Spennandi Ruth Ásdísardóttir er nýráðinn verkefnastjóri bókabæjanna austanfjalls og segist hún spennt að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru. Má þar til dæmis nefna barnabókahátíðina á komandi hausti.
Spennandi Ruth Ásdísardóttir er nýráðinn verkefnastjóri bókabæjanna austanfjalls og segist hún spennt að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru. Má þar til dæmis nefna barnabókahátíðina á komandi hausti. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókabæirnir austanfjalls eru stórt verkefni sem án efa á eftir að vaxa og dafna á Suðurlandi.

Bókabæirnir austanfjalls eru stórt verkefni sem án efa á eftir að vaxa og dafna á Suðurlandi. Í byrjun mánaðarins tók bókmenntafræðingurinn Ruth Ásdísardóttir til starfa sem verkefnastjóri bókabæjanna og segir hún að verkefnin sem framundan eru séu bæði spennandi og til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á ört stækkandi byggðina austanfjalls. Bókaþjóðin elskar jú bækur og af þeim er nóg til!

Malín Brand

malin@mbl.is

Á undurfögrum degi hittumst við Ruth Ásdísardóttir á skrifstofu hennar í húsakynnum Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga við Austurveginn á Selfossi. Það er einmitt á dögum sem þessum, þegar sólin lætur sjá sig eftir strembinn vetur, sem auðveldlega má sjá bókabæina austanfjalls fyrir sér blómstra og dafna. Ekki þarf sólina til að Ruth sjái þetta fyrir sér því nýráðinn verkefnastjórinn er jákvæð að eðlisfari og er spennt fyrir þeim mýmörgu verkefnum sem framundan eru. „Þetta er gríðarlega spennandi og við erum að springa úr hugmyndum! Við ætlum okkur stóra hluti og verkefnið er mjög metnaðarfullt,“ segir Ruth um það stóra verkefni sem það er að umbreyta bæjum í bókabæi.

Úr bæ í bókabæ

Víða í heiminum fyrirfinnast bókabæir en þeir eru um þrjátíu talsins. Þetta eru bæir sem hafa sterka tengingu við bókmenntir og eru þar gjarnan fleiri fornbókabúðir en gengur og gerist. Alla jafna eru bækur vel sýnilegar í innviðum bæjanna. Fyrir austan fjall hefur hópur góðs fólks unnið markvisst að því síðustu misserin að koma fyrstu íslensku bókabæjunum á kortið og eru það Árborg, Ölfus og Hveragerði sem um ræðir. Eins og fram kom í grein sem birtist í Morgunblaðinu um verkefnið í ágúst síðastliðnum var fyrsti bókabærinn í Evrópu stofnaður í breska bænum Hay-on-Wye árið 1961, en sá bær er þekktur hjá bókaunnendum víða um heim sem „The Town of Books“ eða „Bókabærinn“. Þessi breski smábær er gott dæmi um hvernig hægt er að skapa bókum skemmtilegt umhverfi og laða þannig að bókaunnendur hvaðanæva. Ruth segir vel raunhæft að stefna að því að laða bókaunnendur austur fyrir fjall og hafa fyrstu skrefin þegar verið tekin með því að fá bæjarbúa til að taka virkan þátt í verkefninu. Til dæmis hefur bókakassa verið komið upp í einni götunni á Selfossi og þar getur fólk sótt sér bækur sem það langar að lesa og skilið aðrar eftir. „Það er einmitt það sem við viljum, að fólk fái hugmyndir og framkvæmi, hvort sem það er með okkar hjálp eða ekki. Að fólk upplifi sig sem hluta af þessu,“ segir Ruth.

Rétt eins og sjá má í bókabæjum erlendis er í raun endalaust hægt að lífga upp á bókabæina. Hvort sem það er með húsgöflum í formi bókakjala, bókalistaverkum, borðum með undirstöðum úr bókum, bókakaffi hvers kyns, bekkjum sem skrifa má ljóð og texta á og svo mætti lengi telja. Ímyndunaraflið er í raun það eina sem gæti stoppað það hvað hægt er að gera. „Draumurinn minn er að opna hér kvennabókabúð sem væri fornbókabúð með verkum eftir konur, hvort sem þær eru erlendar eða íslenskar, þýddar eða hvað sem er. Þess vegna mættu þær vera á hinum ýmsu tungumálum því það væri svo gaman fyrir ferðamennina. Þetta er sameiginlegur draumur okkar Önnu á Konubókastofu,“ segir Ruth og vísar þar til Rannveigar Önnu Jónsdóttur forstöðukonu Konubókastofu og ein þeirra sem tilheyra undirbúningshópi bókabæjanna.

