[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðunum á almenna vinnumarkaðinum og er talið ósennilegt að hreyfing komist á viðræður fyrir páska.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðunum á almenna vinnumarkaðinum og er talið ósennilegt að hreyfing komist á viðræður fyrir páska. Atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins fer í gang eftir helgina um umfangsmiklar verkfallsaðgerðir, sem eiga að hefjast frá og með 10. apríl. Tíu dagar eru liðnir frá því að viðræðum SGS við Samtök atvinnulífsins var slitið. Ríkissáttasemjari hefur boðað deilendur til sáttafundar næstkomandi þriðjudag þó sáttaumleitanir hafi engan árangur borið, þar sem sáttasemjara ber að gera tilraun til sátta með aðilum innan 14 sólarhringa frá því síðustu samningatilraunum var hætt.

Samtök atvinnulífsins lögðu í vikunni fram hugmyndir um nýjar leiðir sem fara mætti í kjarasamningum, sem miða að því að stokka upp áratugagömul launakerfi. Fyrirmyndin er sótt til Norðurlandanna og leggur SA til að grunnlaun verði hækkuð en jafnframt verði samningsbundnar álagsgreiðslur á laun lækkaðar s.s. fyrir yfirvinnu og vaktavinnu. Skv. heimildum Morgunblaðsins er vilji innan verkalýðshreyfingarinnar til að skoða breytingar af þessu tagi út frá samanburði við nágrannalöndin og vinna að uppbyggingu nýs launakerfsins, þar sem meiri áhersla er lögð á dagvinnulaunin. Í kröfugerð iðnaðarmanna er t.a.m. lögð rík áhersla á endurskoðun launakerfa. En þrátt fyrir að hugmyndir af þessu tagi eigi hljómgrunn innan ASÍ er engu að síður mikil óánægja innan verkalýðshreyfingarinanr gagnvart SA fyrir að spila út tillögunum með þessum hætti og á þessum tímapunkti. Hörð kjaradeila er í gangi milli SA og stéttarfélaganna í SGS, þar sem flestir hópar vinna skv. töxtum sem eru langt undir 300 þús kr. á mánuði og margir þurfa að framfleyta sér með yfirvinnu. Almenn viðbrögð innan verkalýðsfélaganna hafa því verið þau að SA sé ekki að bjóða aðra lausn en þá að launafólk eigi sjálft að borga fyrir umsamdar launahækkanir með því að taka þær af álagsgreiðslunum. Þetta útspil SA geti því tafið fyrir því að raunveruleg vinna við endurskoðun samninga komist í gang. Innan SA er á móti bent á að hugmyndir í þessa veru hafi verið ræddar í viðræðum við alla viðsemjendur SA á umliðnum vikum og eigi ekki að koma á óvart. Nú hafi verið gefið út með skýrum hætti að SA sé tilbúið að ráðast í afgerandi uppstokkun launakerfanna ef áhugi sé á því.

Stjórnvöld hafa enn engu spilað út sem talið er geta greitt fyrir lausn kjaraviðræðna skv. heimildum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ríkisstjórnin hefur þó viðrað hugmyndir á bak við tjöldin og m.a. kynnt hugmyndir í húsnæðismálum og drög að frumvarpi sem félagsmálaráðherra hyggst leggja fram. Þessum hugmyndum er fálega tekið og innihaldið sagt vera mjög rýrt. Þær séu ekki í neinu samræmi við þær væntingar sem uppi eru innan ASÍ, hvorki hvað varðar útfærslu né þá fjármuni sem setja á í endurbætur í húsnæðismálum. „Það er ekkert í þeim spilum sem gefur tilefni til að ætla að þetta hjálpi neitt til,“ segir viðmælandi innan ASÍ.

Ríkisstjórn veiti virkan stuðning

„Við höfum verið að taka púlsinn á okkar aðildarfyrirtækjum og það er alveg ljóst að menn sjá engan veginn fram á að geta mætt svona launakröfum án þess að af því leiddi mikið tjón með stóraukinni verðbólgu og fækkun starfa,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, um launakröfur verkalýðshreyfingarinnar. SA standi annars vegar frammi fyrir kröfum um 20-45% hækkanir í árssamningum og hins vegar kröfum SGS um 50-70% hækkanir í þriggja ára samningi.

„Hins vegar höfum við fundið mikinn stuðning við okkar útspil um að stokka upp launakerfin, endurskoða álagsgreiðslur og hækka grunnlaun á móti. Það gæti þá verið hluti af lausn í þeirri stöðu sem nú er uppi,“ segir hann.

„Ég held að það sé mjög brýnt að allir aðilar sýni ábyrgð í þeirri stöðu sem uppi er, setjist niður sameiginlega og með ríkisstjórninni með það að markmiði að leita lausna á þeim deilum sem uppi eru,“ segir Þorsteinn. Ná þurfi samstöðu milli aðila vinnumarkaðarins um leið til lausnar og mjög virkan stuðning þurfi frá ríkisstjórninni, sem koma verði að yfirstandandi kjaradeilum með mjög afgerandi hætti svo ná megi sátt um framhaldið og varðveita stöðugleikann.