Höfnin í Vestmannaeyjum Þeim fjölgar stöðugt ferðamönnunum sem leggja leið sína til Eyja. Sú fjölgun er talin kalla á uppbyggingu innviða.
Höfnin í Vestmannaeyjum Þeim fjölgar stöðugt ferðamönnunum sem leggja leið sína til Eyja. Sú fjölgun er talin kalla á uppbyggingu innviða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Vestmannaeyjahöfn hefur fengið tilkynningu um komu 40 skemmtiferðaskipa næsta sumar og er það um tvöföldun frá fyrra ári. Gangi það eftir mun metfjöldi ferðamanna heimsækja Eyjarnar næsta sumar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Vestmannaeyjahöfn hefur fengið tilkynningu um komu 40 skemmtiferðaskipa næsta sumar og er það um tvöföldun frá fyrra ári. Gangi það eftir mun metfjöldi ferðamanna heimsækja Eyjarnar næsta sumar.

Ólafur Þór Snorrason, hafnarstjóri í Vestmannaeyjum, segir minnst þriðjung væntanlegra skipa of stóran til þess að geta komið inn í höfnina. Þessi aukna umferð kalli, ásamt þörfinni fyrir að geta tekið á móti stærri flutningaskipum, á að byggður verði stórskipakantur.

Skipin stækka stöðugt

Væntanlega yrði hann norðan við höfnina, út af Eiðinu sem tengir Heimaklett við eyjuna. Hönnun og prófunum er lokið og var kostnaður við gerð kantsins áætlaður 3,4 milljarðar króna árið 2011.

„Hún er þröng hjá okkur höfnin og erfið og skipin eru alltaf að stækka. Það helst í hendur við flutningaskipin líka. Stærsti akkurinn í þessu yrði að geta tekið á móti stærri flutningaskipum. Skipafélögin vilja geta siglt stærri skipum hingað,“ segir Ólafur Þór.

Spurður hvaða tekjur skemmtiferðaskipin skapi orðið fyrir höfnina segir Ólafur Þór að þegar þau séu orðin 40 talsins sé farið að muna um það í rekstrinum. Fyrr á öldinni hafi á bilinu 7-14 skip komið árlega – þau voru 20 í fyrra – en nú komi bæði fleiri og stærri skip. Hann tekur fram að veður geti sett strik í reikninginn og leitt til þess að skemmtiferðaskip komi ekki til Eyja.

„Þriðjungur af skipunum eru það stór að við getum ekki tekið þau inn í höfnina. Það fer aftir aðstæðum hverju sinni hvað við getum tekið stór skip inn en ljóst að stærstu skipin komast ekki inn í höfnina eins og hún er í dag“ segir Ólafur Þór.

24-faldur íbúafjöldinn

Páll Marvin Jónsson, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja, segir áætlað að um 80 þúsund ferðamenn hafi komið með Herjólfi til Eyja í fyrra og um 30 þúsund með flugi, alls 110 þúsund manns, sem er 24-faldur íbúafjöldi Eyja. Ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum bætast þar við.

Hann segir aðspurður ekki hafa verið áætlað hversu margir ferðamenn muni koma í sumar. Unnið sé að stefnumótun fyrir árið. Þar sem Herjólfur geti að óbreyttu ekki flutt mikið fleiri farþega þurfi aukningin að verða með fjölgun ferða hjá Herjólfi, með flugi, með öðrum bátum eða með skemmtiferðaskipum. Bygging stórskipakants sé forsenda þess að hægt sé að fjölga farþegum skemmtiferðaskipa enn frekar.

Páll Marvin segir það hafa komið til umræðu hjá samtökunum um daginn hvort fjöldi ferðamanna sé kominn að þolmörkum á vinsælustu stöðunum. „Viljum við fá fleiri ferðamenn? Það er ekkert gefið. Það hefur lítið verið byggt upp af göngustígum og innviðum,“ segir hann.

Sigurmundur Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours, væntir þess að eftirspurn eftir bátsferðum og rútuferðum um Eyjarnar muni aukast í sumar vegna mikillar fjölgunar skemmtiferðaskipa.

Að hans sögn komu um 130 þúsund farþegar á ári til Eyja með Herjólfi þegar ferjunni var siglt frá Þorlákshöfn. Stærsti hluti farþega var þá heimamenn. Eftir að ferjan hóf siglingar frá Landeyjahöfn hafi farþegum fjölgað í 298 þúsund og eru ferðamenn nú í meirihluta. Að auki flutti Viking Tours um 5 þúsund manns milli lands og Eyja í fyrra.