Veiðar Gamla Hoffell SU-802 í sjóroki á loðnumiðunum vestur af landinu. Heimaey VE-1 er að kasta fjær.
Veiðar Gamla Hoffell SU-802 í sjóroki á loðnumiðunum vestur af landinu. Heimaey VE-1 er að kasta fjær. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Það hefur enginn verið að gera neitt í dag. Ætli þetta sé ekki að verða búið? Það er orðið lokalegt,“ sagði Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Jónu Eðvalds SF-200, í gær.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það hefur enginn verið að gera neitt í dag. Ætli þetta sé ekki að verða búið? Það er orðið lokalegt,“ sagði Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Jónu Eðvalds SF-200, í gær. Skipið var þá við leit á loðnumiðunum við Snæfellsnes.

Bátarnir hafa verið að finna loðnu á smáblettum undanfarna daga. Í fyrradag var ágætis veiði á bleðli út af Malarrifi. Ekkert var að sjá þar eða annars staðar í gær. Útgerðirnar eru langt komnar með kvótann en hann er þó ekki alveg þurrausinn og því halda þeir áfram að leita á meðan nokkur von er. „Maður þarf að vera á réttum stað á réttum tíma. Það getur komið einn og einn dagur þar sem eitthvað sést,“ sagði Kristinn Snæbjörnsson, stýrimaður á Beiti NK-123. Hann fékk afla undan Malarrifi í fyrradag og var að sigla til Helguvíkur til löndunar þegar rætt var við hann um hádegisbil í gær.

Furðanlega ræst úr vertíðinni

Afli Beitis var 1.400-1.500 tonn og taldi Kristinn að það væri hrognaloðna. Hann sagði að það yrði að koma í ljós hvort ennþá væri verið að taka hrogn í Helguvík.

Kristinn taldi að loðnan væri byrjuð að hrygna. Þá fer hún upp á grynningar en svo komi eitthvað upp annað slagið. Þá þurfi að nýta tækifærið.

Furðanlega hefur ræst úr loðnuvertíðinni, miðað við hvernig göngurnar voru og hvernig veðrið lét. „Þetta er fín vertíð. Það hefur ræst vel úr henni miðað við hvernig útlitið var á tímabili. Við erum sáttir,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Loðnan var dreifð út af Norðurlandi framan af vertíðinni og ekki var hægt að ganga að hefðbundnum göngum austur og suður fyrir landið. Þá hefur veðrið verið óhagstætt. Góð veiði í mars hefur bjargað vertíðinni þótt veður hafi áfram verið slæm. Sjómenn telja að það hafi verið vestanganga suður með Vestfjörðum og inn á Breiðafjörð og Faxaflóa sem gaf þeim það sem á vantaði.

Jón Már segir að ágætlega hafi gengið að koma afurðunum í verð.

Huga að kolmunnaveiðum

Meginhluti flotans er enn að huga að loðnunni. Útgerðirnar eru þó að útbúa fyrstu skipin á kolmunnaveiðar í hafinu suður af Færeyjum. Börkur, skip Síldarvinnslunnar, er eitt þeirra. Hann hefur lokið loðnuveiðum og fer á kolmunna.