Tvær litlar flugur í glugga eru nóg til að vekja mikla kátínu. Þessi gleði er þó bundin barni á leikskólaaldri en ekki Víkverja. Það þarf ekki alltaf stórviðburði til að gleðja fólk.

Tvær litlar flugur í glugga eru nóg til að vekja mikla kátínu. Þessi gleði er þó bundin barni á leikskólaaldri en ekki Víkverja. Það þarf ekki alltaf stórviðburði til að gleðja fólk. Það er víst nóg að fylgjast með flugunum og reyna að koma fingrunum eins nálægt þeim og hægt er til að kitla hláturtaugarnar.

Að sjálfsögðu veltir Víkverji fyrir sér á hvaða stað hann er í lífinu, fyrst hann getur ekki hlegið að jafn hversdagslegum hlut og flugum í glugga.

Sagan er þó ekki alveg öll sögð því þetta umrædda barn er tiltölulega nýhætt að vera hreinlega skíthrætt við flugur. Það var því nokkuð tryllingslegur glampi í augum barnsins þegar það potaði nálægt fluguskömminni sem flögraði af stað um leið og feitur putti nálgaðist.

Kannski var það sigurinn yfir eigin ótta og gleðin að ná að yfirstíga hann sem kallaði fram hlátur barnsins. Hver veit? Víkverji gleymdi að spyrja hvað væri svona ákaflega fyndið.

Flugur í glugga eru þó vísbendingar um eitt sem er á næsta leiti. Vorið. Já, vorið krakkar mínir er alveg að koma. Víkverji er handviss um það. Í það minnsta ætlar hann að kaupa sáðmold í blómabúð og byrja að forrækta blóm og ýmsar ætijurtir. Betri helmingurinn á eftir að byrsta sig um leið og ruslið hertekur stofugluggann en Víkverji lætur það ekki á sig fá.

Mars er fullur af lífi. Í það minnsta rekur hver viðuburðurinn annan í lífi Víkverja og hann á í stökustu vandræðum með að sinna öllu því sem stendur til boða. Kannski er þá bara kominn tími til að forgangsraða. Það er sjaldan hægt að neita sér um veisluhöld og samgleðjast með öðrum. Lífið er samverustundir með vinum og fjölskyldu; þó pyngjan léttist þá fyllist hjartað af gleði.