Hætta er á alvarlegum skorti á ferskvatni í löndum þar sem loftslagið er hlýtt og þurrt ef ríki heims gera ekki ráðstafanir til að bæta nýtingu vatnsins, að því er fram kemur í nýrri skýrslu stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Hætta er á alvarlegum skorti á ferskvatni í löndum þar sem loftslagið er hlýtt og þurrt ef ríki heims gera ekki ráðstafanir til að bæta nýtingu vatnsins, að því er fram kemur í nýrri skýrslu stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Í skýrslunni segir að til sé nægilegt ferskvatn til að fullnægja þörf heimsbyggðarinnar, að því tilskildu að gerbreyting verði á því hvernig vatnið er nýtt, hvernig ríkin stjórna nýtingunni og deila vatninu með öðrum.

Hættan á vatnsskorti stafar einkum af íbúafjölgun í heiminum. Íbúar jarðar eru nú um 7,3 milljarðar og þeim fjölgar um 80 milljónir á ári. Líklegt þykir að íbúarnir verði orðnir 9,1 milljarður árið 2050.

Til að mæta þessari fjölgun og brauðfæða íbúana þarf að auka landbúnaðarframleiðsluna um 60%. Nú þegar eru um 70% af allri vatnsnotkun í heiminum notuð til matvælaframleiðslu.

Hlýnun jarðar er einnig talin geta ýtt undir vatnsskort þar sem líklegt er að breytingar verði á úrkomunni, þ.e. að hún minnki á sumum þéttbýlum svæðum en aukist ef til vill annars staðar.

Þéttbýlismyndun getur ýtt undir vatnsskort, að sögn skýrsluhöfundanna. Þeir spá því að vatnsþörfin aukist um 55% í heiminum fyrir árið 2050, einkum vegna mannfjölgunar á þéttbýlum svæðum.

„Borgir þurfa að leita lengra eða grafa dýpra til að ná í vatn, eða þurfa að reiða sig á nýjar lausnir eða tækninýjungar til að fullnægja vatnsþörfinni,“ segir í skýrslunni.

Grunnvatn ofnýtt til áveitu

Skýrsluhöfundarnir benda á margt sem betur mætti fara, meðal annars á mengun vatns af völdum efna á borð við skordýraeitur, auk mengunar frá verksmiðjum og vegna óhreinsaðs skólps. Í skýrslunni er einnig varað við ofnýtingu vatns, einkum til áveitu.

Rúmur helmingur íbúa heimsins notar grunnvatn og um 43% af öllu áveituvatni heimsins eru grunnvatn. Um 20% af vatnsgengu jarðlögunum eru ofnýtt, að sögn skýrsluhöfundanna. Svo mikið vatn er tekið úr jarðlögunum að vatnstakan hefur oft valdið landsigi, eða því að saltvatn hefur borist í ferskvatn undir yfirborði jarðskorpunnar á strandsvæðum.

Aukin vatnsnotkun hefur þegar leitt til vatnsskorts á svæðum á borð við Norður-Kínasléttuna, um 410.000 ferkm landsvæði. Þar hefur mikil áveita valdið því að grunnvatnsborðið hefur lækkað um meira en 40 metra á sumum svæðum. Ennfremur er talin hætta á miklum vatnsskorti á Indlandi vegna ofnýtingar á grunnvatni til áveitu á sumum svæðum. bogi@mbl.is