbæ í tvennt. Börn úr þeim hluta hverfisins sem er ofan Hringbrautar eigi þar oft leið um og fari í skóla, sund og á íþróttaæfingar.
Fleiri til þátttöku
„Við höfum bent á nauðsyn þess að merkja gangbrautir og setja gönguljós yfir Mýrargötu og Ánanaust,“ segir Birgir. Bætir við að nú séu samtökin einnig í samvinnu við stjórn KR um fá ný svæði fyrir íþróttaaðstöðu. Þörfin þar sé brýn.Starf íbúasamtakanna hefur, að sögn Birgis, einkum beinst að hagsmunum þeirra sem búa norðan Hringbrautar. Nú sé hins vegar á dagskrá næsta aðalfundar að stækka samtökin formlega og fá íbúa á Melum, Skjólum og Granda til þátttöku, enda margt á þeim slóðum sem vert sé að huga að og vinna að úrbótum.
sbs@mbl.is