Stuðningur Úrslitakeppni heillar meira en venjulegur deildarleikur.
Stuðningur Úrslitakeppni heillar meira en venjulegur deildarleikur. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stemning Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Nú er hann loks runninn upp. Þessi ljúfi árlegi tími á milli verstu lægðanna og frétta af miklum sigurlíkum Íslendinga í Eurovision.

Stemning

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Nú er hann loks runninn upp. Þessi ljúfi árlegi tími á milli verstu lægðanna og frétta af miklum sigurlíkum Íslendinga í Eurovision. Tíminn þar sem úrslitakeppnirnar í körfu- og handbolta eiga sviðið, þar sem spennan nær hámarki og loks skilur á milli feigs og ófeigs eftir langt og strangt tímabil, hugsanlega ekki fyrr en á síðustu sekúndu.

Fólk tekur við sér á þessum tíma. Menn fjölmenna í íþróttahallirnar til að styðja sitt lið í átt til verðlauna. Stemningin sem myndast gerir leikmenn betri og leikinn enn skemmtilegri. Allt í einu kemur í ljós að hin ýmsu félög reynast eiga þéttan kjarna litríkra stuðningsmanna sem berja trumbur og syngja söngva, og þrýsta sínu liði skrefi lengra en ella.

Þetta er mikill gleðitími og ég vona innilega að við fáum viðlíka dramatík og við fengum í úrslitakeppninni í handbolta karla síðasta vor (sem er nú samt eiginlega ekki hægt að fara fram á), eða í úrslitakeppninni í körfunni 2009 þegar enginn Grindvíkingur vildi taka sigurskotið gegn KR.

En væri ekki hægt að lengja þennan gleðitíma? Áhuginn á deildarleikjum virðist stundum sláandi mikið minni en áhuginn á leikjum í úrslitakeppninni. Þetta sést best á áhorfendatölum. Reyndar hefur alltaf verið erfitt að fá nákvæmar áhorfendatölur hér á landi. Í körfuboltanum hættu menn að reyna, og í handboltanum er augljóst að víða er „slumpað“ á fjölda fólks sem mætt hefur á pallana. Þetta breytir því ekki að það er alveg ljóst að munurinn er mikill á fjölda þeirra sem mæta á deildarleiki og þeirra sem mæta á leiki í úrslitakeppni.

Elta sigurljómann

Er það þá bara titilspennan sem fólk sækist í, ekki góður handbolta- eða körfuboltaleikur? Er það einfaldlega lyktin af verðlaunum sem verður nógu sterk til að fólk fari úr húsi og sjái leik hjá sínum mönnum? Í Englandi er talað um „gloryhunters“ í þessu sambandi og það virðist vera nóg af slíkum hér á landi, hjá hvaða félagi sem er. (Gott dæmi um hve margir slíkir byggja þetta land er reyndar sú staðreynd að ekki skyldi vera uppselt á landsleikinn við Tyrkland í knattspyrnu karla síðasta haust, eftir að svo margir höfðu grátið yfir nætursölunni á miðum á umspilsleikinn við Króatíu í síðustu keppni. Hvað var málið með það?)

Eflaust hafa margir, víða um heim, velt því fyrir sér hvernig hægt sé að gera hina hefðbundnu deildarkeppni meira spennandi allan veturinn. Ég er ekki með neinar töfralausnir en ég held samt að það þurfi ekki endilega mikið til. Bara aðeins meiri „umgjörð“, eins og þetta er kallað; grillmat, skemmtiatriði í hléum, tengingu á milli leikmanna og áhorfenda, einhvers konar miðahappdrætti, að sérstaklega vel sé gert við þéttasta stuðningsmannakjarnann, og fleira og fleira. Kannski fylgja því mikil átök að reyna að skapa meiri stemningu á leikjum vetrarins, en ég held samt ekki.

Sumir standa sig betur en aðrir

Ég var í Austurbergi um daginn þegar ÍR-ingar settu aukametnað í heimaleik sinn við Stjörnuna í Olís-deildinni. Það skilaði 70% fleiri áhorfendum en á nokkrum heimaleik þeirra í vetur. Það að viðhalda þessum metnaði er hins vegar þrautin þyngri. Samt tekst það hjá sumum félögum. Hjá Akureyri og FH í handboltanum, og Skallagrími og KR í körfuboltanum, er til dæmis alla jafna vel mætt á heimaleiki, jafnvel þó að fyrir utan KR hafi ekkert þessara liða verið í neinni titilbaráttu í vetur. Árangur hefur alltaf áhrif en það spilar margt fleira inn í og víða er ástæða til þess að menn reyni að átta sig á því hvað geri gæfumuninn hjá fyrrnefndum félögum.