Sigríður Magnúsdóttir fæddist 14. mars 1923. Hún lést 30. janúar 2014. Sigríður var jarðsungin 14. febrúar 2014.

Hinn 14. mars sl. hefði amma orðið 92 ára og því langar mig að minnast hennar með örfáum orðum. Þegar ég minnist ömmu streyma fram minningar úr æsku allt til okkar síðustu stunda saman.

Amma var glæsileg kona, hlý og góð. Hún elskaði tónlist og var lengi í kór bæði í Möðruvallasókn og kór aldraðra á Akureyri. Amma elskaði líka að dansa. Mér er minnisstætt þegar ég heimsótti ömmu í Víðilundinn og hún spurði hvort við ættum ekki að fara niður og drekka kaffi og hlusta á tónlist, það ætti líka að dansa gömlu dansana. Á þessum tíma var amma búin að tapa mestallri sjón og gekk með göngugrind. En það stoppaði hana ekki, hún tók bæði þátt í söngnum og dansinum. Göngugrindin var sett til hliðar og upp stóð hún þegar henni var boðið í dans og teinrétt og glæsileg dansaði hún. Ég dáðist að henni og fannst hún svo falleg og glæsileg. Amma spilaði líka keilu á elliheimilinu í Kjarnalundi, það fannst Óskari mínum ótrúlega kúl, þ.e.a.s. að eiga langömmu sem spilaði keilu þótt hún sæi nánast ekki keilurnar og svo fékk hann auðvitað að spila með.

Þegar komið var í heimsókn til ömmu var fastur liður að fá sér kaffi og „með því“. Amma var mjög gestrisin og umhugað um að hafa nóg af bakkelsi ef gesti bar að garði. Þrátt fyrir að hringja á undan og segja að maður ætlaði bara rétt að kíkja í kaffi þá stóð heilt hlaðborð og beið þegar maður mætti. Og það þýddi ekkert að segja að maður væri ekki svangur, maður lærði fljótt að það var alveg eins gott að borða strax eins og að reyna malda í móinn því amma hélt tölu yfir hvað maður setti ofan í sig og að maður borðaði nóg.

Amma fór ekki alltaf troðnar slóðir og líf hennar var ekki alltaf dans á rósum. Andleg veikindi þjáðu hana á tímum, ung missti hún dóttur sína Sigrúnu og nokkrum árum seinna eignaðist hún Kristínu frænku sem er fædd med Downs syndrom. Eftir að ég sjálf varð fullorðin og eignaðist barn ræddum við amma um ótrúlegustu hluti, marga sem bara verða á milli okkar. En hún kenndi mér margt. Amma fór ekki alltaf troðnar slóðir miðað við aldur og samtíð. Hún tók t.d. bílpróf á gamals aldri þegar afi veiktist af Parkisons og gat ekki keyrt lengur og hún lét ekki segja sér hvað væri best að gera fyrir Kristínu frænku ef henni þótti það ekki passa. Kristín var t.d. fyrst af börnum með Downs syndrom til að læra að lesa. Ömmu og afa hafði verið sagt að „þessi“ börn myndu ekki læra að lesa og skrifa. Sem betur fer hlustuðu þau ekki því Kristín lærði bæði að lesa og skrifa, fór í skóla, lærði á hljóðfæri og svona mætti lengi telja.

Ömmu var umhugað um fjölskyldu sína, barnabörn og barnabarnabörn. Hún fylgdist með okkur fram á síðasta dag, hún vildi vita hvað við værum að gera og hvernig okkur liði. Amma var dugleg að hringja og það voru ófá símtölin sem við áttum saman, sem alltaf enduðu á setningunni „Guð veri með þér, elskan“.

Elsku amma, takk fyrir allt og allt.

Ég elska þig,

Antonía.