Lindargata 37 Þar er að finna dýrustu íbúðir Íslandssögunnar.
Lindargata 37 Þar er að finna dýrustu íbúðir Íslandssögunnar. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Viðskiptafélagarnir Edward Mac Gillivray Schmidt og Jónas Hagan Guðmundsson keyptu þrjár efstu hæðirnar á Lindargötu 37, ellefu hæða íbúðaturni í Skuggahverfinu í Reykjavík.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Viðskiptafélagarnir Edward Mac Gillivray Schmidt og Jónas Hagan Guðmundsson keyptu þrjár efstu hæðirnar á Lindargötu 37, ellefu hæða íbúðaturni í Skuggahverfinu í Reykjavík. Félagarnir eru búsettir í Genf og nota allar fjórar íbúðirnar á efstu hæðunum sem orlofsíbúðir.

Kaupin sæta tíðindum á íslenskum fasteignamarkaði því með íbúðunum er sett nýtt viðmið fyrir íburð í fjölbýlishúsum. Þannig hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að félagarnir hafi sett minnst á annað hundrað milljónir í húsbúnað og hönnun og kemur það til viðbótar einu hæsta fermetraverði landsins.

Annars vegar keypti Schmidt íbúðir 901 og 902 en þær eru 183,3 og 173,2 fermetrar, alls 356,2 fermetrar. Veitti byggingarfulltrúi í Reykjavík samþykki fyrir því að íbúðirnar yrðu sameinaðar.

Verðið líklega yfir 500 milljónir

Hins vegar keypti Jónas Hagan tvær efstu íbúðirnar á 10. og 11. hæð en þær eru 209,6 og 253 fermetrar, samtals 462,6 fermetrar.

Félagið Main ehf. keypti íbúðirnar fyrir hönd Jónasar Hagan en það er í 100% eigu Principal Holdings ehf. en hlutur Jónasar Hagan í því er 64,26% og á félagið Respect ehf. 35,74% hlut, samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo.

Samanlagt eru efstu þrjár hæðirnar 819,1 fermetri og herma heimildir blaðsins að reikna megi með að fermetrinn kosti 700 þúsund krónur. Samkvæmt því er kaupverðið yfir 570 milljónir.

Fyrir þá upphæð mætti kaupa 28 níutíu fermetra íbúðir í Árbænum, svo dæmi sé tekið út frá dæmigerðu meðalverði seldra eigna í hverfinu.

Þetta kann að vera varlega áætlað enda hafði Morgunblaðið eftir fasteignasala að fermetraverð á efstu hæðum í nýjustu turnum Skuggahverfisins væri allt að milljón króna.

Að viðbættum kostnaði við hönnun og húsbúnað má því ætla að kostnaður við íbúðirnar fjórar sé um og yfir 700 milljónir króna.

Það undirstrikar náin tengsl Schmidt og Jónasar Hagan að sá síðarnefndi skrifaði undir báða kaupsamninga sem kaupandi. Félagið Strendur ehf. var seljandi íbúðanna.

Kaupverðinu haldið leyndu

Hjá Sýslumanninum í Reykjavík fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að sjá kaupverð eignanna, enda kæmi kaupverðið ekki fram í viðaukum við kaupsamning. Það er ekki skylt að þinglýsa viðaukum og eru þeir því trúnaðargögn.

Slíkt er langt í frá einsdæmi en fasteignasali sem rætt var við sagði algengt að dýrustu einbýlishús væru ekki auglýst heldur væri líklegra kaupenda leitað í röðum efnafólks.

Móðir Jónasar býr í annarri efstu íbúðinni og var útbúinn hringstigi á milli 10. og 11. hæðar. Íbúðirnar eru annars eins konar orlofsíbúðir eigenda sem eiga aðalheimili í Genf.

Þeir félagar Schmidt og Jónas Sagan voru í hópi fjárfesta sem fengu í haust heimild frá Fjármálaeftirlitinu til að fara með virkan eignarhlut í Straumi fjárfestingarbanka. Jónas Hagan er forstjóri Taxfree Worldwide en Schmidt er stjórnarformaður Steinhaufen Holding ehf. Var félagið hluti af kaupendahópnum í Straumi.

Það félag er með sama heimilisfang og Principal Holdings, félag Jónasar Hagan.