Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Fimmtudaginn 12. mars hélt meirihlutinn í borgarstjórn fund með íbúum um fyrirhugaða þrengingu Grensásvegar. Á fundinum voru fimm frummælendur. Töluðu allir fyrir þrengingu en enginn fyrir andstæðum sjónarmiðum. Að morgni miðvikudagsins 18.

Fimmtudaginn 12. mars hélt meirihlutinn í borgarstjórn fund með íbúum um fyrirhugaða þrengingu Grensásvegar. Á fundinum voru fimm frummælendur. Töluðu allir fyrir þrengingu en enginn fyrir andstæðum sjónarmiðum.

Að morgni miðvikudagsins 18. mars, þremur virkum dögum síðar, var þrengingin borin upp í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar og samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans.

Þetta er dæmi um samráð meirihlutans í borgarstjórn við borgarbúa.

Samráðið er aðeins sýndarmennska, enginn vilji er til að gefa borgarbúum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða hlusta á þá. Og eftir sýndarsamráðið er málið keyrt í gegn með hraði og minnsta mögulega stuðningi.

Um leið er þetta dæmi um forgangsröðun meirihlutans.

Götur borgarinnar eru nánast ein samfelld hola og orðnar stórhættulegar, en samt ákveða borgaryfirvöld að setja hundruð milljóna í þarflausar og jafnvel skaðlegar þrengingar.

Borgaryfirvöld sem starfa með þessum hætti eru augljóslega ekki í nokkrum tengslum við borgarbúa eða við það ástand sem ríkir í borginni og hafa ekki áhuga á að vinna að neinu öðru en eigin gæluverkefnum.