Bílar Enginn þeirra sem hér sjást er sjálfakandi, en hugsanlega er ekki langt í að slíkir bílar aki hér um götur.
Bílar Enginn þeirra sem hér sjást er sjálfakandi, en hugsanlega er ekki langt í að slíkir bílar aki hér um götur. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is „Það er ekki spurning um hvort við förum að sjá þessa bíla á götunum hérna, heldur hvenær.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

„Það er ekki spurning um hvort við förum að sjá þessa bíla á götunum hérna, heldur hvenær. Þessi tækni er komin miklu lengra en flesta grunar, margir nýir bílar eru nú þegar búnir miklu af þeim búnaði sem þarf fyrir sjálfakandi bíla,“ segir Sverrir Bollason, skipulagsverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf, sem er að hefja rannsókn á hvernig aðstæður hér á landi henta til notkunar sjálfakandi bíla. Markmiðið er að kanna hvað þurfi til að slíkir bílar geti ratað um hér á landi og hvort aðstæður hér komi í veg fyrir að svo geti verið. Einnig hyggst Sverrir rannsaka hvar bílar af þessu tagi eru notaðir og hvernig og hvaða ráðstafanir hefur þurft að gera.

Skynjari les í umhverfið

Í stuttu máli eru sjálfakandi bílar þannig gerðir að þeir eru búnir safni mismunandi skynjara sem lesa í umhverfið, senda upplýsingarnar til tölvu sem á grundvelli þeirra tekur ákvarðanir um hvernig bíllinn á að keyra, t.d. hraða, stefnu eða gefa frá sér einhvers konar merki. Að sögn Sverris hefur undanfarin ár orðið mikil þróun í skynjurum og ýmsum búnaði í bílum og sjálfakandi bíllinn – sem ekki fyrir svo löngu þótti fjarlæg framtíðarsýn – því ekki svo langt undan. „Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir með sjálfakandi bíla og í ár verða þær gerðar í fjórum borgum í Bretlandi. Þær eru á vegum bresku ríkisstjórnarinnar sem ætlar að verja til þeirra um 20 milljónum punda. Google hefur verið mjög framarlega á þessu sviði og mörg ríki í Bandaríkjunum hafa lögleitt sjálfakandi umferð að hluta,“ segir Sverrir. Þá ætlar sænski bílaframleiðandinn Volvo að gera tilraunir á þessu sviði í Gautaborg og mun í því skyni útbúa 100 sjálfakandi bíla.

Margvíslegur ávinningur

Hver er ávinningurinn og hvers vegna ætti einhvern að langa í sjálfakandi bíl?

„Sú spurning sem ég er að fást við er hvernig við ætlum að takast á við þessa tækni þegar hún verður fáanleg. Ávinningurinn er margvíslegur, bætt umferðaröryggi er líklega helsti kosturinn, en flest slys verða vegna mannlegra mistaka, t.d. skertrar meðvitundar eða skorts á dómgreind. Tölvur eiga ekki við þann vanda að etja. Þetta er bílstjóri sem aldrei sofnar og hefur augu allan hringinn.Annar mikilvægur kostur er að fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki ekið bíl væri þarna komið með hreyfanleika.“

Þeir sjálfakandi bílar sem núna er verið að prófa eru stillanlegir á þann hátt að þeir geta ýmist verið að fullu sjálfakandi, að hluta til eða alfarið undir stjórn ökumanns. „Ég held að það sé líklegt að notkunin verði blönduð til að byrja með þegar þessir bílar koma á markað,“ segir Sverrir. „Það er í sjálfu sér ekki eins stórt skref og margir gætu haldið, því það er talsvert af snjallbúnaði og öryggisbúnaði í nýjum bílum sem hjálpar okkur við að taka betri ákvarðanir, sumt af þessum búnaði tekur þær fyrir okkur og er jafnvel sneggri að því en við sjálf.“

Skoðar götur og kort

Í rannsókn sinni mun Sverrir skoða yfirborðsmerkingar gatna og skilti sem þessi tækni getur lesið. Einnig hvort þeir kortagrunnar sem tæknin styðst við séu til hér á landi. Þá þarf einnig að skoða umferðarlög og -reglur. Á grundvelli þessa er síðan metið hvort miklar breytingar þurfi að gera á umferðarmannvirkjum svo hægt verði að taka við umferð sjálfakandi bíla.

Rannsókn Sverris er styrkt af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og henni mun ljúka í sumar. „Útkoman verður líklega listi yfir það sem þarf að skoða betur. Ég geri ráð fyrir að halda áfram og kafa betur ofan í hvernig á að breyta hverju.“

Hefurðu ferðast með sjálfakandi bíl? „Nei, ekki enn. En það verður vonandi innan tíðar.“