Hátíðardagskrá Á morgun verður góð dagskrá í Rauða húsinu á Eyrarbakka.
Hátíðardagskrá Á morgun verður góð dagskrá í Rauða húsinu á Eyrarbakka. — Morgunblaðið/Þorkell
Á morgun, sunnudaginn 22. mars, verður sérstök hátíðardagskrá Konubókastofu í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Tilefnið er ærið því í ár eru hundrað ár liðin frá því að konur á Íslandi fengu almennan kosningarétt.

Á morgun, sunnudaginn 22. mars, verður sérstök hátíðardagskrá Konubókastofu í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Tilefnið er ærið því í ár eru hundrað ár liðin frá því að konur á Íslandi fengu almennan kosningarétt. Dagskráin hefst klukkan 14 og stendur til 16 og munu ýmsar heiðurskonur deila fróðleik með gestum og næsta víst að hann tengist kosningarétti, kvennabaráttu og framtíðarhorfum. Á meðal þeirra sem munu koma fram eru Hildur Hákonardóttir, Auður Styrkásdóttir, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og námsmeyjarnar Halldóra Íris Magnúsdóttir og Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir úr Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Margrét Eir, söng- og leikkona mun syngja nokkra kvennaslagara og er ókeypis inn á þennan viðburð sem allir eru velkomnir á. Hátíðardagskráin er styrkt af 100 ára afmælisjóðnum og af Sveitarfélaginu Árborg en þær Ruth Ásdísardóttir og Rannveig Anna Jónsdóttir skipulögðu.