Niðurstaðan gat ekki orðið verri fyrir Samfylkinguna

Skyndiáhlaup Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, gegn Árna Páli Árnasyni, formanni flokksins, heppnaðist næstum því. Árni Páll fékk aðeins einu atkvæði meira en Sigríður Ingibjörg og innan við helming heildaratkvæða. Niðurstaða í formannskjöri Samfylkingarinnar er með öðrum orðum sú að formaðurinn situr áfram með minnihluta að baki, aðeins 241 atkvæði.

„Sigurræða“ Árna Páls bar þess greinileg merki hve veik niðurstaða þetta er fyrir formann og flokk og líktist mun frekar ræðu þess sem hefur beðið ósigur en ræðu sigurvegara. Formaðurinn var bersýnilega sleginn og skyldi engan undra.

En niðurstaðan var ekki aðeins veik fyrir flokkinn vegna þess hve lítinn stuðning formaðurinn fékk þrátt fyrir veikan mótframbjóðanda. Hún sýnir líka hve fáir eru áhugasamir um starf Samfylkingarinnar, sem flokksmenn hafa gert sér vonir um að yrði stór og öflugur flokkur. Innan við fimm hundruð sóttu landsfundinn þó að fyrir lægi að kosið yrði um formann og spennan væri mikil.

Samfylkingin hefur með einsmálsstefnu sinni einangrað sig og veikt langt umfram það sem eðlilegt væri um flokk sem kallar sig jafnaðarmannaflokk og sækist eftir að verða leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Samfylkingin þráast enn við í málinu eina og óhjákvæmilegt er eftir niðurstöðu formannskjörsins að flokkurinn gangi enn veikari af landsfundi en hann var áður en til fundar var haldið.