Anna Björg Sveinsdóttir fæddist í Reykjavík 18. júní 1964. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 13. mars 2015.

Foreldrar hennar eru Sveinn Jóhannsson, f. 20.9. 1935, og Geirlaug Sveinsdóttir, f. 11.10. 1942. Bræður Önnu Bjargar eru: 1) Jóhann Sveinsson, f. 24.2. 1963, giftur Hafdísi Björk Guðmundsdóttur. Synir þeirra eru Sveinn Þorgeir, Guðmundur Gauti og Brynjar Logi. 2) Bjarni Ágúst Sveinsson, f. 1.8. 1972. Börn hans eru Elísa Björt og Alexander Ágúst.

Anna Björg lætur eftir sig eiginmann, Ólaf Helga Ólafsson, f. 5.12. 1960. Börn þeirra eru Þórdís, f. 20.11. 1992, og Ólafur Geir, f. 14.2. 1996. Dóttir Ólafs Helga og Þórhildar Björnsdóttur er Sigrún Ólafsdóttir, f. 6.1. 1979. Sigrún er gift Matta Kallio og eiga þau Evu Þórhildi, f. 1.10. 2013. Foreldrar Ólafs Helga eru Ólafur Þór Ólafsson, f. 10.12. 1936, og Þórdís Ólafsdóttir, f. 20.11. 1940. Systur Ólafs Helga eru 1) Ásdís, f. 10.4. 1962. Börn hennar eru Selma Hrönn og Óskar Þór. 2) Vigdís, f. 13.6. 1966. Eiginmaður hennar er Ásgeir Þór Árnason og börn þeirra eru Heiða María og Árni Steinn. 3) Valdís, f. 9.9. 1976. Eiginmaður hennar er Jóhann Davíð Snorrason og synir þeirra eru Markús Orri og Matthías Kári.

Anna Björg ólst upp í Þorlákshöfn en var mörg sumur í sveit hjá afa sínum og ömmu á Borgarfirði eystri og leit hún ávallt á sig sem Borgfirðing. Hún stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi þaðan sem hún lauk stúdentsprófi. Hún stundaði mikið íþróttir á sínum yngri árum með góðum árangri. Eftir stúdentspróf starfaði hún í nokkur ár sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara á Reykjalundi. Árið 1996 fluttu Anna Björg og Ólafur Helgi að Valdastöðum í Kjós þar sem þau hófu búskap í félagi við foreldra Ólafs Helga. Ásamt bændastörfunum starfaði Anna Björg í Ásgarðsskóla og síðar Klébergsskóla og á bókasafni Kjósarhrepps. Hún var afar virk í félagsstörfum í sveitinni. Hún sat um tíma í hreppsnefnd Kjósarhrepps og var í stjórn Kvenfélagins. Anna Björg hafði mikinn áhuga á laxveiði. Hún veiddi mikið með eiginmanni sínum og vinum og var auk þess í veiðifélaginu Óðflugum ásamt vinkonum sínum. Anna Björg var einnig mikill náttúruunnandi og naut þess vel að búa í sveitinni. Hún fylgdist alltaf með komu farfuglanna á vorin og skráði niður dagsetningar þegar þeir birtust á túninu. Hún naut þess að taka þátt í sauðburðinum á hverju vori og ræktaði garðinn sinn af mikilli alúð, hvort sem það voru matjurtir, blóm eða tré.

Útför Önnu Bjargar fer fram frá Reynivallakirkju í Kjós í dag, 21. mars 2015, kl. 14.

Anna Björg var 19 ára og ég 17. Óli bróðir var að koma með kærustuna á Valdastaði í fyrsta skipti. Ég var full efasemda. Einhver Þorlákshafnarbredda að koma í fjölskylduna. En áhyggjurnar hurfu fljótt eftir að hún mætti á svæðið. Bauð snaggaralega góðan daginn með sinni hvellu rödd og fallega geislandi brosinu sínu. Við urðum strax vinkonur, alveg frá fyrsta degi. Það bar aldrei skugga á þann vinskap. Við vorum eiginlega eins og systur, miklir sálufélagar og samrýndar eins og sokkapar. Vorum oft spurðar að því hvort við værum systur. Hugsuðum eins, sögðum það sama á sama tíma, völdum sömu flugurnar fyrir þá mörgu laxa sem við glímdum saman við. Anna Björg var alveg einstök manneskja. Hugsaði fyrst og fremst um velferð annarra. Kunni ekki að segja nei. Heimili Önnu og Óla hefur alltaf staðið opið. Ég fékk að vera eitt af „gæludýrunum“ í Álfatúninu eins og þau kölluðu okkur sem fengum að búa hjá þeim í einhvern tíma. Eftir að þau fluttu á Valdastaði voru alltaf allir velkomnir og alltaf nóg að borða enda iðulega seilst eftir hræðslukjöti í frystinn ef minnstu áhyggjur voru af skorti. Anna Björg var snilldarkokkur. Átti sinn matjurtagarð og dekraði við kryddjurtirnar í tíma og ótíma. Svo var hún ein besta veiðikona sem ég hef kynnst og mikill náttúruunnandi. Stórt skarð er höggvið í veiðiklúbbinn okkar, Óðflugurnar. Það vantar svo mikið þegar það vantar eina, erum við Óðflugurnar vanar að segja. Fjölmargar yndislegar stundir átti ég með Önnu Björgu. Sumarbústaðarferðir, utanlandsferðir, endalausar veislur á Valdastöðum og allir veiðitúrarnir. Alltaf gaman, alltaf gleði, mikið hlegið, aldrei vesen hjá okkur en vesenið var skrokkurinn hennar. Meiri hrakfallabálki hef ég ekki kynnst í lífinu. Bæði hné ónýt, gömul íþróttameiðsl, slatti af slysum, skurðir og aðgerðir hér og þar. Svo fór bakið í slagsmálum við hrút og þegar krabbinn bankaði upp á í fyrrasumar þá sagðist hún í æðruleysi bara hafa átt það eftir. Fallega brosið dofnaði smátt og smátt og meinið sigraði að lokum. Hversu ósanngjarnt getur lífið verið. Ég geymi fallegar minningar um mína kæru mágkonu, vinkonu og veiðivinu.

