Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Rammi hf. í Fjallabyggð hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Rammi hf. í Fjallabyggð hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir að tími hafi verið kominn til að endurnýja skipakost fyrirtækisins, en nýja skipið leysir af hólmi frystitogarana Mánaberg, 43 ára, og Sigurbjörgu, 36 ára.

Frystitogurum hefur fækkað í flotanum undanfarin ár, en Ólafur segist sannfærður um að fyrirtækið sé á réttri leið með því að endurnýja skipakostinn með nýju og fullkomnu frystiskipi. Sem rök nefnir hann samsetningu aflaheimilda fyrirtækisins, samfélagslegar aðstæður í Fjallabyggð og markaði sem Rammi hafi byggt upp erlendis fyrir afurðir sínar.

Nýi togarinn verður mjög sparneytinn, sem sést á því að hann mun brenna álíka mikilli olíu og annar togarinn sem hann leysir af hólmi.

Mikil fjárfesting í skipum

Vaxandi fjárfesting hefur verið í íslenskum sjávarútvegi síðustu misseri. Nú er verið að smíða þrjá ísfisktogara og tvö uppsjávarskip fyrir HB Granda í Tyrklandi. Þar er einnig verið að smíða þrjá ísfisktogara fyrir Samherja og Útgerðarfélag Akureyringa og einn fyrir Fisk Seafood á Sauðárkróki. Í Kína er verið að smíða tvo ísfisktogara fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið–Gunnvör í Hnífsdal.
Fullkomið skip
» Nýja skipið verður 80 metra langt og 15,4 metrar á breidd.
» Í áhöfn verða 34, en kojur verða fyrir 38.
» Frystigetan verður 90 tonn af afurðum á sólarhring.
» Sjálfvirkni á vinnsluþilfari verður meiri en nú þekkist á flakafrystitogurum.