Alþingi Traustið á þinginu minnkaði um 6 prósentustig milli ára.
Alþingi Traustið á þinginu minnkaði um 6 prósentustig milli ára. — Morgunblaðið/Eggert
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is Landsmenn bera mest traust til Landhelgisgæslunnar af helstu stofnunum landsins, samkvæmt niðurstöðum í nýjum Þjóðarpúls Gallup. Samtals treystir 81% Gæslunni.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Landsmenn bera mest traust til Landhelgisgæslunnar af helstu stofnunum landsins, samkvæmt niðurstöðum í nýjum Þjóðarpúls Gallup. Samtals treystir 81% Gæslunni. Minnst traust bera landsmenn til bankakerfisins eða 12% og næstminnst til Alþingis eða 18% en þess má geta að það er 6 prósentustigum minna en á sama tíma í fyrra.

HÍ og lögreglan ofarlega

Fjármálaeftirlitið er í þriðja sæti neðan frá en 21% treystir því og er embætti Umboðsmanns skuldara í því fjórða með 28%. Þær þrjár stofnanir sem skipuðu efstu sætin eru þær sömu og hafa verið þar síðustu ár en á eftir Landhelgisgæslunni kemur lögreglan með 77% traust og þá Háskóli Íslands með 72%.

Í frétt frá Gallup kemur fram að þó að Landhelgisgæslan skipi efsta sætið þá mælist traustið átta prósentustigum minna en síðasta ár. Sex af hverjum tíu bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, um 43% bera mikið traust til embættis forseta Íslands og sama hlutfall til dómskerfisins.

Mesta hækkun á milli ára má sjá hjá ríkissáttasemjara en traust til hans hækkar upp í 51% eða um þrettán prósentustig. Þátttökuhlutfall var 58,0% og úrtaksstærð 2.900 einstaklingar.