Að lokinni baráttu Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Páll Árnason fallast í faðma skömmu eftir að úrslitin voru kunngjörð í gærkvöldi.
Að lokinni baráttu Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Páll Árnason fallast í faðma skömmu eftir að úrslitin voru kunngjörð í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
Benedikt Bóas Benedikt@mbl.is Árni Páll Árnason sigraði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í gærkvöldi. Árni Páll hlaut 49,49% atkvæða eða 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 49,28% eða 240 atkvæði.

Benedikt Bóas

Benedikt@mbl.is

Árni Páll Árnason sigraði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í gærkvöldi. Árni Páll hlaut 49,49% atkvæða eða 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 49,28% eða 240 atkvæði. Munaði því aðeins einu atkvæði. Anna Pála Sverrisdóttir, sem ekki hafði boðið sig fram, fékk eitt atkvæði. Árni verður því áfram formaður Samfylkingarinnar. Fimm atkvæði voru auð.

„Þetta er ekki óskaniðurstaða,“ sagði Árni Páll eftir að úrslitin höfðu verið tilkynnt. „Ég þarf að vanda mig mjög vel í framhaldinu. Ég hef enga sérstaka gagnrýni heyrt á mín störf frá því að þetta mótframboð kom fram. Ég hef heyrt almenn orð en ég hef enga beina gagnrýni heyrt, hvað ég hefði átt að gera öðruvísi eða eitthvað slíkt. En ég tek auðvitað allri slíkri gagnrýni ef hún kemur fram.“

Sigríður Ingibjörg var hrærð yfir úrslitunum. „Ég er þeim þakklát sem ýttu á mig og það er augljóst að krafan um breytingar innan flokksins er mikil. Ég sé ekki annað en að við munum vinna öll saman að því og það er enginn óvinafögnuður í Samfylkingunni. Óvinurinn er hægristjórnin.“ Kristján Möller sagðist aldrei hafa kynnst öðru eins. „Ég var íþróttafulltrúi til margra ára og framkvæmdi skíðamót og annað slíkt. Ég hef oft séð menn sigra með einu sekúndubroti eða marki á síðustu stundu. En að sjá það gerast í formannskjöri í flokknum, það hefði ég aldrei getað ímyndað mér.“