Útvarpshúsið Miklar truflanir verða á útsendingum komi til verkfalls.
Útvarpshúsið Miklar truflanir verða á útsendingum komi til verkfalls. — Morgunblaðið/Ómar
Samtök atvinnulífsins hafa stefnt Rafiðnaðarsambandinu fyrir félagsdóm vegna verkfallsboðunar rafiðnaðarmanna sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Búist er við að málflutningur hefjist strax eftir helgina.

Samtök atvinnulífsins hafa stefnt Rafiðnaðarsambandinu fyrir félagsdóm vegna verkfallsboðunar rafiðnaðarmanna sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Búist er við að málflutningur hefjist strax eftir helgina.

Eins og fram hefur komið samþykkti mikill meirihluti félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu sem starfa sem tæknimenn hjá Ríkisútvarpinu boðun vinnustöðvunar sem á að hefjast kl. 6 að morgni næstkomandi fimmtudags og standa fram á mánudaginn 30. mars. Aftur er boðað til vinnustöðvunar 9.-13 apríl og ótímabundinnar vinnustöðvunar 23. apríl hafi samningar ekki tekist. Komi til verkfallsins falla allar útsendingar sjónvarpsins niður og útsendingar rásar eitt og tvö að hluta til.

SA krefjast þess að vinnustöðvunin verði dæmd ólögmæt af Félagsdómi. Að sögn Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, er með stefnunni til félagsdóms annars vegar verið að láta reyna á lögmæti boðunar verkfalls og fyrirkomulags atkvæðagreiðslunnar um vinnustöðvunina. Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sé það einstakra stéttarfélaga að taka ákvörðun um verkfall en ekki miðlægt af Rafiðnaðarsambandi Íslands sem sé samband stéttarfélaga. „Hins vegar teljum við að kröfugerðin sé fullkomlega óskýr enda hafa engar launakröfur verið lagðar fram af hálfu RSÍ.Þ.a.l. leiki vafi á hvort félaginu sé heimilt að boða til verkfalls á grundvelli óskýrrar kröfugerðar,“ segir Þorsteinn.