Önnur moskanna í Sanaa í gær.
Önnur moskanna í Sanaa í gær.
Að minnsta kosti 142 biðu bana í þremur sprengjuárásum á tvær moskur sjíta í Sanaa, höfuðborg Jemens, í gær. Um 350 manns særðust í árásunum, að sögn embættismanns í heilbrigðisráðuneyti landsins.

Að minnsta kosti 142 biðu bana í þremur sprengjuárásum á tvær moskur sjíta í Sanaa, höfuðborg Jemens, í gær. Um 350 manns særðust í árásunum, að sögn embættismanns í heilbrigðisráðuneyti landsins.

Áður óþekktur hópur liðsmanna Ríkis íslams, samtaka íslamista, í Sanaa lýsti árásunum á hendur sér í yfirlýsingu á netinu. Hryðjuverkasamtökin hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald og lýstu því yfir í nóvember síðastliðnum að þau hefðu hafið starfsemi í Jemen. Árásirnar á moskurnar eru þær fyrstu sem liðsmenn samtakanna lýsa á hendur sér í Jemen.

Glundroði hefur ríkt í landinu frá því að einræðisherrann Ali Abdullah Saleh hrökklaðist frá völdum árið 2012. Saleh er sakaður um að styðja uppreisnarhreyfinguna Houthi sem hefur náð höfuðborginni á sitt vald. Forseti landsins, Abedrabbo Mansour Hadi, slapp úr stofufangelsi í Sanaa í febrúar og flúði til borgarinnar Aden sem er á valdi stuðningsmanna hans.

Uppreisnarhreyfingin Houthi, sem er skipuð sjítum, er talin njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Hreyfingin hefur reynt að ná fleiri svæðum í Jemen á sitt vald en mætt mótspyrnu vopnaðra hópa súnníta og liðsmanna hryðjuverkahreyfingarinnar al-Qaeda á Arabíuskaga. bogi@mbl.is