Þó svo að glæstur fyrirsætuferill hafi verið rétt handan við hornið var Ásdís María Franklín, ótrúlegt en satt, í óttalegum vandræðum með sjálfa sig sem unglingur. „Ég var þarna að detta inn í þennan kafla í lífinu þegar sjálfstraustið minnkar. Ég var frekar ósátt með sjálfa mig og læddist meðfram veggjum í skólanum. Ekki hjálpaði til að ég var enn frekar smávaxin í samanburði við hinar stelpurnar, tók ekki vaxtarkipp fyrr en ári síðar, og fannst nefið mitt stórt og í engu samræmi við restina af líkamanum,“ segir hún. „Það fylgir þessum árum óhjákvæmilega að þurfa að læra að sættast við hvernig maður er, þroskast og finna sjálfan sig sem maneskju.“
Í góðu yfirlæti erlendis
Ásdís er í dag búsett í Noregi með eiginmanni sínum og þremur börnum þeirra. Þar settist fjölskyldan að fyrir fjórum árum og bjó fyrstu þrjú árin í Stafangri, en síðar í Fredrikstad austar í landinu. „Við ákváðum að flytja til að vera nær ættingjum og vinum sem við eigum í Svíþjóð og Osló. Í Stafangri fundum við að vegalengdirnar gátu verið fulllangar til að rækta sambandið við þetta fólk.“Ásdís segir lengi hafa staðið til að flytja til Skandinavíu. „Við vorum með þessa hugmynd í maganum í tíu ár, vorum að spá í að fara á meðan ég var enn í námi í lyjafræði, en svo langaði mig að byrja á því að starfa fyrst á Íslandi í nokkur ár. Ég hafði unnið sem lyfjafræðigur á Íslandi í fjögur ár þegar við pökkuðum saman og héldum af stað. Við hugsuðum sem svo að það yrði áhættunnar virði að segja upp vinnunni og láta slag standa, annars myndum við sjá eftir því á elliheimilinu að hafa ekki drifið okkur.“
Margar veislur á sama stað
Fermingardagurinn var 16. apríl 1992 og fermdist Ásdís í Akureyrarkirkju. Ásdís segir minningarnar frá deginum ekki alveg ljósar, því yngri systur hennar og börn móðursysturinnar í Svíþjóð létu einnig ferma sig á Akureyri og var veislan þá haldin á heimilinu. „Þess vegna veit ég ekki alveg með vissu hvaða minningar eru úr minni veislu og hvaða minningar úr fermingarveislu annarra.“Ásdís man eftir góðu veðri og flottum veitingum. „Mamma og pabbi kunnu að halda stílhrein og falleg matarboð. Réttunum var ekki hrúgað á borðið en samt nóg af mat; heitur matur og ein til tvær kökur á eftir með kaffinu. Allt var búið til heima, roastbeefið látið marínerast í kryddlegi nokkra daga á undan, og svo kom kokkur á heimilið til að vera mömmu innan handar í veislunni.“
Upp úr stóð þennan dag að besta æskuvinkona Ásdísar, Stefanía Stefánsdóttir, fékk að koma alla leið norður frá Reykjavík til að taka þátt í stóra deginum, og Ásdís var að sama skapi send suður þegar vinkonan fermdist.
Hætt komin með Carmen
Fermingardagurinn hófst snemma því ekki kom annað til greina en að gera veglega fermingarhárgreiðslu. Hárgreiðslukona kom á staðinn og „hún var svo djörf að setja í mig Carmen-rúllur, í þetta síða og óvenjuþykka hár, og þegar kom að því að losa rúllurnar hafði eitthvað flækst. Á tímabili var hætta á að ég yrði of sein í kirkjuna og þurfti þrjár konur til að losa síðustu rúllurnar.“Fermingarfötin voru hvít frá toppi til táar. „Ég var í hvítum skóm, ljósum sokkabuxum og hvítum stuttbuxum yfir. Að ofan klæddist ég einhvers konar hvítri jakkapeysu sem náði rétt niður fyrir brjóst, og tók svo við hvítt net sem hékk niður á læri eins og kjóll.“
Húsgögnin entust
Minnist Ásdís þess ekki að jafnaldrar hennar hafi lagt mikla áherslu á fermingargjafirnar. „Ég fékk bara passlega mikið af alls konar gjöfum; mikið af hálsfestum og eitthvað af peningum í umslagi. Frá foreldrum mínum fékk ég ný húsgögn í herbergið mitt,“ segir hún. „Þessi húsgögn fylgdu mér lengi og þegar við fluttum út til Noregs tók systir mín við bókahillunni. Hún ákvað reyndar að uppfæra mubluna og skipti út hvítum hillunum fyrir mahóníhillur.“ai@mbl.is