Elsku Anna Björg, takk fyrir öll góðu árin. Þú lofar að hjálpa mér áfram að finna réttu fluguna.

Vigdís.

Anna Björg vinkona mín, frænka og bekkjarsystir er fallin frá. Ég var heppin að fá að alast upp í samfélagi með Önnu Björgu, minningar mínar frá æsku og skólagöngu eru ótrúlega margar tengdar henni. Anna Björg var kletturinn í hópnum hvort sem við vorum við leik eða í skólanum. Hún var bráðþroska krakki, bæði andlega og líkamlega, stór og öflug miðað við okkur hin og sáttasemjarinn í hópnum ef þess þurfti með. Það var einhvern veginn alltaf svo gott að vera í návist hennar.

Strax í æsku tengdumst við einstökum og ljúfum böndum sem aldrei hafa rofnað þó svo að á stundum hafi tognað verulega á þeim. Þessi bönd áttu þann góða eiginleika að þegar við hittumst eða heyrðumst í síma skruppu þau saman og við urðu jafn sterk og ljúf og þegar við vorum stelpuskjátur.

Við vorum jafnöldrur og bekkjarsystur í einstaklega samheldnum bekk sem hefur haft þann sið að hittast nokkuð reglulega. Síðast í haust hittumst við nokkur úr bekknum í tilefni af 35 ára fermingarafmælinu. Anna Björg komst ekki, hún var upptekin í baráttunni við krabbameinið sem lagði hana að velli föstudaginn 13. mars. Það hefur verið óskrifuð regla hjá bekknum að byrja á því að hittast í kirkjugarðinum í Þorlákshöfn þar sem tvö úr bekknum eru jarðsett. Þorbergur sem lést úr hvítblæði 30. maí 1979 og Auður sem drukknaði í höfninni 8. des. 1979 í bílslysi, sem Anna Björg og bekkjarsystir okkar, Hafdís Guðmunds, björguðust úr. Það var einstök stund sem við áttum saman nokkur úr hópnum þetta kvöld í kirkjunni áður en við gengum út í garð. Þá ræddum við veikindi Önnu Bjargar og baráttu hennar framundan, sameinuðumst í þögninni og sendum til hennar góðar hugsanir og strauma. Ég veit að ég get lofað því fyrir hönd hinna bekkjarsystkinanna að við eigum örugglega eftir að gera okkur ferð í Kjósina þegar við hittumst næst og að við munum kveikja á kerti og leggja blóm á leiðið hennar Önnu Bjargar.

Í nokkur ár fórum við vinkonurnar saman og veiddum í bæjarlæknum á Valdastöðum í byrjun september. Veiðiklóin Anna Björg átti ekki í vandræðum með að fá fisk en öðru máli gegndi um mig. Henni leið ekki vel með að senda vinkonu sína heim fisklausa og lagði ýmislegt á sig til að bjarga því.

Meðal annars datt hún í ána og varð rennvot frá toppi til táar. Hún fann það fljótlega út að einfaldasta leiðin var sú að hringja í Óla sinn til að redda málunum sem hann gerði að sjálfsögðu. Það voru dýrmætar stundir sem við stöllurnar áttum saman á bökkum Laxár í Kjós, bara tvær og ræddum um lífið og tilveruna og hvað við vorum heppnar með örlög okkar í lífinu. En enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Við sáum ævilok Önnu Bjargar ekki fyrir svona snemma, við ætluðum báðar að verða gamlar kerlingar og veiða saman í ellinni.

Um leið og ég votta Óla Helga, Þórdísi, Óla Geir og Sigrúnu, foreldrum Önnu Geirlaugu og Sveini, tengdaforeldrunum Ólafi Þór og Þórdísi og öðrum aðstandendum samúð mína vil ég þakka Önnu Björgu fyrir samfylgdina. Minning hennar lifir meðal okkar sem vorum svo gæfusöm að kynnast henni.

Jenný Erlingsdóttir.

Á votum og vindasömum degi missti Kjósin einn af sínum öflugustu bústólpum. Hin samheldna fjölskylda á Valdastöðum missti máttarstoð sem hefur í rúm þrjátíu ár staðið vaktina í sauðburði, komið heyi í hús, henst á eftir skjátum í smalamennsku og smám saman tekið æ meiri ábyrgð á rekstri hins blómlega bús. Þegar þú tekur við skráningum í ærbókina er ábyrgðin orðin ærin.

