Eftirlit Unnur Gunnarsdóttir er forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Eftirlit Unnur Gunnarsdóttir er forstjóri Fjármálaeftirlitsins. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Fimm lífeyrissjóðir stóðust reglubundna úttekt Fjármálaeftirlitsins á áhættustýringu þeirra, sem fram fór í lok síðasta árs.

Fimm lífeyrissjóðir stóðust reglubundna úttekt Fjármálaeftirlitsins á áhættustýringu þeirra, sem fram fór í lok síðasta árs. Sjóðirnir sem skoðaðir voru, jafnt með heimsóknum og gagnaöflun, eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Sameinaði lífeyrissjóðurinn.

Athuganir FME beindust fyrst og fremst að því hvort sjóðirnir færu að leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2013 sem sett hafa verið í tengslum við lög og reglur sem kveða á um áhættustýringu samtryggingadeilda sjóðanna.

Í kjölfar formlegrar athugunar ritaði FME skýrslur til sjóðanna með ábendingum þar sem forsvarsmenn lífeyrissjóðanna fengu færi á að koma sjónarmiðum sínum og frekari upplýsingum á framfæri við eftirlitið.

Það var mat FME að áhættustýring sjóðanna fimm væri almennt í góðu horfi og ekki voru sérstaklega gerðar athugasemdir við framkvæmd áhættustýringar innan þeirra en þó fylgdu í kjölfar athugunarinnar ábendingar um þau atriði sem Fjármálaeftirlitið taldi að betur mættu fara hjá hverjum sjóði fyrir sig.

Heildareignir sjóðanna fimm nema um 1.200 milljörðum króna en stærstir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna með eignasafn upp á 510 milljarða og Gildi með rúman 371 milljarð. Minnstur er Lífeyrissjóður bankamanna en eignir hans nema tæpum 63 milljörðum króna.