Kortlagning Sigurður Einarsson akritekt, Guðjón Arngrímsson og Leó Árnason forsvarsmenn verkefnisins og lengst til hægri Snorri Freyr Hilmarsson sem er hönnuður nýbyggðarinnar.
Kortlagning Sigurður Einarsson akritekt, Guðjón Arngrímsson og Leó Árnason forsvarsmenn verkefnisins og lengst til hægri Snorri Freyr Hilmarsson sem er hönnuður nýbyggðarinnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Nýr miðbær á Selfossi skapar alveg sterka stöðu. Nálgunin í þessu verkefni er önnur en sést hefur hingað til.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Nýr miðbær á Selfossi skapar alveg sterka stöðu. Nálgunin í þessu verkefni er önnur en sést hefur hingað til. Í anda þess sem gerðist um aldamótin 1900 verður þarna lágreist byggð endurgerðra timburhúsa. Þau hafa skemmtilegan svip og þarna skapast möguleika fyrir ýmsa atvinnustarfsemi. Þar horfum við meðal annars til verslunar og þjónustu við ferðafólk,“ segir Guðjón Arngrímsson.

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í fyrradag, vilyrði fyrir úthlutun miðbæjarsvæðisins á Selfossi til Sigtúns þróunarfélags ehf. um uppbyggingu alhliða þjónustukjarna. Í verkefni þessu er undir alls 2,5 ha. svæði, meðal annars reitur beint andspænis Ölfusárbrú þegar ekið er inn í bæinn.

Áform um uppbyggingu umrædds svæðis hafa lengi verið í deiglunni og ýmsum hugmyndum verið varpað fram. Miðbæjarmálin eystra komust þó fyrst á hreyfingu fyrir um ári þegar Guðjón Arngrímsson, blaðafulltrúi Icelandair, og Leó Árnason athafnamaður, sem báðir eru frá Selfossi, kynntu bæjaryfirvöldum hugmyndir sínar. Þar var málinu var strax sýndur áhugi, svo gerlegt varð að stíga skrefin lengra. Um verkefnið var stofnað Sigtún þróunarfélag ehf. og samþykki bæjaryfirvalda í Árborg um miðbæjarsvæðið, sem er til sex mánaða, er bundið félaginu.

Hjartað er autt

Nokkuð er síðan vilyrði bæjaryfirvalda fékkst og var þá leitað til Batterísins arkitekta og Snorra Freyrs Hilmarssonar hönnuðar sem er höfundur þeirra teikninga að nýjum miðbæ sem fyrir liggja.

„Mér hefur runnið til rifja að sjá miðbæinn, hjarta Selfoss, standa auðan en um tíu ár eru frá því síðustu húsin þar voru rifin. Tækifærin þarna óþrjótandi og mikilvægt að nýta þau meðal annars í tengslum við ferðaþjónustu. Á því sviði liggja sóknarfæri Selfoss, hundruð þúsunda ferðamanna fara um bæinn á hverju ári án þess að staldra við að neinu ráði. Því viljum við breyta. Rætt hefur verið um að skapa þurfi fleiri raunverulegar ástæður til þess að fólk hafi viðdvöl í bænum og það tilefni er svo sannarlega komið þegar nýja miðbæjarþorpið hefur verið reist,“ segir Leó Árnason.

Hótel Valhöll, Friðriksgáfa og Sigtún

Sögulegur áhugi þeirra Guðjóns og Leós skapaði þá hugmynd sem nú er orðin að samþykktri tillögu. Til stendur að byggja 20-30 hús sem öll eiga sér sögulegar fyrirmyndir. Frá Selfossi má þarna nefna Sigtún Kaupfélags Árnesinga, verslunarhús S.Ó. Ólafssonar og gömlu símstöðina en áratugir eru síðan þessar byggingar hurfu af sjónarsviðinu. Einnig eru til hliðsjónar hafðar byggingar eins og gamla sýslumannshúsið í Kaldaðarnesi í Flóa, Hótel Valhöll á Þingvöllum, Hótel Þrastarlundur í Grímsnesi, Edinborgarhúsið og gamla Apótekið í miðbæ Reykjavíkur og Friðriksgáfa á Möðruvöllum í Hörgárdal.