Vætusumarið 1983 var hið fyrsta af fjölmörgum sem ég gegndi stöðu ráðsmanns á Valdastöðum. Þolanleg frammistaða á reynslutíma í sauðburðinum tryggði mér ráðningu út sumarið. Let's Dance með David Bowie var hljóðheimur sumarsins sunnan undir Reynivallahálsi. Fljótlega fór að kvisast að vertíðin í Þorlákshöfn þann veturinn hefði verið frænda mínum Óla Helga óvenju happadrjúg. Upp úr því fór að verða töluverður spenningur á bænum þegar von var á Önnu Björgu austan að þegar vaktafrí var í Skálanum. Við biðum þolinmóð í Subarunum við þjóðveginn þangað til að Sæmundur skreið yfir Laxárbrúna og út stökk Anna með sitt breiða bros, þó örlítið feimin til að byrja með. Það leið ekki á löngu áður en feimnin vék fyrir dillandi hlátri og raust í hærri kantinum sem féll vel að umræðunum við krásum hlaðið eldhúsborðið. Ekki lét hún orðin nægja heldur tók strax virkan þátt í störfum og leik Kjósverja. Laxveiði er fólkinu á Valdastöðum í blóð borin en það kom fljótt í ljós að austfirskur ættbogi og uppeldi í Þorlákshöfn myndu duga Önnu og vel það á árbakkanum. Þeir voru dregnir ófáir á land laxarnir hvort sem það var úr Straumunum með Óðflugunum eða úr Laxánni svo ekki sé minnst á blessaða Bugðuna. Elja, bjartsýni og örlítið af þrjósku eru nauðsynlegir eiginleikar góðs veiðimanns. Anna Björg var góður veiðimaður.

Anna Björg kom í Kjósina með sinn kraftmikla persónuleika, breiða bros og eilífan vilja til verka sem urðu svo áreynslulaust órjúfanlegur hluti þessa Valdastaðakarakters sem hver sem þangað kemur þekkir vel. Samfélagslegar stoðir Kjósarinnar, hvort sem það eru kvenfélag, bókasafn eða sveitarstjórn hafa notið þessara eiginleika Önnu Bjargar og ímynda ég mér að þær verði ögn rýrari án þeirra.

Veturinn hefur verið langur og erfiður en framundan er sauðburðurinn sem var alltaf í uppáhaldi hjá Önnu. Þá hörfar veturinn, dagurinn teygir sig langt inn í nóttina og ný líf kvikna. Við komum saman, fjölskylda og vinir, þökkum fyrir góðan tíma með góðri vinkonu en syrgjum að sá tími verði ekki lengri. Megi allar góðar vættir styðja og styrkja fjölskyldu Önnu Bjargar á erfiðum tímum.

Karl Guðmundsson.

Línan leggst fagurlega út fyrir skilin, berst mjúklega niður að Strenghorninu og á nákvæmlega réttum stað strekkist á henni og kunnuglegt bros veiðikonunnar í ánni til okkar sem sitjum á bakkanum gefur til kynna að hann sé á. Veiðiklóin klikkar ekki í tökunum. Hún klikkaði heldur aldrei á því að vera í rauðu sokkunum og helst líka rauðu peysunni ef hún fór til veiða. Líklega hefur það eitthvað haft að segja með aflasældina. Bjarta brosið hennar Önnu Bjargar mun sitja áfram í sálum okkar hinna í okkar árlegu veiðiferðum í Straumana í Borgarfirði.

Við Óðflugurnar sjö höfum farið þar saman til veiða í 24 ár. Anna Björg var gríðarlega stór persóna. Laðaði að sér fólk úr öllum áttum með einstakri nærveru og hlýju. Þessi hressa, kraftmikla, hláturmilda aflakló, matgæðingurinn, vinurinn, bóndinn, stelpan úr Borgarfirði eystri sem sagði allar skemmtilegu sögurnar og orðatiltækin þaðan – Þorlákshafnarstelpan sem varð að bóndanum í Kjósinni og féll eins og flís við samfélagið.

Nú hefur stórt skarð verið höggvið í okkar hóp. Vorvindar þjóta og líður að veiðitíma. Eitthvað verða hlátrasköllin daprari við ána okkar óendanlegu í sumar sem áfram mun renna djúp og breið til sjávar. Hver spyr nú: „Hefur einhver séð Simmsarana mína?“ Hver raular nú „Summertime“ um leið og hún hnýtir fluguna fimlega á tauminn? Hver grillar nú hamborgarana á pallinum í hádeginu og dillar sér með „I feel good“ í botni, með campari/appelsínusafa innan seilingar? Hvernig förum við að? Það vantar svo mikið þegar það vantar eina.

Kvenveiðifélagið Óðfluga,

Brynhildur, Hjördís,

Hrafnhildur Inga, Sólveig, Vigdís og Þórdís.

