Hjálmar Hafþór Sigurðsson fæddist 22. mars 1949. Hann lést 2. október 2014. Útför Hjálmars fór fram 18. október 2014.

„Hvað segirðu manni minn, þú ert bara kominn heim til telpnanna þinna?“ Svona heilsaði bóndinn í Hrauni mér þegar ég var að koma heim úr úthaldi í vegagerð eða í land af sjó. „Á ég ekki að hella upp á?“ Svo lagaði hann kaffið og við fórum yfir málin. Þær eru margar og góðar minningarnar úr eldhúsinu í Hrauni yfir rjúkandi kaffi en það var það fyrsta sem mér var boðið þegar ég fór að venja komur mínar þangað til að sverma fyrir heimasætunni. Það var engin lognmolla í kringum Hraunsbóndann, hann hafði sterka rödd sem tekið var eftir og heyrðist vel en á bak við hana var ekkert nema ljúfmennskan og góðvild. Hjálmar var einstaklega hress og léttlyndur, alltaf stutt í hlátur og grín. Það var orðið stutt í starfslok hjá honum og þá hefði hann haft allan þann tíma sem hann vildi til að njóta sín við það sem honum hefði líkað best, að vera á Hrauni með sínar skepnur og sitt bú. Ég held að hann tengdapabbi minn hafi verið bóndi í allri merkingu þess orðs, stýrt og stjórnað sínu búi af miklum rausnarskap. Hjálmar var mjög lifandi maður, fylgdist með ölllu og hafði skoðanir á öllu því sem var að gerast í kringum hann. Barnabörnin voru honum oft hugleikin, afahlutverkið fórst honum einstaklega vel úr hendi. Hvað er betra en að eiga afa og ömmur í sveit? Það stækkaði bara á honum brosið eftir því sem bættist í hópinn.

Það voru þung spor að bera þennan mann til grafar í haust, ég hefði viljað verða samferða honum svo miklu lengur en það sem hann skildi eftir er mér ómetanlegt. Dóttir og barnabarn, allar minningarnar úr Hrauni, allt í kringum rollurnar og þau störf sem þeim fylgdi og allar þær samverustundir sem ég átti með honum. Síðastliðinn vetur þegar við bjuggum í Reykjavík til þess að mennta okkur saknaði ég þess að geta ekki rennt fram í Hraun og drukkið með honum kaffi. Í haust komum við vestur og hjálpuðum til við haustverkin, ekki grunaði mig þá að ég væri að kveðja þennan mann í síðasta sinn.

Af hlaðinu í Hrauni er fallegt útsýni. Vébjarnarnúpurinn á vinstri hönd. Snæfjallaströndin og svo inn allt Djúpið. Arnarnesið læðist út í djúpið og þorpið teygir sig niður í fjöru undir hlíðinni. Frammi í dalnum er féð á beit. Þetta var hans konungsríki og honum virtist hvergi líða betur.

Hinn 22. mars hefði Hjálmar orðið 66 ára. Þegar heimilisfólkið á Hrauni átti afmæli eða aðrir merkisviðburðir gengu í garð var alltaf öll fjölskyldan komin saman til að gleðjast, þetta eru alltaf fagnaðarfundir.

Það besta við að kveðjast er að geta heilsast aftur seinna.

Orri Sverrisson.