Markaskorari Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er markahæst í Olís-deild kvenna með 140 mörk fyrir Selfoss og hún fékk tækifærið í Sviss í gær.
Markaskorari Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er markahæst í Olís-deild kvenna með 140 mörk fyrir Selfoss og hún fékk tækifærið í Sviss í gær. — Morgunblaðið/Golli
„Við notuðum þennan leik til að leyfa leikmönnum að spila sínar fyrstu alvöru mínútur með landsliði. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir spilaði allan leikinn og Helena Örvarsdóttir spilaði meirihlutann í leiknum.

„Við notuðum þennan leik til að leyfa leikmönnum að spila sínar fyrstu alvöru mínútur með landsliði. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir spilaði allan leikinn og Helena Örvarsdóttir spilaði meirihlutann í leiknum. Elín Jóna Þorsteinsdóttir var á leikskýrslu í fyrsta skiptið. Við notuðum þennan leik til að dreifa álaginu og leyfa yngri leikmönnum að spila,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik eftir að það tapaði, 25:21, fyrir Sviss í öðrum vináttuleik liðanna í Visp í gær.

Íslenska liðið var yfir í hálfleik, 16:12, en skoraði aðeins fimm mörk í seinni hálfleiknum.

Ágúst hvíldi tvo lykilleikmenn liðsins, þær Karenu Knútsdóttur og Rut Jónsdóttur í gær en þær verða væntanlega báðar með í þriðja og síðasta leik liðanna í dag. „Við vorum í smábarningi síðasta korterið að vinna þær maður á mann. Þegar við náðum að gera það, og skapa okkur færi þá fórum við illa með þau, og það var dýrt,“ sagði Ágúst.

Mörk Íslands: Birna Berg Haraldsdóttir 8/4, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 4, Ramune Pekarskyte 4, Arna Sif Pálsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1. Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 15. peturhreins@mbl.is