Þá er þessari stuttu en snörpu orrustu Önnu Bjargar lokið með sigri vágestsins. Þeir sem fylgdust með framvindu mála gerðu sér fljótlega grein fyrir að þessi barátta yrði einstefna. Því miður í öfuga átt. Vonlaus bardagi hennar var hetjulegur eins og hennar var von og vísa. Það verður að sættast við orðinn hlut, þó sárt verði. Það mun taka langan tíma.

Ég kynntist Önnu Björgu skömmu eftir að ég kynntist eiginmanni hennar við laxveiðar í Laxá í Kjós á níunda áratugnum. Anna Björg var mér afar kær. Við áttum skap saman og aldrei bar skugga á okkar vináttu öll þessi ár. Hún var einstök, með afbrigðum geðgóð og skemmtileg. Brosmildi og yndislegt hjartalag hennar var alþekkt á Borgarfirði eystra, í Þorlákshöfn og loks í Kjósinni. Þar varð hún fljótlega örugg og skelegg bústýra, setti rækilega svip sinn á Valdastaði og sveitina. Þar fór ekkert mannlegt fram hjá henni. Hún er með skemmtilegri konum sem ég hef kynnst og ég sá hana sjaldan skipta skapi. Það var einna helst að hún hvessti sig við okkur félagana á yngri árum ef henni fannst farið fram úr hófi í ýmsum efnum.

Barngóð var hún með afbrigðum. Yngri dóttir mín dáði hana mikið sem barn og kallaði hana Ömmu Björgu. Önnu Björgu líkaði þessi afbökun á nafni sínu afar vel og hafði oft á orði og hló. Hún vissi að fátt er fimm ára gamalli hnátu kærara en amma sín. Þetta segir margt um Önnu Björgu. „Þú blekkir ekki börn“ hefur verið sagt. Enda blekkti hún aldrei neinn. Stálheiðarleg og með ríka réttlætiskennd. Lífsviðhorf hennar voru einföld. Fjölskylda og vinir voru í fyrirrúmi. Hún var stolt af uppruna sínum, heimilinu og Kjósinni. Hjálpsöm, skilningsrík og umfram allt traust kona. Gott geðslag hennar var ávallt einkennandi og með kærleiksrík augu í fallegu andliti.

Samverustundir voru margar með Önnu Björgu í gegnum tíðina. Minnisstæðar sumarbústaðaferðir. Heimsóknir á Valdastaði með og án barna og barnabarna eru eftirminnilegar. Valdastaðir voru eins og félagsmiðstöð þegar sauðburður stóð yfir, einnig þegar kúnum var hleypt út að vori og allt fram eftir sumri, að réttum að hausti – öllum borgarbörnum til mikillar skemmtunar. Ekki má gleyma heimalningunum. Barnaskarinn var oft mikill á Valdastöðum, sem jók álagið á húsfreyjuna á annars annasömu heimili. Því tók Anna Björg með brosi á vör og „gaf svo á garðann“ því ekkert barn fór svangt frá Valdastöðum. Sérkapítuli eru ógleymanlegar veiðiferðir í margar laxveiðiár og auðvitað í Laxá í Kjós. Anna Björg var fljót að ná góðum tökum á laxveiði og varð feikilega góður flugukastari. Í veiðiferðum okkar – eins og í hversdagslegu lífi – komu helstu eiginleikar hennar í ljós; dugnaður, ósérhlífni, útsjónarsemi að ógleymdri kímnigáfunni.

Það voru forréttindi að kynnast Önnu Björgu og eiga með henni ógleymanlegar stundir. Hún var mæt kona og eftirminnileg. Hennar mun ég minnast um aldur og ævi.

Ég votta Óla Helga, Þórdísi, Óla Geir, foreldrum, tengdaforeldrum og öðrum ástvinum mína dýpstu samúð.

Gylfi Gautur Pétursson.

Við kveðjum í dag Önnu Björgu vinkonu okkar. Við sitjum eftir með allar góðu minningarnar, litla Anna Björg með sína yndislegu glaðværð og dillandi hlátur. Hún ólst upp í Þorlákshöfn og okkur er minnisstætt þegar barnahópurinn var að leikjum bæði úti eða inni, þá var Anna Björg alltaf glöð og kát og stráði geislum sólar í kringum sig. Fjölskyldur okkar höfðu mikil samskipti og Anna Björg var tíður gestur á okkar heimili. Tíminn leið og þegar Anna Björg kom til okkar sem fullorðin kona fylgdi henni alltaf gleði í húsið.

Við hjónin kveðjum góða vinkonu með þökk fyrir tryggð og vináttu alla tíð. Eiginmanni og börnum, Geiru, Sveini og bræðrum og tengdafólki hennar vottum við samúð okkar.

Blessuð sé minning hennar.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson.)

Sigurður (Siggi) og Ragna.

Allir sem þekktu Önnu Björgu Sveinsdóttur vita að nú er horfin ein af eðaldætrum þessa lands, horfin og kemur ekki aftur. En megi hennar glaðlega fas fylgja okkur hinum í minningunni.

Minningunni um konuna sem var hrókur alls fagnaðar á góðum stundum, dugnaðarforkur í dagsins önn og amstri, sterk og þrautseig í andstreymi lífsins.

Minningunni um bóndann sem unni búfénaði sínum, stangveiðikonuna sem kastaði flugunni og naut útiverunnar, húsmóðurina sem hélt þétt um fjölskyldu sína.

