Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir fleiri einstaklinga búna að skila skattframtali í ár en á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur þremur prósentustigum. Sé farið enn aftar í tímann nemur aukningin sex til sjö prósentustigum.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir fleiri einstaklinga búna að skila skattframtali í ár en á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur þremur prósentustigum. Sé farið enn aftar í tímann nemur aukningin sex til sjö prósentustigum. Tæplega 106 þúsund af 267 þúsund einstaklingum eru búnir að skila skattframtali. Hafi einstaklingar ekki óskað eftir fresti var síðasti skiladagur í gær, föstudag. Hann segir að þeir sem óskað hafa eftir fresti skipti tugum þúsunda.

Skúli Eggert segir ekki ljóst hvað það sé sem valdi aukningunni, en leiðir að því líkur að það sé vegna breyttrar auglýsingastefnu og aukins þjónustuþáttar hjá RSK en viðvera er lengri hjá starfsmönnum embættisins í ár en undanfarin ár.

Hann reiknaði með miklum fjölda framtala í gærkvöldi. Svo kæmi „önnur súpa“ í kringum 30. og 31. mars og strax eftir páska. Hann segir að fyrir flesta taki það ekki nema fimm til fimmtán mínútur að skila framtalinu enda sé það nánast tilbúið í mörgum tilfellum.

Undirbúningurinn hófst 1992

Skúli Eggert segir fyrirkomulagið eins og við þekkjum það í dag vera fimmtán ára gamalt. „Undirbúningurinn að þessu hófst árið 1992, að snúa þessu við. Áður var það þannig að öll gögn voru send til framteljenda og fólk fyllti þetta út handvirkt og svo þurfti að fara handvirkt yfir þetta,“ segir Skúli og bætir við að það hafi tekið um 15 ár að koma fyrirkomulaginu í það form sem stefnt var að árið 1992.