Guðrún Halla Margrét Snæbjörnsdóttir fæddist 21. mars 1911 í Ólafsvík. Faðir hennar var Snæbjörn Eyjólfsson, f. 26.4. 1880, d. 20.12.

Guðrún Halla Margrét Snæbjörnsdóttir fæddist 21. mars 1911 í Ólafsvík. Faðir hennar var Snæbjörn Eyjólfsson, f. 26.4. 1880, d. 20.12. 1958, sjómaður þar, en faðir hans var Eyjólfur Jóhannsson, bóndi og sjómaður á Garðsenda á Skógarströnd og í Tröð í Eyrarsveit, en hann var sonur Jóhanns Teitssonar bónda á Ósi og k.h. Margrétar Jónsdóttur. Móðir Höllu og kona Snæbjörns var Guðmunda Jónatansdóttir, f. 24.2. 1875, d. 30.6. 1942, húsfreyja í Ólafsvík, síðar vinnukona í Firði í Múlasveit, dóttir Jónatans Grímssonar bóndi á Hellu í Beruvík.

Systkini Höllu voru Eyjólfur verkstjóri í Ólafsvík og Elín húsfreyja í Ólafsvík og Reykjavík. Hálfsystir Höllu sammæðra var Hjálmfríður Eyjólfsdóttir húsmóðir og hótelstjóri í Bjarkarlundi

Halla ólst upp í foreldrahúsum en kom til Reykjavíkur fimmtán ára gömul og réðst í vist í barnagæslu. Með barnagæslunni gafst Höllu einnig tækifæri til að stunda íþróttir undir leiðsögn Jóns Þorsteinssonar, íþróttakennara. Hann hvatti Höllu til frekara íþróttanáms í Danmörku og kom henni í námsvist á Ollerup-lýðháskólanum, þar sem hún lauk íþróttakennaraprófi. Þar sem ekki var auðvelt að fá atvinnu sem íþróttakennari á þessum tíma var Höllu ráðlagt að læra hjúkrun. Hún lauk hjúkrunarnámi við Fredriksberg Hospital í Kaupmannahöfn 1940 og starfaði á árum seinni heimsstyrjaldarinnar við hjúkrunarstörf í Kaupmannahöfn, lengst af á vegum danska Rauða krossins. Hún kom heim 1945 en hélt vestur um haf árið 1946 og vann við hjúkrun berklasjúkra við Gaylord Sanatorium og Wallingford í Connecticut til ársins 1949.

Halla var forstöðukona Blóðbankans frá stofnun hans 1953 til 1980 og fékk styrk frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) til að kynna sér blóðbankastarfsemi og blóðflokkarannsóknir við sjúkrahúsið í Hartford í Connecticut og víðar þar vestra.

Halla var ógift og barnlaus. Hún lést 2.3. 1994.