Nágrannarnir í höfuðborg Spánar, Evrópumeistararnir Real Madrid og Spánarmeistararnir Atlético Madrid, drógust í gær saman í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Nágrannarnir í höfuðborg Spánar, Evrópumeistararnir Real Madrid og Spánarmeistararnir Atlético Madrid, drógust í gær saman í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Atlético varð óvænt spænskur meistari í fyrra en Real hefndi fyrir það með því að vinna framlengdan úrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni, 4:1, í Lissabon.

París SG dróst gegn Barcelona, Porto mætir Bayern München og Juventus dróst gegn Mónakó.

París SG og Barcelona voru saman í riðli í keppninni í vetur og þar höfðu Frakkarnir betur í París, 3:2, en Barcelona á Camp Nou, 3:1. Liðin mættust líka í 8 liða úrslitum fyrir tveimur árum og þá slapp Barcelona naumlega áfram á fleiri mörkum á útivelli eftir að þau voru jöfn, 3:3, samanlagt.

Fyrri leikir liðanna fara fram 14. og 15. apríl en seinni leikirnir 21. og 22. apríl. Dregið verður til undanúrslitanna 24. apríl. Þau verða leikin 5. til 13. maí en úrslitaleikurinn fer fram á Ólympíuleikvanginum í Berlín laugardaginn 6. júní.

Í Evrópudeildinni drógust saman Sevilla gegn Zenit Pétursborg, Club Brugge gegn Dnipro, Dynamo Kiev gegn Fiorentina og Wolfsburg gegn Napoli. Þessir leikir fara fram 16. og 23. apríl. vs@mbl.is