Nýbygging Hjúkrunarheimilið er byggt við húsnæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum enda rekur HSA hjúkrunarheimilið.
Nýbygging Hjúkrunarheimilið er byggt við húsnæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum enda rekur HSA hjúkrunarheimilið. — Ljósmynd/Austurfrétt
„Þó að bætt aðstaða fyrir heimilisfólkið sé stóra málið er byggingin einnig mikilvægt framfaramál fyrir starfsfólkið.

„Þó að bætt aðstaða fyrir heimilisfólkið sé stóra málið er byggingin einnig mikilvægt framfaramál fyrir starfsfólkið. Að mínu mati og vonandi annarra er aðstaðan að öllu leyti hin glæsilegasta,“ segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og formaður byggingarnefndar nýs hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum.

Nýtt hjúkrunarheimili við Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum verður vígt í dag. Unnið hefur verið að verklegum framkvæmdum frá því í byrjun árs 2013 en undirbúningur hefur staðið mun lengur. Byggingarnefnd var kosin fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010.

„Eins og efnahagsástandið var þegar við vorum að síga af stað með þessa framkvæmd var sveitarfélagið ekki í stakk búið til að fara í stórframkvæmdir og atvinnulífið var í lægð. Hjúkrunarheimilið var eina framkvæmdin sem við lögðum í,“ segir Gunnar. Sveitarfélagið fjármagnar framkvæmdina en fær 85% hlut ríkisins til baka í gegn um leigugreiðslur á mörgum árum.

Gunnar segir að brýn þörf sé fyrir nýtt hjúkrunarheimili. Fólkið búi við óviðunandi aðstæður á hjúkrunarheimili HSA, tveir og í sumum tilvikum allt að fjórir saman í herbergi.

Byggt vel við vöxt

Heimilið er byggt vel við vöxt því í því eru 40 hjúkrunarrými. Heimild er fyrir 30 rýmum en þau 10 sem eftir eru verða leigð til sjúkrahússins. Í eldra hjúkrunarheimilinu eru 23 heimilismenn sem flytja í nýju bygginguna og sjö bætast í hópinn.

Hjúkrunarheimilið er byggt við HSA og mun Heilbrigðisstofnunin reka það. Segir Gunnar að í því felist ákveðin samlegðaráhrif og hafi samreksturinn gengið vel.

Kostnaður við bygginguna losar hálfan annan milljarð, þegar upp verður staðið. Frágangi utanhúss er ekki alveg lokið en íbúarnir flytja inn fljótlega eftir páska.

helgi@mbl.is