Mér finnst alltof margir gera ráð fyrir því að það sé einfalt skylduverkefni sem bíður karlalandsliðsins í knattspyrnu í Astana, höfuðborg Kasakstan, eftir eina viku.
Mér finnst alltof margir gera ráð fyrir því að það sé einfalt skylduverkefni sem bíður karlalandsliðsins í knattspyrnu í Astana, höfuðborg Kasakstan, eftir eina viku. Þá verður tekinn upp þráðurinn á ný í undankeppni Evrópumótsins og þrjú afar dýrmæt stig eru í húfi fyrir lið Íslands sem byrjaði sérlega vel í keppninni í haust.

Lið Kasakstan er með eitt stig eftir fjóra leiki, tapaði fyrir Hollandi, Tékklandi og Tyrklandi, öllum með tveggja marka mun, en gerði jafntefli við Letta. Kasakarnir voru hinsvegar langt frá því að vera auðveld bráð og Hollendingar komust t.d. ekki í 2:1 gegn þeim í Amsterdam fyrr en átta mínútur voru til leiksloka.

Nær allir leikmenn Kasakstan spila í heimalandinu og það hefur þótt merki um að gæðin séu ekki mikil í liðinu. Þess ber hinsvegar að geta að deildin í Kasakstan er nokkuð sterk, með fjölda erlendra leikmanna, og þar eru talsverðir peningar í gangi.

Minna má á að bæði FH og Breiðablik hafa verið slegin út af liði frá Kasakstan í Evrópukeppni á síðustu árum. Íslenska 21-árs landsliðið tapaði í Astana á síðasta ári, einmitt á sama glæsilega og yfirbyggða leikvanginum og A-landsliðið spilar á 28. mars.

Þó íslenska landsliðið sé í dag líkast til það sterkasta sem við höfum átt hefur það ekki leyfi til að vanmeta einn einasta andstæðing. Sennilega eru það líka óþarfa áhyggjur í mér. Kollegar mínír og aðrir áhugamenn virðast vissir um sigur á steppunum þarna austur í Asíu. Ég geri hinsvegar ráð fyrir því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson gæti þess sérstaklega vel að þeirra menn stígi inn á Astana-leikvanginn með hárrétt hugarfar í farteskinu. Þeir eru fagmenn.