[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjárfestar hafa lagt fram kauptilboð í Setbergslandið á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Landið er vestur af Urriðaholti á eftirsóttum stað og er ljóst að kaupverðið hleypur á milljörðum króna.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestar hafa lagt fram kauptilboð í Setbergslandið á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Landið er vestur af Urriðaholti á eftirsóttum stað og er ljóst að kaupverðið hleypur á milljörðum króna.

Hömlur, dótturfélag Landsbankans, á byggingarlóðirnar og hafa fjárfestar lagt fram kauptilboð með fyrirvara um fjármögnun. Samkvæmt heimildum blaðsins úr byggingargeiranum er Franz Jazorski í fararbroddi þessara fjárfesta. Ekki náðist í Franz í gær.

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra í Garðabæ, í nóvember að einkaaðilar hefðu hugmyndir um að byggja allt að 630 íbúðaeiningar í Setbergslandinu. Áætlaði skipulagsdeild sveitarfélagsins að þar gætu búið um 2 þúsund manns.

Verktaki sem Morgunblaðið ræddi við áætlaði að lóðaverð í Setbergslandi yrði 5 milljónir króna á íbúð, eða svipað og í Urriðaholti.

Staðsetningin mjög góð

Samkvæmt því er verðmæti byggingarlóða á svæðinu 3,2 milljarðar króna. Annar heimildamaður í byggingargeiranum taldi það verulega vanáætlað.

Hér til hliðar má sjá deiliskipulagstillögu sem bar sigur úr býtum í samkeppni um skipulag svæðisins árið 2006. Þetta er því ekki samþykkt skipulag og gæti byggðin því tekið breytingum.

Hannes F. Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Hömlum, segir nokkra aðila hafa sýnt svæðinu áhuga. Það komi ekki á óvart enda sé staðsetningin mjög góð.

Hann segir tímasetninguna ágæta. Byrjað sé að byggja skóla í Urriðaholti sem muni nýtast fyrir nemendur í Setbergslandi.

Eins og kortið hér á síðunni sýnir markast svæðið af Reykjanesbraut, Urriðakotsvatni, Elliðavatnsvegi og Setbergshverfinu í Hafnarfirði. Það liggur vel við samgöngum og stutt er í þjónustu.

Óvíst um golfvöllinn

Golfklúbburinn Setberg er með aðstöðu á svæðinu og er óvíst hvort völlurinn mun víkja. Norður af Setbergslandinu er íþróttasvæði Kaplakrika. „Við höfum unnið með þá hugmynd að golfvöllurinn fengi að halda sér við vatnið og hraunjaðarinn. Það yrði þá 9 holu völlur. Það er hins vegar ekki ljóst hvaða hugmyndir nýir fjárfestar hafa,“ segir Hannes um framtíð vallarins.

Lagt var til í deiliskipulaginu 2006 að Urriðavatn, hrauntanginn og votlendið umhverfis vatnið verði friðlýst sem friðland.

Fasteignasali sem Morgunblaðið ræddi við sagði Setbergslandið eitt fárra byggingarsvæða sem eftir væru í Garðabæ. Með hliðsjón af nálægum hverfum væri viðbúið að hverfið yrði í dýrari kantinum.