Baldvin Berndsen fæddist 27. febrúar 1943. Hann lést 24. febrúar 2015. Útför Baldvins var gerð 5. mars 2015.

Pabbi er fallinn frá. Þetta er ein af þessum setningum sem maður vill ekki segja. Hann var búinn að eiga í baráttu við sjúkdóm sem vinnur oftast, hann barðist af öllum sínum krafti.

Það er með miklum trega sem ég kveð þig með nokkrum orðum sem rifja upp góðar stundir. Svo margar minningar koma upp í huga mér á þessari stundu, allt það sem þú kenndir mér, allir þeir staðir sem við fórum á, allt það sem þú sagðir mér frá. Það voru margar ferðirnar sem við fórum saman, þú kallaðir það „bíltúr“ eða „roadtrip“. Stundum var það aðeins til þess að fá sér ís einhversstaðar og stundum var það til þess að spila golf. Þeir voru margir golfvellirnir sem við spiluðum á, þar sem þú kenndir mér þessa skemmtilegu íþrótt sem ég hef nú kennt syni mínum Baldvin Þór, „Thirdinum“, eins og þú kallaðir hann. Allir sem þekktu þig vita af áhuga þínum á öllum íþróttum, ófá skiptin sem við horfðum á t.d. golf, knattspyrnu, körfubolta, íshokkí ásamt Ólympíuleikum og HM. Þegar ég var yngri fór ég oft með þér á golfmót með félögum þínum úr fluginu. Þessi mót voru haldin í USA, Íslandi, Luxemborg og víðar. Mér fannst það heiður að fá að vera „caddy“ hjá þér og fylgja þér á þessum mótum, minningarnar er mjög miklar frá þessum árum.

Það var mikið sem þú kenndir mér, um lífið, fjölskyldu, vinnusiðferði ásamt framkomu við náungann. Að koma fram við náungann eins og þú vilt láta koma fram við þig.

Þú varst svo mikill heimsmaður og vel að þér í svo mörgu sem varð til þess að við gátum alltaf talað saman um alla hluti, vorum nú oftast sammála þó svo að þú hafir haldið með Arsenal en ég Liverpool.

Elsku pabbi, það verða minningarnar um þig sem munu lifa lengi í huga mér. Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér og gefið mér og fjölskyldu minni.

Guð geymi þig og varðveiti.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin, sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn, faðir, lífsins ljós,

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín, lífsins rós,

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn, láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál,

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Baldvin Örn Berndsen.

Vinátta okkar Badda spannaði rúmlega fimmtíu ár og það gleðilega og ánægjulega er að ekki er að finna neitt nema góðar og skemmtilegar minningar. Snemma myndaðist lítil klíka með okkur Badda, Sigga Stef., Sigga Elís og Valda og fannst okkur á þeim tíma við mjög mikivægir og áberandi í þjóðlífinu enda umsvifin mikil. Smalað var í eina brennivín og Þórskaffi en fórum yfirleitt á undan á billjardstofuna í Einholti. Svo komu helgarnar og þá var smalað fyrir leigubíl til að fara á sveitaböll. Tíminn leið og Baddi fór að vinna hjá Loftleiðum sem fljótlega sáu hæfileika hans og fluttu hann til starfa í New York. Við hjónin heimsóttum Badda oft og var ferðast víða, meðal annars til Brasilíu en mest fannst okkur gaman á Púertó Ríkó, sem var mikil ævintýraferð. Ég gæti skrifað heila bók um allt sem við brölluðum saman, en nú, kæri vinur, kveð ég þig með söknuði og sendi öllum aðstendendum samúðarkveðjur.

Guð blessi þig vinur minn,

Þórarinn í Laxnesi.