Minningunni um konuna sem elskaði lífið og ræktaði garðinn sinn, og síðast en ekki síst, hafði auga fyrir fegurð þess smáa og beið spennt eftir komu lóunnar á hverju vori.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar Óli Helgi, Þórdís, Óli Geir og fjölskylda

Katrín og Björn,

Kiðafelli III.

Með fáeinum orðum langar mig að minnast Önnu Bjargar, sveitunga míns og samstarfskonu til margra ára.

Þegar Anna Björg gekk í kvenfélagið var frá fyrsta degi eins og hún hefði alltaf starfað með okkur, svo glöð og jákvæð, vílaði ekkert fyrir sér, gekk brosandi í verkin og hreif aðrar með sér.

Samstarf okkar í Klébergsskóla eru orðin tíu ár, hér hreif hún jafnt samstarfsmenn sem nemendur með glaðværð, hlýju og dillandi smitandi hlátri, enda heyrðist oft: Þetta er hún Anna Björg.

Aldrei lét hún á sér finna þótt erfiðleikar steðjuðu að, leyfði manni að fylgjast með en var fljót að slá á léttari strengi og sagði: „Æ tölum nú um eitthvað skemmtilegra.“

Það kom fyrir að hún hringdi að morgni og sagðist vera aðeins sein, mætti svo fasmikil og ástæðan var þá jafnvel. „Heldurðu að kvíguskömmin hafi ekki endilega þurft að bera núna“...eða: „Það kom bara annar fóturinn og ég varð að draga lambið út“, hennar vinnudagur var löngu byrjaður.

Að hafa fengið að kynnast og starfa með öðrum eins gleðigjafa og Önnu Björg var dýrmætt og gleymist ekki.

Ég sagði oft: Hún Anna Björg er alveg einstök. Ég meinti það þá og finn það enn betur nú. Hún notaði stundum orðið gæskan og fylgdi því einstakt bros glettni og húmors sem fyllti allt andlitið, þannig vil ég muna hana og þakka samfylgdina

Votta fjölskyldum hennar innilega samúð.

Hulda í Eilífsdal.

Það var reiðarslag sem okkar litla samfélag í Kjósinni varð fyrir, þegar það fréttist að Anna Björg á Valdastöðum væri látin eftir harðvítuga baráttu við krabbamein.

Hún var stór hlekkur í keðjunni sem litlu sveitarfélagi er svo nauðsynleg og gegndi þar mikilvægum hlutverkum. Hún var áhugasamur bóndi, sat í sveitarstjórn um tíma, var öflug kvenfélagskona, öflug og góð laxveiðikona, bókverja í bókasafninu í Ásgarði og ekki síst eiginkona og móðir.

Við áttum það sameiginlegt að flytja í Kjósina þann 1. maí, reyndar með 30 ára millibili, og hófum búskap með okkar mönnum, frændunum Hreiðari og Óla Helga, á æskuheimilum þeirra.

Við viljum þakka Önnu Björgu fyrir samfylgdina og góð kynni og gleymum ekki geislandi brosinu hennar og kátínu í augum, sem lét engan ósnortinn.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til nágranna okkar á Valdastöðum, Ólafs Helga og barna þeirra, foreldra Önnu Bjargar, bræðra hennar, tengdaforeldra og fjölskyldunnar allrar. Þökkum gott nágrenni í 20 ár.

Ásta og Hreiðar,

Grímsstöðum.

Ég átti demant í lífi mínu, ég átti vináttu Önnu Bjargar Sveinsdóttur.

Ég átti vinkonu sem gat lýst upp heilt herbergi með brosinu sínu.

Ég átti æskuvinkonu sem hét Björg eins og ég, og sem sendi mér jólapakka á hverju ári í 50 ár, sem ólst upp með mér, fyrst í sama húsi og síðar í sömu götu, var alltaf til í að leika, sem ég gat hlaupið til hvenær sem var alveg inn að rúmgafli og það án þess að banka, sem flýtti fermingunni sinni um ár og fermdist því sama ár og Jói bróðir hennar og ég, og sem deildi með mér vinnuborði í frystihúsinu þegar við fengum að byrja að vinna í fiskinum.

Ég átti æskuvinkonu sem fór á sumrin austur á Borgarfjörð eystri og kom til baka í lok sumars brún og sælleg og með nýstárleg orð á takteinum, eins og „gæskur“.

Ég átti vinkonu sem kynntist Óla Helga sínum, flutti með honum í Kjósina og gerðist bóndi, eignaðist börnin sín og blómstraði í sveitinni. Kunni að reykja kjöt og fisk, gerði besta graflaxinn, gaf mér hveitikökur og reyktan lax þegar ég kom í heimsókn. Sat í sveitarstjórn, stjórnaði bókasafni, var í þorrablótsnefnd, ræktaði matjurtagarð, safnaði gömlum sérstökum hlutum, elskaði að veiða lax, átti hænur, kindur, kýr og hunda.

Ég átti uppeldissystur þar sem vinskapur milli fjölskyldna okkar hefur alltaf verið mikill, bæði milli foreldra okkar og systkina, og foreldra hennar fékk ég að láni sem mína eigin þau ár sem ég bjó á Austurlandinu.

