Skóflustunga „Þetta var mögnuð stund,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson.
Skóflustunga „Þetta var mögnuð stund,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson. — Morgunblaðið/Golli
„Ég er enn með gæsahúð,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, eftir sólmyrkvaathöfn, sem ásatrúarmenn héldu á Öskjuhlíð í Reykjavík í gærmorgun.

„Ég er enn með gæsahúð,“ sagði Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, eftir sólmyrkvaathöfn, sem ásatrúarmenn héldu á Öskjuhlíð í Reykjavík í gærmorgun. Að athöfninni lokinni var fyrsta skóflustungan tekin á lóð Ásatrúarfélagsins en þar mun rísa fyrsta höfuðhof álfunnar í þúsund ár.

Eigna sér heiðurinn af veðrinu

„Þetta var mögnuð stund og við eignum okkur alfarið heiðurinn af þessu góða veðri,“ sagði Hilmar Örn. „Við tókum guðina á teppið og pöntuðum þetta veður sérstaklega.“

Að sögn Hilmars Arnar mættu yfir 300 manns í Öskjuhlíðina, flestir með sólmyrkvagleraugu eða önnur tæki og tól til sólmyrkvaskoðunar. „Margir voru með sótað gler og notuðu brotna geisladiska til að horfa á sólmyrkvann og höfðu greinilega gúglað ýmsar aðferðir sem ég hef ekki séð áður,“ segir Hilmar Örn.

Sólmyrkvaathöfnin hófst kl 08.38 við upphaf sólmyrkvans. „Þessi tímasetning er hlaðin merkingu og er afskaplega merkileg,“ sagði Hilmar Örn. „Sól og tungl í samstöðu að fara inn í hrútsmerkið. Þetta er afskaplega táknræn ný byrjun og mjög merkileg stjörnuspekilega séð.“

Að lokinni sólmyrkvaathöfninni tók Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fyrstu skóflustunguna að hinu nýja hofi Ásatrúarmanna og svæðið og samkoman voru helguð. amb@mbl.is