Árni Gunnarsson
Árni Gunnarsson
Eftir Árna Gunnarsson: "Hlutverkasetur hefur stuðlað að endurhæfingu mikils fjölda einstaklinga, sem áður sátu í myrkri einsemdar og vonleysis."

Í tæpan áratug hefur Hlutverkasetur (AE starfsendurhæfing) leyst mikinn fjölda fólks úr fjötrum einsemdar, þunglyndis og ýmissa geðrænna kvilla. Félagið var stofnað í maí 2005 og hefur starfsemi þess vaxið ört síðustu árin. Í miðstöð félagsins í Borgartúni 1 í Reykjavík kemur fjöldi fólks á hverjum degi að sækja sér stuðning, tómstundaiðju og sérfræðiaðstoð til að takast á við dagleg vandamál.

Hjá Hlutverkasetri hafa góðir hlutir gerst hratt undir stjórn Elínar Ebbu Ásmundsdóttur, iðjuþjálfa, sem styðst við stóran hóp fagfólks og sjálfboðaliða. Þessir starfsmenn hafa mótað einstaklega hlýlegt, mannvænt og litríkt samfélag, þar sem allir eru velkomnir til þátttöku í uppbyggjandi starfi, sem hefur það meginmarkmið, að efla virkni fólks, sem hefur glatað hlutverki í lífinu, einkum vegna andlegra áfalla og veikinda.

Þessi starfsmei er ekki hávær né ber hún bumbur á torgum. Áhrifin hafa hins vegar farið víða og orðið mörgum til mikillar gæfu. Hlutverkasetur hefur starfað í samvinnu við velferðarsvið Reykjavíkurborgar, innlendir og erlendir nemar hafa verið þar við vettvangsnám og Virk hefur stutt starfið. Þá hafa verið gerðir samningar við velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun og unnið hefur verið að tilraunaverkefnum með hverfasamtökum og bæjarfélögum utan Reykjavíkur. Hlutverkasetur hefur veitt margvíslegri þekkingu víða um land og stuðlað að endurhæfingu fjölda einstaklinga, sem áður sátu kjarklausir í myrkri einsemdar og vonleysis, en eru nú komnir til starfa hjá stofnunum og fyrirtækjum, sem hafa haft skilning á mikilvægi þeirrar endurhæfingar, sem er kjarninn í starfi Hlutverkaseturs.

Í miðstöð setursins í Borgartúni 1 eru daglega í boði fjölbreytt námskeið; allt frá tónlist og leiklist til prjóna- og saumaskapar. Þar er öllum vel tekið og faðmurinn er stór. Árangur þessa mikilvirka en látlausa félagsskapar hefur á 10 árum sýnt og sannað, að með alúð, þekkingu og fórnfúsu starfi má gott af góðu hljóta.

Hinn 13. maí nk. verða 10 ár liðin frá stofnun Hlutverkaseturs. Frá þeim degi og fram í október verður áfangans minnst með ýmsum viðburðum, sem kynntir verða á heimasíðunni hlutverkasetur.is.

Höfundur situr í stjórn Hlutverkaseturs.