Svalur „Ég veit enn ekkert svalara starf í heimi en kvikmyndaleikstjórn, nema ef vera skyldi geimfari,“ segir Ask Hasselbalch.
Svalur „Ég veit enn ekkert svalara starf í heimi en kvikmyndaleikstjórn, nema ef vera skyldi geimfari,“ segir Ask Hasselbalch. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég var ekki nema átta ára þegar ég ákvað að ég ætlaði að verða kvikmyndaleikstjóri.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég var ekki nema átta ára þegar ég ákvað að ég ætlaði að verða kvikmyndaleikstjóri. Ég veit enn ekkert svalara starf í heimi en kvikmyndaleikstjórn, nema ef vera skyldi geimfari,“ segir Ask Hasselbalch, leikstjóri Antboy-myndanna, en framhaldsmyndin Antboy: Rauða refsinornin var opnunarmynd Alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík í Bíó Paradís.

En þó Hasselbalch hafi ungur vitað hvað hann vildi verða gekk það ekki þrautalaust fyrir sig. „Ég sótti um að komast inn í annars vegar Kvikmyndaskólann og hins vegar Super 16 kvikmyndaskólann, en var hafnað í þrígang hjá báðum skólum,“ segir Hasselbalch, sem komst að lokum inn í Super 16 þegar annar nemandi forfallaðist. „Eftir á að hyggja get ég viðurkennt að ég lærði mjög mikið af umsóknarferlinu. Á sínum tíma var ég of upptekin af því að segja í umsóknarviðtölum það sem ég hélt að menn vildu heyra í stað þess að vera einlægur og þora að fylgja eigin sannfæringu.“

Betri persónusköpun

Hasselbalch lauk námi 2010 og fljótlega höfðu stjórnendur hjá danska kvikmyndaframleiðandanum Nimbus Film samband við hann. „Þeir buðu mér að gera hryllingsmynd,“ segir Hasselbalch og viðurkennir að hann sé mikill hryllingsmyndaaðdáandi. „Ég er mér hins vegar afar meðvitaður um að markaðurinn fyrir hryllingsmyndir er mjög lítill í Danmörku. Þegar ég síðan komst að því að Nimbus ætti kvikmyndaréttinn á teiknimyndabókum Kenneths Bøgh Andersen um Antboy þá varð ekki aftur snúið. Mér fannst það ótvíræður kostur að gera mynd sem myndi höfða til breiðari aldurshóps,“ segir Hasselbalch og tekur fram að auðsótt hafi verið að skipta um verkefni hjá Nimbus. Fyrsta Antboy-myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto 2013 við glimrandi viðtökur, en sýningarrétturinn hefur nú þegar verið seldur til 35 landa. Antboy: Rauða refsinornin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín í fyrra og hefur verið seld til 38 landa. „Tökur á þriðju myndinni hefjast næsta sumar og er ætlunin að frumsýna hana í janúar 2016,“ segir Hasselbalch og þvertekur fyrir að myndirnar verði fleiri. „Enda verða börnin þá orðin of gömul fyrir hlutverk sín auk þess sem mér finnst vera tími til kominn að ég snúi mér að öðrum verkefnum,“ segir Hasselbalch sem er þegar kominn með nýja mynd á teikniborðið hjá Nimbus sem kynnt verður í næstu kvikmyndahátíð í Cannes auk þess að vera með umboðsmann í Bandaríkjunum.

Spurður hvernig hann skýri vinsældir Antboy-myndanna segir Hasselbalch ljóst að manneskjan þurfi á hetjum að halda. „Það reyndist myndunum einnig til tekna að hafa ekki úr of miklum fjármunum að spila. Við vorum ekki að gera Marvel-mynd með fullt af tæknibrellum og sprengingum. Af þeim sökum varð persónusköpunin að vera þeim mun betri og áhugaverðari,“ segir Hasselbalch. Antboy fjallaði um Pelle sem öðlast ofurkrafta eftir að hafa verið bitinn af maur. „Vináttan er meginþema myndarinnar, en Wilhelm sem er teiknimyndanörd hjálpar Pelle að takast á að við ofurhetjuhæfileika sína. Myndin fjallar um vanda þess að eiga ekki vini og vera nær ósýnilegur í hópnum. Eftir því sem Pelle eignast fleiri vinir og vinskapurinn styrkist áttar hann sig á því að vinátta er mikilvægasta ofurhetjuaflið,“ segir Hasselbalch, en fyrsta myndin byggist að stærstum hluta á bók nr. 1 og 3 um Antboy eftir Kenneth Bøgh Andersen. „Framhaldsmyndirnar tvær skrifar Anders Ølholm í náinni samvinnu við mig, auk þess sem Kenneth les yfir,“ segir Hasselbalch og tekur fram að sig hafi, í mynd tvö, langað til að skapa sterkari kvenhlutverki. „Önnur myndin fjallar um vanda þess að samþætta einkalíf og vinnuna, því það er alls ekki auðvelt að vera ofurhetja,“ segir Hasselbalch og tekur fram að grunnstef beggja mynda sé eitthvað sem allir geti tengt við. „Í þriðju myndinni fer fókusinn aftur í auknum mæli á vináttuna,“ segir Hasselbalch. Spurður hver sé lykillinn að því að gera vel heppnaða barna- og unglingamynd svarar hann því til að það sé að skipa rétt í hlutverkin. „Ég eyddi óheyrilegum tíma í að prufa börn til að finna réttu leikarana,“ segir Hasselbalch og bætir síðan við að sér hafi reynst best að æfa lítið sem ekkert. „Ég gerði auðvitað kröfu um að þau kynnu textann sinn og síðan útskýrði ég fyrir þeim senurnar. Við æfðum í mesta lagi í 20 mínútur fyrir hverja töku og töldum svo í. Bestu tökurnar voru þær þar sem leikurinn var algjörlega náttúrulegur og byggðist á eðlilegu viðbragði, en sú stemning virðist glatast hjá börnum ef æft er of mikið.“

Að sögn Hasselbalch leggur hann mjög mikið upp úr því að endurtaka sig ekki sem leikstjóra heldur vera stöðugt að takast á við nýjar áskoranir. „Sem dæmi má nefna að sjónrænt séð verður mikill munur á myndunum þremur. Fyrsta myndin bjó yfir heitum haustlitum meðan önnur myndin einkennist af köldum vetrarlitum og meiri drunga. Þriðja myndin verður síðan sumarmynd,“ segir Hasselbalch og tekur fram að húmor sé sér mjög mikilvægur og muni væntanlega rata með einhverjum hætti inn í allar myndir hans. „Mér finnst líka mjög gaman að leika með ólíka kvikmyndastíla og hef gert mikið af því í þeim 13 stuttmyndum sem ég hef gert á ferlinum. Ólíkir kvikmyndastílar bjóða upp á mismunandi reglur sem gaman er að leika sér með,“ segir Hasselbalch og tekur fram að hann muni þó sennilega aldrei gera vestra. „Því ég næ hreinlega engum tengslum við þann stíl.“