Ég átti vinkonu sem var með mér kvöldið sem ég hitti manninn minn og hún var alltaf í uppáhaldi hjá honum.

Ég átti vinkonu sem var hrakfallabálkur og oftast þegar við hittumst var hún að jafna sig eftir óhöpp eða meiðsli.

Ég átti vinkonu sem fékk bara að spila með í fyrri hálfleik.

Elsku Óli Helgi, Þórdís, Óli Geir og fjölskyldan Valdastöðum, innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Elsku Geira og Sveinn, Jói, Bjarni Ágúst og fjölskyldur, ég og fjölskyldan mín öll samhryggjumst ykkur innilega á þessum erfiðu tímum. Við þökkum ykkur áratuga vináttu sem mun lifa og auðga líf okkar áfram.

Minningarnar um Önnu Björgu okkar lifa í hjarta okkar.

Það ert þú

sem til himins hugsar

og spyrð um þína trú

þú sem að leitar

og lifir

Eitt blik á stjörnubjörtum himni þú

ein bára á sléttum hafsins fleti þú

eitt barn sem fæðist meðan annað fer

eitt skip í tímans hafi steytt á sker

það ert þú

(Jónas Sigurðsson.)

Linda Björg Sigurðardóttir.

Ég var rétt að verða sjö ára þegar Anna Björg kom fyrst heim að Valdastöðum með Óla Helga bróður mínum. Hún hélt að ég væri stórskrýtin enda læddist ég meðfram veggjum og þorði ekki að yrða á þessa nýju konu í feimni minni. Það stóð þó ekki lengi og fljótlega var Anna Björg orðin eins og nýja systir mín. Óli Helgi og Anna Björg voru mörg sumur á Valdastöðum þótt þau byggju í bænum á veturna svo að samgangurinn var heilmikill. Alltaf virtist Anna Björg hafa tíma og þolinmæði til að sinna þessari nýju, litlu systur þegar mér leiddist. Oft var gripið í yatzy, sem hún vann alltaf á einhvern ótrúlegan hátt, eða þá einhver önnur spil.

Þegar ég hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík flutti ég til Önnu og Óla í Álfatúnið og bjó þar í fjóra vetur. Þar varð hún eiginlega eins og önnur mamma mín, hugsaði endalaust vel um mig og kenndi mér margt og mikið. Það var ómetanlegt að fá að vera hluti af litlu fjölskyldunni þeirra á þessum árum. Þórdís fæddist fyrsta veturinn og skildi hún síðar ekkert í því þegar þau fluttu í sveitina fjórum árum seinna að það væri ekki líka sérherbergi fyrir mig þar enda var ég orðin eins og stóra systir hennar.

Minningarnar eru ótalmargar og fallegar. Anna Björg að kokka eitthvað ljúffengt í eldhúsinu. Lasagnað átti helst að taka sig allan daginn og aldrei hef ég séð jafnmikla alúð lagða í sósugerð enda fyrirfinnst ekki betri sveppasósa en sósan hennar Önnu Bjargar. Anna Björg í laugardagspilsinu að grilla ofan í stórfjölskylduna, sama hvernig viðraði. Stússið í matjurtagarðinum og í sauðburðinum með Markúsi Orra sem þótti líka svo afskaplega vænt um Önnu „frænku“. Anna Björg, skírnarvottur Matthíasar Kára sem aldrei fær að skottast með henni úti á túni innan um lömbin.

Önnu Bjargar verður ákaflega sárt saknað, betri og gegnheilli manneskju held ég að sé varla hægt að finna. Ég hugga mig við minningarnar um trausta og hlýja konu sem gaf sig alla í að gleðja þá og hjálpa sem stóðu henni næst. Takk fyrir allt gæskan.

Valdís.

Í skýrslu stjórnar Kvenfélags Kjósarhrepps fyrir árið 2006, stendur: „Í lok ársins gekk ein kjarnakona í Kvenfélagið. Henni var strax ýtt út í fyrsta verkefnið, og það var ekki minna en að skemmta sveitungunum á þorrablóti. Velkomin Anna Björg.“

Það var mikill fengur fyrir okkar litla félag að fá Önnu Björgu til liðs við okkur. Hún tók alla tíð virkan þátt og var starfandi ritari félagsins frá 2010.

Hún var hrókur alls fagnaðar bæði í leik og starfi. Ætíð tilbúin í þau verkefni sem að höndum bar. Ef við vorum búnar að flækja málin fullmikið tók Anna Björg gjarnan af skarið með sína meðfæddu forystuhæfileika og sagði: „Æ, stelpur, hættið þessu, við gerum þetta bara svona“, þá var það ákveðið. Oftast kölluðum við hana gæskuna okkar, en ef hún fór fram úr sér var hún gjarnan kölluð „Gyða Sól“. Við eigum svo margar skemmtilegar og góðar minningar um Önnu Björgu, með sitt geislandi bros, dugnað og óendanlega bjartsýni.

Í tilefni 25 ára afmælis okkar, árið 1965, færðu Kjósarbændur félaginu ljóð að gjöf. Þessi tvö erindi úr ljóðinu eru mjög lýsandi fyrir þátttöku Önnu Bjargar og framlag hennar til kvenfélagsins.

