Skautað Guðmundur Þorsteinsson úr SR með hinn þrautreynda Jón Benedikt Gíslason úr SA á hælunum.
Skautað Guðmundur Þorsteinsson úr SR með hinn þrautreynda Jón Benedikt Gíslason úr SA á hælunum. — Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akureyri Einar Sigtryggsson sport@mbl.is Fjórði leikur SA og SR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí fór fram á Akureyri í gær.

Á Akureyri

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Fjórði leikur SA og SR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí fór fram á Akureyri í gær. Það voru heimamenn í SA sem unnu 4:1 og má segja að leikurinn hafi verið keimlíkur leik liðanna í fyrrakvöld en þá vann SA 3:1.

Akureyringar standa nú vel að vígi með þrjá sigra gegn einum en fjóra sigra þarf til að vinna einvígið. Næsti leikur verður á mánudagskvöld og verður leikið í Skautahöllinni í Laugardal. Þar geta leikmenn SA klárað dæmið en nokkuð öruggt má telja að SR leggi þar allt í sölurnar. Liðin léku sex leiki á Íslandsmótinu í vetur og vann SA þrjá fyrstu leikina en SR vann hina þrjá. Í úrslitaeinvíginu hafa Akureyringar verið ívið sterkari en markatalan eftir leikina fjóra sem búnir eru er 15:6.

Fyrir leik endurheimtu SR-ingar Tékkann Miroslav Racansky en hann gat ekki leikið á fimmtudaginn sökum veikinda. Munar heldur betur um hann enda er Miroslav markahæsti leikmaður þeirra í vetur. Má segja að SA hafi einnig endurheimt leikmann þar sem fyrirliðinn Jóhann Már Leifsson spilaði aðeins 13 mínútur á fimmtudag.

Leikurinn var jafn fyrstu tvo leikhlutana og var staðan 1:1 fyrir lokasprettinn. Í þriðja leikhlutanum voru það heimamenn í SA sem voru mun skæðari og tókst þeim að setja pökkinn þrisvar í netið áður en yfir lauk.

Það á ekki af SR-liðinu að ganga í þessu einvígi. Áður var minnst á veikindi Miroslavs Racanskys. Í fyrradag þurfti Daníel S. Magnússon að hætta leik vegna höfuðhöggs og í gær var Robbie Sigurðsson fluttur af ísnum á sjúkrabörum. Vonandi verða allir þessir menn með í næsta leik.