Hafliði Jónsson fæddist í Setbergi á Húsavík 9. desember 1938. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 14. mars 2015.

Foreldrar hans voru Jón Sörensson sjómaður, f. 18.2. 1894, d. 2.5. 1979, og Guðbjörg Jóhannesdóttir húsmóðir, f. 10.10. 1903, d. 23.4. 1971. Systkini Hafliða eru Jóhann Kristinn, f. 1924, d. 1994, Sören, f. 1925, d. 1992, Ingibjörg, f. 1928, Skúli, f. 1930, d. 2014, Kristín Sigurbjörg, f. 1935, d. 2003, og Sigún, f. 1942.

Hafliði kvæntist 25. desember 1959 Guðbjörgu Tryggvadóttur frá Hafranesi við Reyðarfjörð, f. 8.2. 1934, d. 25.1. 1977. Börn þeirra eru: 1) Ari, f. 1.4. 1959, 2) Dóra, f. 1.10. 1961, gift Ingólfi Hjaltalín, f. 21.5. 1959, og eiga þau fjögur börn: Hafliða, f. 12.2. 1980, kvæntan Helgu J. Traustadóttur, Evu, f. 26.5. 1982, gift William Hayhurst, Olgu, f. 22.6. 1986, og Ingunni, f. 10.1. 1988, í sambúð með Andra Þorlákssyni. Dóra og Ingólfur eiga níu barnabörn. 3) Rut, f. 20.11. 1969, gift Ingólfi H. Arnarsyni, f. 30.12. 1964, og eiga þau þrjú börn: Arndísi, f. 28.3. 1990, Hauk og Hafþór, f. 28.6. 1999.

Hafliði kvæntist 10. apríl 1980 Margréti Eiríksdóttur frá Nýlendu á Stafnesi, f. 3.12. 1948, d. 15.6. 2005. Dóttir þeirra er Huld, f. 5.9. 1981, í sambúð með Jóhanni Gunnari Sigurðssyni, f. 27.9. 1978, og eiga þau tvö börn: Margréti Sif, f. 26.12. 2006, og Kristján Gunnar, f. 30.8. 2009. Uppeldisdætur Hafliða eru: 1) Anna Margrét Gunnarsdóttir, f. 21.9. 1970, í sambúð með Pétri B. Eggertssyni, f. 1.9. 1968, og eiga þau tvö börn: Gunnar Svein, f. 30.1. 1998, og Andreu, f. 31.10. 2000, og 2) Dagbjört Erla Gunnarsdóttir, f. 13.8. 1972, í sambúð með Ágústi Hermannssyni, f. 29.10. 1971, og eiga þau þrjár dætur: Huldu Ösp, f. 23.4. 1999, Agnesi Björk, f. 7.9. 2004, og Hildi Örnu, f. 25.10. 2009.

Hafliði ólst upp í Setbergi ásamt systkinum sínum og foreldrum. Hann var næstyngstur í röð sjö systkina. Hann sótti Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Húsavíkur á sínum uppvaxtarárum og að skyldunámi loknu fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann var við nám við Efnalaugina Glæsi. Að loknu stuttu verknámi vann hann um tíma í Efnalaug Húsavíkur. Hafliði hóf nám í málaraiðn hjá Ingvari Þorvaldssyni á Húsavík árið 1964 og lauk sveinsprófi 1967. Hann fékk meistararéttindi árið 1970 og starfaði sem málarameistari allan sinn starfsferil eða fram til ársins 2008. Samhliða málarastarfinu rak Hafliði verslun með málningarvörur á Húsavík, m.a. í Þórarinshúsi og Hlöðufelli.

Árið 1957 kynntist Hafliði Guðbjörgu og hófu þau sína sambúð í foreldrahúsum hans, í Setbergi, þar sem þau bjuggu með frumburð sinn fyrstu mánuðina á meðan þau byggðu sér hús í Höfðabrekku 18. Hafliði bjó lengst af í Höfðabrekku 18 eða fram til ársins 1997 þegar hann fluttist í Grundargarð 4 á Húsavík.