„Svipur þessar nýju byggðar á að vera sterkur og mynda heild,“ útskýrir Guðjón um verkefnið þar sem þrír fletir eru undir. Í fyrsta lagi er það svonefndur Miðbæjarreitur andspænis Ölfusárbrú, þá Sigtúnsreitur sem er lítið eitt austar og Árvegsreistur, þar er svæði nærri bakka Ölfusár austan byggingarinnar þar sem nú er meðal annars verslun Krónunnar. Á þessum stöðum verða útbúnar götur og húsin reist við þær.

Lánað náist langtímaleiga

„Við sjáum fyrir okkur að í miðbæjarkjarnanum verði þjónustufyrirtæki, veitingastaðir, verslanir, handverksstarfsemi, íbúðir og fleira. Atvinnustarfsemi og mannlíf eiga að spila saman. Á næstu mánuðum verða húsin auglýst til leigu fyrir margháttaða starfsemi og búsetu,“ segir Leó.

Fjármögnun verkefnisins alls, sem bankar hafi sýnt áhuga, er að sögn Leós Árnasonar þó háð því að langtímasamningar um leigu eignanna náist. Er nú rætt við áhugasama um leigu á húsunum sem verða öll í eigu Sigtúns þróunarfélags ehf. Þar á bæ áætlamenn að kostnaður við þessa uppbyggingu sé 2,5 til 3,0 milljarðar króna og verkefninu ljúki vorið 2017.

Minnisvarði um miðaldakirkju

Hluti af uppbyggingunni nýju er sögusýning í torfbæ og tengdum byggingum. Við uppbyggingu sýningahaldsins verður lögð áhersla á daglegt líf og byggingarsögu á Suðurlandi frá landnámi til líðandi stundar.

„Þetta nær allt frá smæstu kotbýlum til stórbýla og minnisvarða um reisulegar dómkirkjur miðalda,“ segir Guðjón Arngrímsson sem á sínum tíma kannaði á vegum Icelandair og tengdra félaga möguleika á því að reisa Skálholtskirkju í miðaldastíl. Ekki reyndist hljómgrunnur fyrir því verkefni, sem því var lagt til hliðar.

„Þó að við sjáum fyrir okkur mjög fjölbreytta starfsemi í nýja miðbænum á Selfossi er ferðaþjónustan útgangspunkturinn. Sagan verður sögð meðal annars með því að veita gestum innsýn í þróun matarhefða, enda Suðurlandið matarkista,“ segir Leó. Bætir við að sýningarsvæði við torfbæ og minnisvarða um dómkirkju tengjast við bæjargarðinnn á Selfossi. Hann verði nú, með samþykkt bæjaryfirvalda í Árborg, endurhannaður með tilliti til útivistar og ýmissa bæjarhátíða.

Opið hús verður í Tryggvaskála á Selfossi í dag, laugardag, frá kl. 11-17. Þar liggja frammi uppdrættir og teikningar og áhugasömum gefst kostur á að ræða við forsvarsmenn verkefnisins og kynna sér hugmyndirnar nánar. Þá er verkefnið einnig kynnt á slóðinni www.midbaerselfoss.is

Hughrif úr gömlum bæjarkjarna eru á sannfærandi stað

„Aðalútgangspunktur skipulagsins er dæmigert íslenskt þorp eins og algengt var að þau byggðust upp, um og eftir aldamótin 1900,“ segir Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu. Þar á bæ munu menn hafa umsjón með deiliskipulagi svæðisins og því móta heildarsvip hins nýja miðbæjar á Selfossi.

Tenging nýja miðbæjarins við umhverfi sitt er aðalgatan inn á svæðið, sem er beint andspænis Ölfusárbrú. Sú útfærsla, að byggð umhverfis bæjargötu mætti brúnni, var raunar inntakið í fyrsta skipulagsuppdrættinum af Selfossi 1939. Notkun húsanna, sem flest eru tveggja hæða verður í meginatriðum sú að á neðri hæð verða verslanir og þjónustufyrirtæki en íbúðir á efri hæðum.

Reynslan sýnir að gömul hús eru aðdráttarafl í ferðaþjónustu. Þar má nefna Stykkishólm, eyrina á Ísafirði, innbæinn á Akureyri – og í Reykjavík og Hafnarfirði eru byggðir gamalla timburhúsa, sem hafa heildstæðan svip

„Á Selfossi eru allar forsendur fyrir því að móta sannfærandi stað sem gefur hughrif eins og þau gerast best í gömlum grónum byggðarkjörnum. Fagleg útfærsla húsanna er lykilatriði enda gefum við lítinn afslátt frá ytra útliti þeirra gömlu horfnu húsa sem eru fyrirmyndir í hinni nýju byggð.“