Barnabókahátíð á haustin

Vissulega tekur það mörg ár fyrir hátíðir á borð við þá sem haldin er í breska smábænum Hay-on-Wye sem minnst var á hér að ofan að festa sig í sessi í bókabæjum. Hins vegar er ekkert sem mælir á móti því að byrja sem fyrst og á meðal þess sem stendur til fyrir austan fjall er að setja upp barnabókahátíð í haust. „Þetta verður væntanlega ein helgi í upphafi skólaárs og munum við einblína á barnabókmenntir. Hugmyndin kviknaði í raun úr frá því að rithöfundurinn Ármann Kr. Einarsson á hundrað ára fæðingarafmæli á árinu og svo verða Jón Oddur og Jón Bjarni fertugir,“ segir Ruth og það eru aldeilis tímamót í heimi íslenskra barnabókmennta! Hugmyndin er að barnabókahátíðin verði haldin á hverju ári eða annað hvert ár.

Þáttur íbúanna

Sem fyrr segir skiptir miklu að íbúar bókabæjanna taki þátt í uppbyggingunni og er óhætt að segja að viðbrögð íbúa austanfjalls hafi verið prýðileg. „Á þeim fundum sem við höfum haldið höfum við boðið fólki að skrá sig í vinnuhópa og hafa nú þegar tugir fólks skráð sig,“ segir Ruth. Til dæmis hafa margir skráð sig í undirbúningshópinn fyrir barnabókahátíðina og verður fyrsti fundur þess vinnuhóps á mánudaginn og geta áhugasamir því enn slegist í hópinn.

Annað stórt verkefni sem ekki er hafið en æði margir íbúar á svæðinu gætu haft áhuga á er að skrá eða kortleggja sögu bókmennta í bókabæjunum. „Það á alveg eftir að útfæra þá hugmynd en nú þegar hafa gríðarlega margir skráð sig í vinnuhóp verkefnisins sem er alveg frábært og það eru margir sérfræðingar í þessum hópi! Þetta er sannarlega mjög viðamikið enda er allt landslagið hér texti, ef svo má segja.“ Það verður sannarlega gaman að fylgjast með og auðvitað taka þátt í þeim fjölmörgu verkefnum sem verða til í bókabæjunum austanfjalls. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að skrá sig í vinnuhópa eða koma með hugmyndir með því að senda tölvupóst á netfangið bokaustanfjalls@gmail.com.

„Ég er mjög spennt að heyra hvað hóparnir hafa að segja,“ segir Ruth Ásdísardóttir, verkefnastjóri bókabæjanna austanfjalls sem hefur að undanförnu unnið kappsamlega að nátengdu verkefni sem lýtur að skipulagningu hátíðardagskrár í Rauða húsinu á vegum Konubókastofunnar á Eyrarbakka vegna 100 ára kosningaréttar kvenna á Íslandi. Sú dagskrá verður á morgun, sunnudaginn 22. mars, og má lesa ítarlega um hana í sérstökum ramma hér neðar á síðunni.

Nánari upplýsingar um bókabæina austanfjalls má nálgast á vefsíðunni www.bokabaeir.is og á Facebook undir leitarstrengnum Bókabæirnir austanfjalls.

Eftirlæti bókmenntanna

Í sumum bókabæjum erlendis hafa verið gefin út dagatöl þar sem íbúar bregða sér í gervi sinna eftirlætispersóna úr bókmenntunum og sannarlega mætti fá fólkið á Suðurlandi til að taka þátt í slíku. „Þá er fólk í bænum fengið til að klæða sig upp sem einhver bókmenntapersóna, tekin af því mynd og svo gefið út dagatal,“ segir Ruth Ásdísardóttir verkefnastjóri bókabæjanna austanfjalls. Það væri nú ekki leiðinlegt að sjá uppi á vegg kaupmanninn á horninu í skrúða Péturs Pans eða konuna í apótekinu klædda upp sem Madame Bovary, svo dæmi séu tekin.