Stefanía Jónasdóttir
Stefanía Jónasdóttir
Eftir Stefaníu Jónasdóttur: "Til þeirra sem öskra á Austurvelli, hugsið ykkur vel um, um hvað eruð þið að biðja?"

Ekki er mikið litið til framgöngu stjórnarandstöðunnar sem verið hefur til skammar frá kosningum. Ég hef fylgst með þinginu, og það er varla að nokkurt mál fari í gegn vegna reiði, plotts og undirferlis þeirra, þau eru reið yfir að hafa tapað kosningunum og hafa ekki vit til að vera málefnaleg. Píratar og Björt framtíð eru meðvirk í þessu gerræði.

En nú fóru þau yfir strikið með bréfi um utanríkismál okkar til annarra þjóða. Þið talið ekki um það, hinn öskrandi lýður á Austurvelli, og það er kannski framtíðin að grenja utan í öðrum þjóðum um okkar mál. Ekkert heyrist í hinum frábæru stjórnsýslu- og stjórnmálafræðingum sem þykir lekamálið svo einstakt, en hversu nálægt landráðum er þetta bréf? Fræðingarnir geta ef til vill svarað því hvernig stjórna eigi landinu með svona „kexruglaða“ stjórnarandstöðu? Til þeirra sem öskra á Austurvelli, hugsið ykkur vel um, um hvað eruð þið að biðja? Misnotið ekki lýðræðið í þágu undirferlis. Markmiðið er að ríkisstjórnin verði sér til athlægis en það er hún sjálf sem er til skammar og hefur niðurlægt sig sjálf og þjóðina.

Þið sem öskrið eftir því að stjórnarandstaðan komist til valda, eruð þið að biðja um stjórnleysi? Svo verði ykkur að góðu.

Þið hafið ekki hugmynd um hvað þið eruð að biðja um. Svo mikið er víst, þið eruð að hjálpa peningaelítunni, sem vill í ESB.

Höfundur býr á Sauðárkróki.