Átök Rimma Hauka og Keflavíkur verður á þessa leið. Stanlaus barátta.
Átök Rimma Hauka og Keflavíkur verður á þessa leið. Stanlaus barátta. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Kristján Jónsson kris@mbl.is Keflvíkingar létu sér fátt um finnast þó þeir hafi hafnað í 6. sæti í deildinni og byrjuðu úrslitakeppnina á sigri af gömlum vana.

Á Ásvöllum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Keflvíkingar létu sér fátt um finnast þó þeir hafi hafnað í 6. sæti í deildinni og byrjuðu úrslitakeppnina á sigri af gömlum vana. Keflavík er 1:0 yfir gegn Haukum eftir sigur á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi, 86:79, eftir framlengdan leik. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 76:76.

Leikurinn var jafn og spennandi svo gott sem allan tímann. Á margan hátt eins og dæmigerður leikur í úrslitakeppni. Bæði liðin eiga í raun og veru talsvert inni þar sem þau töpuðu boltanum meira en góðu hófi gegnir. Slíkt getur verið fylgifiskur spennandi leikja en þegar upp var staðið þoldu Keflvíkingar spennuna betur. Var það kannski svolítið fyrirséð þar sem reynslan er miklu meiri í þeirra herbúðum.

Svæðisvörnin virkaði

Lengi vel var útlitið svo sem ekki slæmt fyrir Haukana. Liðið var með frumkvæðið lengi vel en munurinn var þó aldrei mikill. Á lokamínútu venjulegs leiktíma náði Keflavík þriggja stiga forskoti. Þá setti Emil Barja niður erfitt þriggja stiga skot þegar 20 sekúndur voru eftir. Það tryggði Haukum framlengingu en í síðustu sókn Keflavíkur komst Davon Usher í gott færi en einhvern veginn skoppaði boltinn af körfuhringnum.

Í framlengingunni komust Haukar lítt áleiðis í sóknarleiknum og Keflavík landaði sigri. Sigurður Ingimundarson sýndi leikskilning sinn og breytti yfir í svæðisvörn sem svínvirkaði fyrir hans menn.

Arnar Freyr mikilvægur

Keflvíkingar áttu skilið að sigra ef mið er tekið af framlengingunni. Auk þess voru þeir óheppnir að síðasta skot þeirra í venjulegum leiktíma rataði ekki rétta leið.

Óhætt er að segja að Keflavíkurliðið eigi mikið inni ef mið er tekið af því að Guðmundur Jónsson skoraði ekki stig og Damon Johnson lét lítið á sér bera. Nú er það kannski tilætlunarsemi að heimta stórt framlag frá manni á fimmtugsaldri en Damon hefur einfaldlega leikið það vel í vetur að ég bjóst við meiru. Reggie Dupree setti niður fimm þriggja stiga skot og Usher var mjög sterkur seinni hluta leiksins. Þá kom gott framlag frá Þresti Leó Jóhannssyni. Mér fannst Keflavík leika mun betur í sókninni þegar Arnar Freyr var inni á. Hann róar leikinn hjá þeim og er mun yfirvegaðari en hann var á árum áður.

Gæti Francis skilað meiru?

Emil Barja átti bæði góða og slæma spretti hjá Haukum en hann virðist vera alvöru maður og það er ró yfir honum. Kári Jónsson er hvergi banginn þrátt fyrir ungan aldur og þorir að framkvæma þó spennan sé mikil. Mér fannst hins vegar Haukur Óskarsson týnast á lokakaflanum þrátt fyrir að hafa átt fínan leik fram að því. Hann verður að halda áfram að skjóta þegar mikið liggur við.

Einnig staldra ég aðeins við Alex Francis sem hefur leikið vel í allan vetur og skilaði flottri tölfræði í gær. Hann er svo sterkur nálægt körfunni að það hlýtur að vera hægt að gera kröfu til hans að skila körfum þegar liðið þarf mest á honum að halda. Þegar allt var undir í lok venjulegs leiktíma þá gerði hann það ekki.

Haukar – Keflavík 79:86

Schenkerhöllin Ásvöllum, Dominos-deild karla, 8-liða úrslit, 1. leikur, föstudag 20. mars 2015.

Gangur leiksins : 2:2, 10:6, 14:8, 19:19, 21:25, 24:30, 33:32, 39:35 , 48:41, 50:43, 58:52, 60:56 , 66:64, 68:67, 71:72, 76:76 , 78:80, 79:86 .

Haukar : Alex Francis 26/12 fráköst, Haukur Óskarsson 16, Kári Jónsson 15/11 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Barja 12/12 fráköst/9 stoðs., Sigurður Þór Einarsson 3, Kristinn Marinósson 3/9 fráköst, Hjálmar Stefánsson 2/4 fráköst, Kristinn Jónasson 2.

Fráköst : 37 í vörn, 14 í sókn.

Keflavík : Davon Usher 21/5 fráköst, Valur Orri Valsson 15/5 fráköst, Reggie Dupree 15, Þröstur Leó Jóhannsson 10/6 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Damon Johnson 8/7 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 8.

Fráköst : 28 í vörn, 3 í sókn.

Dómarar : Jón Bender, Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur : Um 600.