Lög Nefndin leggur til að Már gegni áfram stöðu seðlabankastjóra.
Lög Nefndin leggur til að Már gegni áfram stöðu seðlabankastjóra.
Nefnd um heildarendurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands leggur til að tekin verði upp þriggja manna bankastjórn þar sem seðlabankastjóri er fremstur á meðal jafningja.

Nefnd um heildarendurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands leggur til að tekin verði upp þriggja manna bankastjórn þar sem seðlabankastjóri er fremstur á meðal jafningja. Gerir nefndin að tillögu sinni að í stað núverandi aðstoðarseðlabankastjóra komi tveir bankastjórar. Þeir taki sæti í bankastjórn ásamt seðlabankstjóra sem verði formaður bankastjórnar, leiði starfsemi bankans, sé talsmaður hans og komi fram fyrir hönd bankastjórnar. Vísar nefndin sérstaklega til stjórnskipunar Englandsbanka sem fyrirmyndar um þetta fyrirkomulag.

Tillögur nefndarinnar myndu leiða til þeirrar breytingar á skipun peningastefnunefndar að auk tveggja utanaðkomandi peningamálasérfræðinga tæki öll þriggja manna bankastjórnin þar sæti, í stað aðstoðarbankastjóra og aðalhagfræðings.

Í skilabréfi nefndarinnar er lagt til að núverandi seðlabankstjóra verði boðið að gegna embætti formanns bankastjórnar og seðlabankastjóra í nýrri stjórnskipan út skipunartíma sinn, þar sem í tillögunum felist fremur breyting á núverandi embætti en að það sé lagt niður og nýtt embætti sett á fót. Hins vegar megi líta svo á að staða aðstoðarseðlabankastjóra verði lögð niður í nýju skipulagi.

Nefndin var skipuð þeim Ólöfu Nordal, Þráni Eggertssyni og Friðriki Má Baldurssyni. Vegna fjarvista á starfstíma nefndarinnar stendur Ólöf ekki að skilabréfinu og er tekið fram að hún taki ekki afstöðu varðandi bráðabirgðaákvæði um stöðu núverandi stjórnenda í ljósi stöðu sinnar sem ráðherra.