Þorsteinn Víglundsson
Þorsteinn Víglundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sáttafundur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, sem fram fór í gær hjá Ríkissáttasemjara, skilaði litlum sem engum árangri.

Sáttafundur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, sem fram fór í gær hjá Ríkissáttasemjara, skilaði litlum sem engum árangri. „Það er augljóst mál að það er enn mjög mikill munur á milli aðila þegar kemur að launaliðum en við ræddum ýmsa aðra þætti sem báðir aðilar eru reiðubúnir að skoða saman,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Fundurinn var stuttur og varð samkomulag um að funda aftur á þriðjudaginn í næstu viku. Þorsteinn segir launakröfur helstu hindrun samningaviðræðnanna og telur þar annars vegar ólíkar kröfur einstakra aðildarfélaga gera viðræðurnar snúnar og hins vegar að gríðarlega mikill munur sé á afstöðu samningsaðila um svigrúm til launahækkana.

Sjálfstæðar kröfur eðlilegar

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, vísar því á bug að skortur á samræmdum launakröfum sé sérstök hindrun í kjarasamningsviðræðum. „Starfsgreinasambandið er sjálfstætt samband sem setur fram kröfur sinna félagsmanna. Við erum ekki að semja fyrir aðra hópa og ég ætlast til þess af Samtökum atvinnulífsins að þeir virði okkar rétt til að setja fram okkar eigin kröfur og ræða þær,“ segir Björn og tekur það sérstaklega fram að ekki sé á dagskrá að ræða samræmda launastefnu.

Fundur Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær var heldur dræmur að sögn Björns en hann segir öll svör frá Samtökum atvinnulífsins hafa verið rýr og léleg. „Við ræddum einstök sérmál eins og samninga um veitingahús en það þarf að bæta verulega í ef ná á samkomulagi.“