Þið eigið blóm í eigin garði,

þið eigið þátt í búsins arði

og æskunni veitið vernd og skjól.

Þið hlúið að gleði og heilsulindum

hamingjuna við ykkur bindum

eins og jörðin, sumri og sól.

Öllum þeim er einskis njóta

umbun ykkar og blessun hljóta

kvenfélagsins kjörið verk.

Ef að vantar þátt í þörfum.

Þá er byggt á ykkar störfum

og lausnin verður ljúf og sterk.

(Ólafur Á. Ólafsson)

Við kvenfélagskonur kveðjum góða vinkonu og þökkum Önnu Björgu samfylgdina. Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Kvenfélags Kjósarhrepps,

Sigurbjörg Ólafsdóttir.

Stórt skarð er hoggið í okkar litla samfélag í Kjósarhreppi. Sveitin verður aldrei söm eftir að almættið kaus að taka til sín Önnu Björgu „gæskunnar“, sem hefur verið samofin öllu lífi í sveitinni frá því er hún hóf búskap með eiginmanni sínum, Ólafi Helga Ólafssyni, á æskuheimili Óla á Valdastöðum í Kjós.

Anna Björg lést langt um aldur fram eftir skammvinn veikindi. Íbúum í Kjósarhreppi mun reynast erfitt að skilja að sveitin mun ekki með sama hætti og áður njóta mannkosta Önnu, eljusemi hennar og manngæsku, glaðværðar hennar og vináttu. Íbúar í Kjósarhreppi munu lengi minnast Önnu Bjargar fyrir þátttöku hennar í stjórn og starfsemi sveitarfélagsins og fyrir óeigingjarna þátttöku hennar í öllu félagslífi í sveitinni. Anna Björg hefur markað djúp og órjúfanleg spor í samfélag okkar.

Anna Björg var kosin til setu sem aðalmaður í hreppsnefnd Kjósarhrepps í tvö kjörtímabil á árunum 1998 til ársins 2006. Á þessu tímabili starfaði hún jafnframt að öðrum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið m.a. sem stjórnarmaður í stjórn Heilsugæslu Kjósarumdæmis og sem fulltrúi í fulltrúaráði Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Anna Björg var um árabil stuðningsfulltrúi við börn í Kjósarhreppi, sem þurftu á miklum stuðningi að halda við skólanám sitt, fyrst við Ásgarðsskóla í Kjós en síðar við Klébergsskóla á Kjalarnesi eftir að skólastarf í sveitinni var flutt þangað. Anna Björg sinnti þessu starfi sínu af alúð og hún myndaði sterk og náin tengsl við börnin sem þau og aðstandendur þeirra búa áfram að og munu ekki gleyma.

Á vegum sveitarfélagsins hefur Anna Björg einnig um árabil haldið utan um rekstur bókasafnsins í Ásgarði. Bókasafnið hefur jafnan verið opið fyrir íbúa hreppsins á miðvikudagskvöldum, þar sem vinsælt hefur verið að þiggja kaffiveitingar við hressilegt og menningarlegt spjall. Í tengslum við rekstur bókasafnsins stóð Anna Björg fyrir menningarviðburðum t.d. með því að fá rithöfunda til þess að lesa úr bókum sínum fyrir okkur sveitafólkið.

Þrátt fyrir ýmsa umsýslan við búverkin á Valdastöðum og störf hennar fyrir hönd Kjósarhrepps þá hefur hún einnig ávallt verið þátttakandi í öllu almennu félagsstarfi í sveitinni. Anna Björg hefur m.a. staðið í fremstu röð í göfugu starfi Kvenfélags Kjósarhrepps og hún hefur ásamt eiginmanni sínum Ólafi Helga verið ómissandi gleðigjafi í „Unghjónaklúbbi Kjósarhrepps“, þar sem slegið hefur verið á léttari strengi.

Með Önnu Björgu Sveinsdóttur, bónda á Valdastöðum í Kjós, er horfinn náinn vinur og samstarfsmaður, sem lýst hefur upp samfélag okkar. Hún hefur gert líf okkar betra með sinni yndislegu framkomu og nærveru.

Kæri Óli og börn ykkar, Sigrún, Þórdís og Óli Geir. Missir ykkar er mikill og söknuðurinn er sár. Við vottum ykkur og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Önnu Bjargar Sveinsdóttur og hafi hún þakkir fyrir allt sitt góða og fórnfúsa starf í þágu sveitarfélagsins.

Fyrir hönd Kjósarhrepps

Guðmundur H. Davíðsson, oddviti, og

Guðný G. Ívarsdóttir,

sveitarstjóri.

Frá Klébergsskóla

Anna Björg Sveinsdóttir starfaði í tíu ár í Klébergsskóla og fráfall hennar skilur eftir sig skarð í hjörtum okkar sem ekki verður fyllt svo glatt. Á þessum tíma ávann hún sér virðingu og væntumþykju nemenda, þeir treystu henni og treystu á hana. Hún var vinur og verndari, leiðbeinandi í náminu, stoð og stytta. Anna Björg var baráttukona fyrir rétti og hagsmunum skjólstæðinga sinna og hafði um leið þann eiginleika að sýna þeim alltaf virðingu og hlýhug. Þetta tvennt er aðalsmerki skólamannsins og Anna Björg var svo sannarlega á réttri hillu í skólastarfinu þó að hún hafi jafnframt uppeldisstörfunum sinnt bústörfum á Valdastöðum. Hún hafði þetta í sér, þetta var henni eðlislægt og er hennar nú sárt saknað í Klébergsskóla. Þar átti hún líka marga af sínum nánustu og bestu vinum.

