Þuríður Berglind Ægisdóttir
Þuríður Berglind Ægisdóttir
Eftir Þuríði Berglindi Ægisdóttur: "Þrátt fyrir að aðeins eitt mál hafi farið fyrir dómstóla hér á landi eru öll teikn á lofti um að hér á landi þrífist mansal."

Hinn 25. mars 2001 varð Ísland þátttakandi í Schengen-samstarfinu með fjórtán öðrum Evrópuríkjum. Samstarf þetta varð til þess að persónueftirlit á landamærum ríkjanna var lagt niður þeirra á milli nema undir sérstökum kringumstæðum. Á móti tóku yfirvöld aðildarríkjanna upp lögreglusamvinnu og aðgang að gagnabönkum er umrædd ríki komu sér upp. Á þeim árum sem liðin eru frá upphafi samstarfsins hefur ríkjum þess fjölgað mjög og eru nú orðin 28 talsins. Ekki er hægt að neita því að frá upphafi samstarfsins hefur samstarfið tekið breytingum með fjölgun ríkja þess en ekki síst hefur hið alþjóðlega umhverfi sem við búum við tekið breytingum.

Þróun alþjóðavæðingar er á þá leið að evrópsk landamæri eru að mást út, kostnaður vegna ferðalaga milli ríkjanna hefur farið lækkandi og samskipti fólks milli landa eru bæði einföld, auðveld og fljótleg. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að horfa til þess hvernig skipulögð glæpasamtök starfa á alþjóðavísu og hvernig þróun þessara samtaka hefur orðið. Þeir brotaflokkar sem alþjóðleg glæpasamtök koma að eru margvíslegir, má þar nefna fíkniefnasmygl, vændi, mansal og fleira. Ef litið er á mansal þá er um ábatasama skipulagða glæpastarfsemi að ræða sem er þekkt fyrirbæri um allan heim. Eitt slíkt mál hefur komið fyrir dómstóla hér á landi sem leiddi til þess að fjórir einstaklingar voru sakfelldir í hæstarétti árið 2009. Þrátt fyrir að aðeins eitt mál hafi farið fyrir dómstóla hér á landi eru öll teikn á lofti um að hér á landi þrífist mansal.

Nú er talið að ein stærsta ógn sem lögregluyfirvöld standa frammi fyrir í dag séu netglæpir. Nauðsynlegt er að byggja lagaramma um netglæpi eða aðra alþjóðlega glæpastarfsemi og mikilvægt að yfirvöld sjái til þess að lögreglan hafi nothæf verkfæri til að berjast gegn slíkri starfsemi. Samstarf við önnur ríki er einmitt einn af þessum mikilvægu þáttum eða verkfærum. Sjálfsagt munu einhverjir benda á að íslensk lögregluyfirvöld hafi bæði aðgang að Europol og Interpol og að það samstarf ætti að duga. Í ljósi þeirra atburða er urðu í Frakklandi fyrir stuttu og þróunar alþjóðlegra glæpasamtaka sem sífellt leitast við að fara nýjar leiðir í brotastarfsemi sinni hljóta stjórnvöld að sjá sér hag í því að taka þátt í því alþjóðlega samstarfi sem hún hefur kost á. Það þýðir samt ekki að stjórnvöld sofi yfir þeim breytingum sem verða á því samstarfi sem þau eru aðilar að. Schengen-samstarfið hefur tekið breytingum frá stofnun þess og því er mikilvægt að stjórnvöld átti sig á mikilvægi og notagildi samstarfsins fyrir lögreglu hverju sinni og reyni að átta sig á hver þróun samstarfsins er. T.d. hvernig ytri landamæri breytast, hvernig aðildarríki sinna ytri landamærum sínum og hver er þróun þeirra gagnabanka sem starfræktir eru innan samstarfsins. Í raun vega og meta kosti og galla samstarfsins og leggja mat á það hvort það hagnist okkur að vera innan þess.

Alþjóðlegir glæpir eru staðreynd hér á landi og hafa verið lengi. Það fellur að sjálfsögðu í hlut yfirvalda að sjá til þess að þær stofnanir sem koma að því að berjast gegn þeirri vá sem alþjóðlegir glæpir eru hafi verkfæri til baráttunar, Schengen-samstarfið er einmitt eitt af þeim verkfærum. Sú þróun sem orðið hefur á starfsemi alþjóðlegra glæpasamtaka kallar á alþjóðlegt samstarf, í ljósi þess er ekki heillavænlegt fyrir íslenskt samfélag að hverfa frá Schengen-samstarfinu.

Alþjóðleg glæpasamtök virða engin landamæri, þau eru engin hindrun í starfsemi þeirra, þess vegna er nauðsynlegt fyrir íslensk yfirvöld að sjá til þess að lögreglan og þær stofnanir er vinna gegn glæpum hafi aðgang að allri mögulegri samvinnu sem völ er á.

Höfundur er með MA í alþjóðasamskiptum, starfar hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.