Kveðist á Það ríkti mikil gleði á Landsmóti kvæðamanna á Siglufirði.
Kveðist á Það ríkti mikil gleði á Landsmóti kvæðamanna á Siglufirði. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Sigurður Ægisson Siglufirði Meðalumferð á dag um Héðinsfjarðargöng mældist 609 bílar/sólarhring allt síðasta ár og hefur aldrei verið meiri frá því að göngin voru opnuð.

Úr bæjarlífinu

Sigurður Ægisson

Siglufirði

Meðalumferð á dag um Héðinsfjarðargöng mældist 609 bílar/sólarhring allt síðasta ár og hefur aldrei verið meiri frá því að göngin voru opnuð. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem meðalumferðin fer yfir 600 bíla/sólarhring. Samtals fóru rúmlega 222 þúsund ökutæki um göngin allt síðasta ár borið saman við rúmlega 205 þúsund árið 2013. Þetta er því aukning um 8,4% á milli ára. Sumardagsumferðin (júní-september) jókst enn meira eða um 9,4% á milli ára.

Alls hafa 16 skemmtiferðaskip boðað komu sína til Siglufjarðar í sumar. Það fyrsta kemur 27. maí og það síðasta 24. september. Mikil fjölgun skipa hefur verið á milli ára og er þessi ferðaþjónusta í mikilli sókn í Siglufirði.

Örlygur Kristfinnsson hefur fyrir hönd Síldarminjasafns Íslands óskað eftir stuðningi Fjallabyggðar til að hægt verði að halda norræna strandmenningarhátíð á Siglufirði árið 2018. Leggur hann til að Síldarminjasafnið og Fjallabyggð gangi til liðs við Vita- og strandmenningarfélagið en það hefur verið tengiliður Íslands við þessa hátíð sem haldin hefur verið til skiptis á Norðurlöndunum frá árinu 2011.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er 15 ára í ár, en hún var fyrst haldin árið 2000 fyrir tilstuðlan Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, Reykjavíkur – menningarborgar Evrópu árið 2000, og Siglufjarðarkaupstaðar. Hátíðin er skipulögð í nafni Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, en samstarfsaðilar á Siglufirði eru Síldarminjasafnið og Siglufjarðarkirkja.

Eyþór Eðvarðsson hjá Þekkingarmiðlun hefur búið til afar sláandi þátt um fornleifauppgröft á Siglunesi, en þar eru ómetanlegar fornminjar frá fyrstu tíð, jafnvel 9. öld að því talið er, sem eru að hverfa í sjóinn. Umræddan þátt er að finna á youtube.com.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, heimsótti Siglufjörð 5. og 8. mars. Var það liður í vísitasíuferð hennar um Norðurland sem hófst á síðasta ári og var nú áfram haldið. Með henni í för voru Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, og Jón Ármann Gíslason, prófastur á Skinnastað.

Landsmót kvæðamanna var haldið á Siglufirði 7. mars.

Afli skipa Ramma hf. á síðasta ári var rúmlega 18.000 tonn, að verðmæti tæplega 6 milljarða króna. Hefur fyrirtækið nú samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016. Skipið verður með vinnslubúnað eins og best gerist.

Fríða Björk Gylfadóttir er bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015.

Tökum á Ófærð, viðamestu framhaldsþáttaröð sem gerð hefur verið hér á landi fyrir sjónvarp, lýkur senn en þær hófust nyrðra í lok janúar. Áður munu tökur hafa farið fram í Reykjavík og nágrenni fyrir jól en samkvæmt upplýsingum frá framleiðslufyrirtækinu, RVK Studios, eru tökudagar um 85. Hátt í 90 manns vinna að gerð þáttanna. Framleiðslukostnaður slagar hátt í milljarð króna, sem gerir hana jafnframt að dýrustu sjónvarpsþáttaröð sem Íslendingar hafa framleitt.