Árið 2009 var samþykkt þingsályktunartillaga um að Ísland skyldi gerast aðili að Evrópusambandinu.

Árið 2009 var samþykkt þingsályktunartillaga um að Ísland skyldi gerast aðili að Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin sem lagði hana fram hefði ekki þurft þess, en kaus að gera það, svona til þess að gulltryggja það að annar þáverandi stjórnarflokka, sem hingað til hefur þóst vera andsnúinn aðild, gæti ekki annað en stutt óbeint við ferlið, þrátt fyrir kosningaloforð um annað.

Það má alveg rifja það upp að í athugasemdum við ályktunina var vinstri stjórninni alls ekki gefið frítt spil í viðræðunum við ESB, heldur átti hún að gæta ákveðinna „grunnhagsmuna“ Íslands, sem voru listaðar í sex liðum. Þar á meðal var nefnt að í viðræðunum bæri að „tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er“. Þegar á síðasta kjörtímabili varð ljóst að það myndi ekki ganga eftir að forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni yrði tryggt. Raunar var það svo ljóst að sjávarútvegskaflinn kom ekki einu sinni til umræðu á öllum þeim tíma sem leið á milli 2009 og 2013, þrátt fyrir vilja íslensku samninganefndarinnar til þess. Líkt og Ágúst Þór Árnason hefur bent á sigldu viðræðurnar í raun í strand árið 2011 því að Evrópusambandið hafði ekki áhuga á því að semja um eitt né neitt, enda hefur viðkvæðið þar alltaf verið hið sama: Það eru engar varanlegar undanþágur í boði.

Sú ríkisstjórn sem ætlaði sér því að ná samningi við ESB yrði því að slá af þeim „grunnhagsmunum“ sem sérstaklega eru nefndir í þingsályktuninni, sem allt í einu er orðin heilagri en aðrar slíkar. Umsóknin er því sjálfdauð samkvæmt ályktuninni sjálfri.

En hvað gerist þegar reynt er að draga umsóknina til baka, líkt og fyrri ríkisstjórn hefði átt að gera? Jú, stjórnarandstaðan svoleiðis missir sig í ómálefnalegum málflutningi, landráðabrigslum og tali um valdarán. Öllum að óvörum kemur í ljós að Illugi Jökulsson vill að ríkisstjórnin fari frá, líkt og hinir atvinnumótmælendurnir á Austurvelli sem þykjast allt í einu hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum út á Evrópumálin.

Þvert á fúkyrðaflauminn á Alþingi, hafa hvorki lög né stjórnarskrá verið brotin með bréfi utanríkisráðherra. Það er engin krísa í stjórnskipun landsins og það er ekki búið að ræna völdum. Hér er ennþá þingræði við lýði, og ætti stjórnarandstöðunni að vera í lófa lagið að fá samþykkt vantraust á ríkisstjórnina eða utanríkisráðherra hið snarasta, ef ekki er þar meirihluti fyrir ákvörðunum framkvæmdavaldsins.

Hvað stendur þá eftir? Jú, að þeir sem nú hamast hvað mest fyrir því að haldið sé ríghaldi í dauða aðildarumsókn eru í raun að berjast fyrir því að viðræðurnar haldi áfram á forsendum Evrópusambandsins. Ég vona að andi Jónasar frá Hriflu fyrirgefi mér þegar ég segi að í þessum efnum gildi: „Allt er betra en ríghaldið.“ sgs@mbl.is

Stefán Gunnar Sveinsson