Tvær viðbjóðslegar sjálfsmorðsárásir auka enn á vandann

Óöldin í Jemen hefur tekið á sig mjög ófagra mynd síðustu daga. Bardagar hörðnuðu mjög á fimmtudag á milli uppreisnarmanna úr hópi sjía-múslima og súnní-múslima, en þeir síðarnefndu eru hliðhollir stjórnvöldum. Í gær versnaði ástandið enn þegar tveir sjálfsmorðssprengjumenn gerðu árás á tvær moskur í höfuðborginni Sanaa, sem sjíar sækja. Árásin var gerð á föstudegi, og var tímasetning árásinnar til þess fallin að valda sem mestu manntjóni, en að minnsta kosti 140 manns féllu í árásunum og um 340 manns særðust illa í þeim. Samkvæmt óstaðfestum fréttum hefur Ríki íslams tekið á sig ábyrgðina á ódæðinu.

Saga Jemena hefur verið róstusöm í gegnum tíðina, en landið var um langa hríð tvískipt vegna kalda stríðsins og sameinaðist ekki aftur fyrr en um það leyti sem Berlínarmúrinn féll. Jemenar hafa háð nokkur borgarastríð sín á milli og segja má að rósturnar nú, sem staðið hafa frá árinu 2011, séu í raun bara framlenging á þeirri miklu ófriðarsögu. Deilurnar nú hafa, líkt og annars staðar í Mið-Austurlöndum, verið einkum á milli trúarhópa sjía- og súnní-múslima, og endurspeglar baráttan á milli þessara hópa að einhverju leyti valdataflið sem nú stendur yfir á milli Írana og Sádí-Araba um ítök í arabaheiminum.

Það er hins vegar ný og uggvænleg staða sem komin er upp, reynist það rétt að Ríki íslams standi að baki hinu viðurstyggilega voðaverki, en það væri þá fyrsta árásin sem samtökin bera ábyrgð á í Jemen, þó að nokkuð sé síðan þau lýstu því yfir að þau væru búin að teygja anga sína þangað. Þátttaka Ríkis íslams í jemenska ófriðnum flækir stöðuna heilmikið. Í staðinn fyrir deilu á milli ríkisstjórnar landsins og hóps sjía, sem ósáttir voru við stöðu sína innan ríkisins, er nú blásið undir allsherjar trúarbragðastríð í landinu. Líklegt er því að ofbeldið eigi enn eftir að færast í vöxt í Jemen og að enn fleiri, jafnt saklausir borgarar sem bardagamenn, muni láta lífið.