Síðasta gáta var að venju eftir Guðmund Arnfinnsson: Hennar um strengi er strokið Þá stórveðrahrinum er lokið. Börn hana í fjöru við fundum. Ferhendu gerir hún stundum. Og lausn hans: Hörpu um strengi er strokið. Stillast á hörpu fer rokið.

Síðasta gáta var að venju eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hennar um strengi er strokið

Þá stórveðrahrinum er lokið.

Börn hana í fjöru við fundum.

Ferhendu gerir hún stundum.

Og lausn hans:

Hörpu um strengi er strokið.

Stillast á hörpu fer rokið.

Hörpu í fjöru við fundum.

Til ferskeytlu Harpa býr stundum.

Hann lætur limru fylgja;

Hugfanginn hlusta ég lengi,

– held ég það enginn rengi –

á hljómana þá,

sem heyra má,

er Harpa knýr hörpustrengi

Og bætir síðan við: „Þemað hjá mér að þessu sinni er harpa, ýmist var talið að veður versnaði eða batnaði með komu hörpu og gef ég mér í þessari gátu, að þá muni tíð batna.

Þessi er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Það hljóðfæri er harpa

og Harpa vorið ber.

Þá hörpuskelin skarpa,

svo skírnarnafn mitt er.

Engilráð M. Sigurðardóttir, Sauðárkróki, svarar:

Hörpunnar hljóma þú nýtur.

Á Hörpu grænkar um velli.

Hörpudisk brimið oft brýtur.

Bóndinn á Hjarðarfelli.

Ráðning Helga R. Einarssonar:

Harpa syngur hörpuljóð,

hörpudiskar finnast.

Harpa á Felli er harla góð,

því hinir og þessir kynnast.

Árni Blöndal:

Heimir strauk um hörpustrengi,

Harpa færir vor í varpa.

Að Hörpudiskum lékum lengi,

lausn á gátum sendir Harpa

Guðrún Bjarnadóttir:

Vísnanna hornið má varpa

vitinu fornu og skörpu

í prentvélar gróinna garpa.

Gátuskel þar faldi hörpu.

Í lokin er að venju ný gáta eftir Guðmund Arnfinnsson:

Töðugresi grænt er hún.

Getur verið slegið tún.

Austanlands það svæði sá.

Sú er öllum hestum á.

Fleiri lausnir bárust en rúm er til að birta.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is