Þegar við reynum að takast á við erfiðan missi á borð við þennan, þá leitar hugurinn ósjálfrátt á bjartari staði. Þar getum við yljað okkur við góðar minningar um konu sem var falleg bæði á ytra borði og því innra. Anna Björg var glæsileg kona og aðsópsmikil, viljasterk og ákveðin. Hún lá ekki á skoðunum sínum en hafði til að bera hjartalag sem fann til með lítilmagnanum – og heillandi bros og einstakan, smitandi hlátur sem við tölum um í dag. Hennar er saknað en minningin um hana lifir í skólanum, í dag, á morgun og um ókomna tíð.

Við í Klébergsskóla sendum Ólafi Helga, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur og okkar hlýjustu strauma.

Fyrir hönd starfsmanna og nemenda Klébergsskóla,

Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri.

Elsku Anna Björg. Nú kveðjum við þig í dag og ég er svo innilega ekki tilbúin til þess. Ég er meyr í hjarta þegar ég hugsa til þín.

Ég var svo heppin að kynnast þér í gegnum Sylvíu Rún, en þú varst hennar hægri hönd í skólanum, þú kunnir svo vel á hana, gast alltaf talað hana til og hún fann til svo mikils öryggis með. Með ykkur óx mikil hlýja og það veitti okkur hjónum svo mikinn stuðning. En svo var ég svo heppin að kynnast þér betur þegar ég fór að vinna í Klébergsskóla og við vorum með svona einkahúmor, gerðum stöðugt grín hvor að annarri, en við gátum líka verið eðlilegar og töluðum um fjölskyldur okkar. Þegar ég hugsa til elsku barna þinna og Óla, vá, þetta er svo mikil missir. Ég og Sylvía Rún vorum að tala um þig um daginn því að hún var svo pirruð í skólanum og einn kennari hennar sagði við hana: „Sylvía mín, ertu búin að borða?“ Þá sagði hún mér að sér hefði fundist eins og Anna Björg væri komin í skólann, því alltaf þegar hún var pirruð hefði Anna sagt þetta við hana og gefið henni að borða, tók ekki á móti mótmælum.

Einu sinni þegar við hjónin vorum að fara til Bandaríkjanna léstu hana fá miða með fatanúmerum.

Hún hafði svo miklar áhyggjur af því að ég myndi ekki kaupa neitt handa þér. Svo þegar hún sagði að mamma hefði ekki keypt neitt handa þér, þá hlóstu svo innilega.

Þú varst henni svo kær. Þú tókst hana stundum með þér heim og leyfðir henni að vinna í fjósinu sem hún elskaði og þetta var ykkar tími þar sem þið töluðuð saman og gerðuð grín. Þessi tími er henni svo kær. Sylvía Rún hafði heyrt að þú værir svo mikið lasin en var að reyna að telja sér trú um að þú myndir sigrast á þessu, en það var ekki mikil sannfæring í þessu hjá henni. Þegar ég hugsa til þess núna er eins og einhver hafi verið að undirbúa hana fyrir þessar fréttir. En elsku Anna mín, þín verður sárt saknað.

Það sem drífur okkur áfram er minning um hlátur þinn og gleðina gagnvart lífinu, þú varst alltaf svo hress og jákvæð, hleyptir ekki neinu neikvæðu inn. Og eins og þú sagðir um áramótin þá varstu búin að ættleiða Pollýönnu og það huggar mig að vita um jákvæðni þína. Þegar ég var að hugsa til þín um hvernig ég gæti lýst þér datt mér Lína langsokkur í hug, glens og gaman, það ert þú, sterkust af öllum stelpunum er, og það ert þú. Ég þakka fyrir að hafa kynnst þér og er svo þakklát fyrir hvað þú hugsaðir vel um stelpuna mína og þú átt stóran þátt í hvað hún er flottur einstaklingur í dag. Ég hafði sagt þér það áður en ég vildi að ég gæti sagt það við þig aftur.

Elsku Þórdís, Óli Geir og Óli, ég bið góðan Guð að gefa ykkur allan þann styrk sem þið þurfið.

Elva Dís og

Sylvía Rún.

HINSTA KVEÐJA
Sólin sveif á tindi Baulu
í blárri vornóttinni
og skreytti Skessuhornið
rauðri skotthúfu
við dönsuðum á milli trjánna
með skógarþrestinum
vöknuðum glaðar að morgni
og gengum sjö til veiða
í silkimjúkri ánni
gott er að minnast
góðra daga á bakkanum
með kærri Óðflugu.
Hrafnhildur Inga
Sigurðardóttir.

Elsku Anna Björg.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér næraldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)

Kærleikskveðja.
Fyrir hönd Unghjónaklúbbsins í Kjósinni,
Jóhanna og
Sigríður Klara.