Hafliði og Margrét hófu sambúð árið 1977 og bjuggu þau í Höfðabrekku 18 alla sína hjúskapartíð. Þau slitu samvistum árið 1996.

Hafliði verður jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag, 21. mars 2015, hefst athöfnin kl. 14.

Jæja, pabbi minn, þá er kallið komið. Heldur fyrr en við reiknuðum með en þó svo akkúrat á réttum tíma eins og þú hefðir helst viljað. Sáttur við guð og menn og búinn að kveðja þitt fólk.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum en þegar á heildina er litið hefði ég ekki getað óskað mér betri pabba og börnunum mínum varstu besti afi í heimi.

Síðustu vikur hafa verið afar lærdómsríkar fyrir okkur bæði, þú lærðir að þiggja og ég lærði hvílík gjöf æðruleysi eins og þitt getur verið.

En svo ég noti þín eigin orð, menn verða ekki sjálfkrafa dýrlingar þótt þeir kveðji okkur hérna megin, þannig að ég hef þetta ekki lengra og bið fyrir bestu kveðjur í sumarlandið.

Þín,

Rut.

Elsku pabbi/afi Hafliði okkar,

nú ertu farinn frá okkur, aðeins of snögglega, en þó alveg eins og þú hefðir kosið. Það var eins og þú hefðir fundið það á þér, að nú væri tíminn kominn. Þegar þú keyptir kökurnar í kökuboðið deginum áður en þú kvaddir, þegar þú baðst Lindu um að passa stubbana þína, taka við af þér, að þú treystir á þau Kidda. Hvernig þú kvaddir fólkið þitt, sagðist sjá það síðar. Við erum svo þakklát fyrir þessa síðustu daga. Fyrir að hafa fengið að vera með þér, fyrir að hafa getað hjálpað þér að vera heima.

Elsku pabbi/afi Hafliði, það eru engin orð til að lýsa því hversu mikið þú gafst okkur fjölskyldunni. Þú varst kletturinn okkar, besti vinur og ráðgjafi, alltaf til staðar. Þú hafðir ótakmarkaðan tíma fyrir stubbana þína, sem voru svo heppin að hafa þig, þú gafst þér alltaf tíma til að koma og slökkva elda milli systkinanna ef þurfti og þá þurfti ekki nema að heyrast bank í hurðinni niðri og lágvært kall á stubbana, þá datt allt í dúnalogn. Þú hafðir einstakt lag á þeim og þú varst þekktur um bæinn sem afi Hafliði. Þau voru jafn stolt af þér, eins og þú varst af þeim. Virðingin var gagnkvæm og enn í dag er erfitt að koma orðum að sambandinu ykkar, það var einstakt.

Elsku pabbi/afi Hafliði, við eigum ótal myndir af þér í huga okkar og hjörtum: í þykjustukaffiboði inni í barnaherbergi, sitjandi á gólfinu með þeim að kubba, í sandkassanum að baka sandkökur og í bílnum þínum á leið einn hring. Þær voru óteljandi bílferðirnar sem þú fórst með stubbana þína og óteljandi símtölin sem þú fékkst frá þeim, þar sem þú hlustaðir af áhuga á það sem þau höfðu að segja. Allt eru þetta dýrmætar perlur sem við festum nú á keðju minninganna.

Elsku pabbi/afi Hafliði, við elskum þig af öllu hjarta. Minningin um þig lifir með okkur um ókomna tíð. Takk fyrir allt.

Þín,

Huld, Jóhann, Margrét Sif og Kristján Gunnar.

Mig langar að minnast Hafliða Jónsonar, mágs míns í mörg ár.

Ég kynntist honum er þau Margrét systir mín hófu sambúð árið 1979. Ári síðar giftu þau sig. Hafliði kom mér fyrir sjónir sem elskulegur maður, fullur af glettni og lífi. Magga systir var fótaaðgerðarfræðingur og stundaði vinnu sína lengst af á heimili þeirra í Höfðabrekku 18 á Húsavík. Síðar hafði hún aðsetur og verslun annars staðar í bænum. Alltaf var hún studd af Hafliða málarameistara. Þau Magga og Hafliði eignuðust saman eina dóttur, Huld, sem erfir og ber með sér það allra besta frá foreldrum sínum.

