Forstöðumaður Hafliði Halldórsson ræður ríkjum í Vesturbæjarlaug.
Forstöðumaður Hafliði Halldórsson ræður ríkjum í Vesturbæjarlaug. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Endurbætur með nýju útisvæði með heitum pottum og endurgerð búningsklefa er meginskýring á mikilli fjölgun gesta í Vesturbæjarlaug á síðasta ári.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Endurbætur með nýju útisvæði með heitum pottum og endurgerð búningsklefa er meginskýring á mikilli fjölgun gesta í Vesturbæjarlaug á síðasta ári. Rétt um 273 þúsund gestir fóru í sund í Vesturbænum í fyrra en tæplega 237 þúsund árið á undan, 2013. Þetta er fjölgun um 36 þúsund manns, eða í kringum 13%

„Betri aðstaða útskýrir margt. Einnig höfum við hér á bæ verið svo heppin að ná tengingu við alþjóðlega listviðburði eins og RIFF og Iceland Airwaves. Það hefur ratað í fjölmiðla og sú kynning skilar sér,“ segir Hafliði Halldórsson, forstöðumaður í Vesturbæ.

Hátt skor í janúar og febrúar

Fjölgun sundlaugargesta nær ekki einvörðungu til Vesturbæjarins, fólki sem sækir t.d. Breiðholtslaug og Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg fjölgaði lítillega í fyrra frá árinu áður. Yfir lengri tíma kemur Laugardalslaugin mjög sterk inn. Gestir þar voru árið 2008 604.855 en voru 784.470 árið 2012. Aukningin er 23%. Árið 2013 fór gestafjöldinn niður í 637.708 meðal annars vegna rasks vegna framkvæmda – auk þess sem talning gesta fór í handaskolum. Fólki fjölgaði svo strax 2014, en þá voru gestir um 704 þúsund. Að hún hafi ekki náð hærra er sagt helgast af leiðinlegri tíð nánast allt sumarið í fyrra.

Hvað Vesturbæjarlaug áhrærir þá voru gestir þar nú í janúar og febrúar í kringum 22 þúsund í hvorum mánuði, borið saman við um 15 þúsund manns á sama tímabili í fyrra. Tölurnar eru því allar upp á við.

„Veðrið ræður miklu. Í Reykjavík hefur ekki komið sólríkt sumar síðan 2012 og því hefur aðsóknin ekki verið jafn mikil og gera mætti ráð fyrir,“ segir Hafliði. Bætir við að fólki sem taki sundið sem stífa líkamsrækt fjölgi jafn og þétt.

Fjórir synda á hverri braut

„Snemma á morgnana eru á brautunum fimm hér í Vesturbæjarlaug stundum þrír til fjórir á hverri þeirra; fólk sem syndir kannski 1.000 metra og slær ekki af. Þá nýta hlaupahópar í vaxandi mæli aðstöðu í endurbættum útiklefunum hér og það fólk er inni í gestatölunni hér,“ segir Hafliði.

Hvað viðvíkur öðrum sundlaugum í borginni, til dæmis í Grafarvogi og Árbæ, hefur gestum þar fækkað. Það helgast, að sögn Hafliða, meðal annars af því að laugarnar þar eru í samkeppni t.d. við Salalaug í Kópavogi og Lágafellslaug, þar sem eru leiktæki og góð aðstaða sem höfðar til fjölskyldufólks – sem finnst góð dægradvöl að skreppa í sund.