Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Mark Lippert, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, þurfti að undirgangast aðgerð í gærmorgun á sjúkrahúsi í Seúl, eftir að tilræðismaður réðst á hann með eldhúshníf. Árásin var víða fordæmd, en ríkisfréttamiðill Norður-Kóreu fagnaði henni sem „réttlátri refsingu“ fyrir heræfingar Suður-Kóreumanna með Bandaríkjamönnum, sem hófust fyrr í vikunni.
Lippert var viðstaddur morgunverðarfund þar sem hann átti að flytja ræðu þegar tilræðismaðurinn, Kim Ki-Jong, stökk úr sæti sínu, hrópaði slagorð til stuðnings sameiningar Kóreuríkjanna og réðst að sendiherranum. Hlaut Lippert 10 sentímetra langan skurð á hægri kinn og auk þess sár á höndum þegar hann reyndi að verja sig úr sæti sínu. Kim var snúinn niður og færður á lögreglustöð.
Mátti litlu muna að verr færi
Á blaðamannafundi á sjúkrahúsinu þar sem gert var að sárum Lipperts sagði einn af læknum hans að hefði skurðurinn á andliti sendiherrans verið aðeins neðar hefði hálsslagæð Lipperts getað farið í sundur. Einnig kom fram á fundinum að taugar hefðu skaddast í vinstri úlnlið Lipperts en læknum hefði tekist að laga þær. Gert er ráð fyrir að Lippert dvelji á sjúkrahúsinu næstu þrjá til fjóra daga.Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur fordæmt árásina og hringdu bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Lippert til þess að óska honum skjóts bata. Kerry, sem nú er í heimsókn í Sádi-Arabíu, sagði við fjölmiðla að Bandaríkjamenn myndu aldrei láta undan ógnunum á borð við þessa árás.
Vildi reisa Kim Jong-il styttu
Forseti Suður-Kóreu, Park Geun-Hye, fordæmdi einnig árásina og sagði hana árás á bandalag Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Park er sjálf með ör á hægri vanga eftir að ráðist var á hana með svipuðum hætti í kosningabaráttu árið 2006.Tilræðismaðurinn Kim Ki-Jong er 55 ára gamall og hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm árið 2010 fyrir að hafa kastað grjóti að sendiherra Japana í Suður-Kóreu.
Kim Ki-Jong er sagður styðja sameiningu ríkjanna á Kóreuskaga og heimsótti Norður-Kóreu minnst sex sinnum árin 2006 og 2007. Hann reyndi að reisa minnismerki um Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu, eftir andlát hans árið 2011, en var stöðvaður af lögreglu og íhaldssömum Suður-Kóreubúum.
Bandaríkin fordæmd
Viðbrögð Norður-Kóreu við árásinni skáru sig nokkuð frá öðrum, þar sem hin ríkisrekna KCNA-fréttastofa lýsti því yfir í fyrirsögnum frétta sinna af árásinni að árásin á Lippert hefði verið „réttlát refsing fyrir stríðsmang Bandaríkjastjórnar“. Fordæmdi fréttastofan Bandaríkin fyrir að hafa tekið þátt í sameiginlegum heræfingum með Suður-Kóreu.Sagði ennfremur í fréttum ríkisfjölmiðilsins að árásin hefði verið gild „yfirlýsing mótspyrnu“ gegn Bandaríkjunum, og að hún sýndi hvert almenningsálit Suður-Kóreubúa væri á Bandaríkjunum.