Magga átti tvær dætur frá fyrra hjónabandi sem Hafliði gekk í föðurstað.

Ég veit að þær eins og hin börnin hans minnast hans sem góðs föður.

Og ekki síður minnast börn þeirra systra hans sem yndislegs afa.

Hafliði var ekkjumaður er þau systir mín kynntust. Hann á þrjú börn frá fyrra hjónabandi. Ég kynntist aðeins yngstu dóttur hans, Rut, sem ólst upp með dætrunum þrem. Yndisleg stúlka.

Ég kom oft á heimili þeirra með dætrum mínum og dvaldi stundum lengur en skemur. Fyrir þær móttökur og elsku mér sýnda, þakka ég.

Leiðir Möggu og Hafliða skildi á tíunda áratugnum. Lífið var þeim ekki alltaf auðvelt. En Hafliði hefur alltaf verið vinurinn sem gott var að heimsækja og leita til. Góð vinátta var einnig alla tíð með Bjössa bróður mínum og honum.

Það eru tæp tíu ár á milli brottferðar þeirra Möggu og Hafliða.

Við Gunnar vottum stórfjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Sigurbjörg Eiríksdóttir.

Við höfum ekki verið mjög háar í loftinu þegar við hittum Hafliða fyrst og okkar fyrstu minningar tengdar honum eru sveipaðar hálfgerðum töfraljóma. Það er kannski við því að búast þegar æskuminningar eru rifjaðar upp, að þær góðu vegi hæst, en auðvitað skiptust á skin og skúrir eins og í flestum öðrum fjölskyldum.

Við munum fyrst eftir okkur í gula Malibu-num á leiðinni heim í Höfðabrekku, sem fyrstu árin okkar á Húsavík var okkar annað heimili fyrir utan heimilið okkar hjá föðurfjölskyldunni í Reykjavík.

Hafliði hefur frá fyrstu kynnum reynst okkur sem besti faðir, traustur, góður og ávallt reiðubúinn til að hjálpa, hvort sem var að gefa ráð eða taka til hendinni með málningarpensilinn á lofti. Hann lét okkur aldrei finna að við værum ekki blóðskyld og hafði hann til dæmis einstakt lag á að hrósa okkur systkinunum þar sem hann sagði okkur hvert í sínu lagi, örlítið glettinn og þegar hin heyrðu ekki til, að við bærum af okkar systrum og bræðrum. Hann fylgdist vel með og tók þátt í lífi okkar og fjölskyldna okkar og eftir að leiðir hans og mömmu skildi hélst sambandið óbreytt og var hann stór hluti af okkar fjölskyldulífi fram til síðasta dags.

Hann hafði einstaklega góða nærveru, ómælda þolinmæði og jafnaðargeð og okkur fannst gott að leita til hans. Ef okkur systrum sinnaðist eða við upplifðum lífið ósanngjarnt á einhvern hátt, þá var hans ráðlegging alltaf á þá leið að láta aðra ekki pirra sig og hafa áhrif á sig, það hefði ekkert upp á sig.

Okkur þótti óendanlega vænt um öll kaffiinnlitin á seinni árum, þegar hann kom og spurði frétta um bæjarmálin og annað sem var áhugavert hverju sinni.

Hann var sjálfur dulur og flíkaði aldrei sínum tilfinningum og líðan, en fann sér huggun í að hjálpa öðrum. Hann gleymdi aldrei afmælisdögum og kom og leit inn hvort sem um var að ræða yngstu eða elstu meðlimi fjölskyldunnar.

Við systur erum þakklátar fyrir að hafa kynnst honum og fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífi hans fram á síðasta dag og samverustundir síðustu vikna munu seint gleymast.

Við minnumst hans með hlýhug og þakklæti.

Anna og Erla.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi, við eigum eftir að sakna þín.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Þín afabörn,
Andrea og Gunnar.