[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Eftir að hafa notast við sama byrjunarlið í öllum fjórum leikjum undankeppni EM í knattspyrnu í haust, með árangri upp á 2.

Fréttaskýring

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Eftir að hafa notast við sama byrjunarlið í öllum fjórum leikjum undankeppni EM í knattspyrnu í haust, með árangri upp á 2. sæti og 75% sigurhlutfall, er ljóst að Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck þurfa að breyta til fyrir leikinn við Kasakstan ytra eftir slétta viku. Theódór Elmar Bjarnason hefur byrjað alla leikina sem hægri bakvörður en er ekki í hópnum sem valinn var í leikinn þar sem hann á við meiðsli að stríða.

Þessi vandi er ekki sá stærsti sem landsliðið glímir við fyrir þennan erfiða útileik á yfirbyggðu gervigrasi Kasakstans. Raunar átti Elmar arfaslaka frammistöðu í síðasta leik, tapinu gegn Tékkum ytra, og Birkir Már Sævarsson leysti hann af hólmi í seinni hálfleik með alla sína reynslu af hlutverkinu. Hið sama verður vísast niðurstaðan hvað varðar næsta byrjunarlið.

Viðvörunarbjöllur klingja hærra vegna stöðunnar á sóknarmönnum Íslands. Hinir sömu fjórir urðu fyrir valinu í hópinn í gær og gegn Tékkum, og af þeim getur Viðar Örn Kjartansson einn talist í góðu leikformi. Kolbeinn Sigþórsson er nýkominn af stað eftir meiðsli, Jón Daði Böðvarsson er á undirbúningstímabili og var lélegur gegn Tékkum, og Alfreð Finnbogason hefur samtals leikið 20 mínútur síðasta mánuðinn. Engin draumastaða þegar brjóta þarf á bak aftur þéttan varnarmúr. Lausnin við þessu gæti verið falin í 36 ára gömlum leikmanni í ensku B-deildinni, galdramanninum Eiði Smára Guðjohnsen, sem snýr aftur í hópinn eftir að hafa síðast spilað með landsliðinu í HM-umspilsleikjunum fyrir 16 mánuðum. Á fréttamannafundi í gær virtust þjálfararnir sem minnst vilja gera úr mikilvægi endurkomu Eiðs, en hún vegur mikið, sérstaklega miðað við ofangreint ástand. Auðvitað gætu Kolbeinn og Jón Daði byrjað leikinn líkt og alla fjóra hingað til, en það er gott að vita af markakóngi landsliðsins til taks. Jóhann Berg Guðmundsson bankar fast á sæti að nýju í byrjunarliðinu eftir að hafa misst það vegna meiðsla í haust.

Hópurinn sem tilkynntur var í gær er sá sami og mun mæta Eistlandi í vináttulandsleik ytra 31. mars. Ljóst er að sá leikur verður nýttur til að gefa þeim tækifæri sem lítið eða ekkert hafa spilað í undankeppninni. Tveir reynsluboltar hverfa úr hópi miðjumanna frá því sem verið hefur, þeir Helgi Valur Daníelsson og Ólafur Ingi Skúlason, en Guðlaugur Victor Pálsson kom inn að nýju. Jón Guðni Fjóluson og Haukur Heiðar Hauksson koma inn í hóp varnarmanna en þeir voru líkt og Victor í B-hópnum sem mætti Kanada í vináttuleikjum í Flórída í janúar. Sölvi Geir Ottesen og Hólmar Örn Eyjólfsson eru meiddir.

Þessir fara til Kasakstan

MARKVERÐIR

Hannes Þór Halldórsson, Sandnes

Ögmundur Kristinsson, Randers

Ingvar Jónsson, Start

VARNARMENN

Birkir Már Sævarsson, Hammarby

Ragnar Sigurðsson, Krasnodar

Kári Árnason, Rotherham

Ari Freyr Skúlason, OB

Hallgrímur Jónasson, OB

Jón Guðni Fjóluson, Sundsvall

Hörður B. Magnússon, Cesena

Haukur Heiðar Hauksson, AIK

MIÐJUMENN

Eiður Smári Guðjohnsen, Bolton

Aron Einar Gunnarsson, Cardiff

Emil Hallfreðsson, Verona

Birkir Bjarnason, Pescara

Jóhann B. Guðmundsson, Charlton

Rúrik Gíslason, FC Köbenhavn

Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea

Guðl. Victor Pálsson, Helsingborg

SÓKNARMENN

Kolbeinn Sigþórsson, Ajax

Alfreð Finnbogason, R.Sociedad

Jón Daði Böðvarsson, Viking

Viðar Örn Kjartansson, Jiangsu