[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska er fögur tunga og merkileg. Segjum það bara fullum fetum. Kinnroðalaust. Enda ekkert eðlilegra og sjálfsagðara en að Íslendingum þyki íslenska fegursta og merkilegasta tungumál í heimi.

Íslenska er fögur tunga og merkileg. Segjum það bara fullum fetum. Kinnroðalaust. Enda ekkert eðlilegra og sjálfsagðara en að Íslendingum þyki íslenska fegursta og merkilegasta tungumál í heimi. Við megum halda því fram hvar og hvenær sem er ef við viljum. Okkur ber þó auðvitað engin skylda til þess, sumum Íslendingum kann til dæmis að þykja latína, volapük eða danska fegurri og til þess hafa þeir líka fullt leyfi og mega láta þess getið í ræðu og riti við hvert tækifæri.

En ber það ekki vott um svívirðilega málrembu að mæra svo móðurmál sitt? Nei, ekki er það málremba heldur ást. Remban hefst þá fyrst þegar við látum á okkur skilja um leið að öll önnur tungumál séu miklu ljótari og ómerkilegri. Þannig er reyndar mörgum Íslendingum tamt að tala um hin Norðurlandamálin.

Sönn og fölskvalaus ást birtist ekki með þessum hætti. Hún hlúir að sínu án þess að lasta um leið annað. Ef ég segist elska konu mína og börn og dá þau meira en aðra er ég að sjálfsögðu ekki með því að kasta rýrð á maka og afkomendur annarra. Ætti það ekki að vera ljóst?

En ekkert tungumál er fullkomið. Við neyðumst því til að viðurkenna að ljótasta orð í heimi er íslenskt. Það er leitt, en sá er vinur er til vamms segir. Hér á ég að sjálfsögðu við merkingarlausa hikorðið „hérna“. Framburðurinn er „héddna“ og „hjaddna“ eða jafnvel eitthvað enn ljótara.

Þetta hryllingsorð breiðist ört út og hefur nú þegar náð að verða umtalsverður hluti þess orðaforða sem margur viðmælandi fjölmiðla býr yfir. Allt að 40 prósentum hjá sumum, það hef ég sannreynt með mælingum. Af einhverri sjálfspíningarhvöt er mér nefnilega þannig farið að jafnan þegar hérnisti tekur til máls í útvarpi eða sjónvarpi dreg ég fram blað og blýant og hef talningu. Tek þá aldrei neitt eftir því hvað viðkomandi er að segja að öðru leyti en heyri bara: „Héddna, héddna, héddna, héddna, héddna.“

Hér kemur tillaga sem byggist reyndar á frábærri hugmynd Jónasar Jónssonar frá Hriflu um kvikmyndun drykkjuláta, sbr. þingsályktunartillögu sem hann flutti á Alþingi í nóvember 1946: Hvernig væri að Ríkisútvarpið tæki það upp sem þjónustu við viðmælendur sína, og um leið sem þarft átak í þágu tungunnar, að pilla út úr hljóðritum öll „héddnin“ í máli verstu hérnistanna. Raða þeim síðan upp í eina langa kjóru og senda mælendum á diski eða í stiku svo þeir geti hlýtt litverpir í einrúmi á það sem þeir höfðu helst fram að færa á öldum ljósvakans: „Héddna, héddna, héddna, héddna.“ Og vonandi eftir það bætt ráð sitt og mál sitt. Ef til vill mætti líka velja hérnista vikunnar og birta nafn hans á heimasíðu RÚV ásamt sýnishornum.

Þessum hugmyndum er hér með komið á framfæri við forráðamenn Ríkisútvarpsins og ráðlegg ég þeim að bregðast hratt við og gera þær að sínum áður en einkastöðvarnar stökkva á þær.

Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net